Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), segir hugsanlega húsnæðisþörf Grindvíkinga vegna jarðhræringa bætast við uppsafnaða þörf á markaði. „Það vantar íbúðir fyrir markaðinn á Íslandi og í Grindavík

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), segir hugsanlega húsnæðisþörf Grindvíkinga vegna jarðhræringa bætast við uppsafnaða þörf á markaði.

„Það vantar íbúðir fyrir markaðinn á Íslandi og í Grindavík. Við erum að byggja of lítið. Við hjá HMS höfum sagt að það þurfi að byggja 4.000 íbúðir árlega næstu fimm árin að minnsta kosti og meta svo stöðuna frá ári til árs. Við erum hins vegar ekki að byggja nema tæplega 3.000 íbúðir árlega 2022 til 2025 en hefðum viljað vera farin að nálgast 4.000 íbúðir á ári,“ segir Hermann.

Hann rifjar svo upp rammasamning milli ríkis og sveitarfélaga sem var undirritaður í fyrra. Þar hafi verið kynnt áform um 35 þúsund íbúðir á tíu árum. Þar af 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin. Raunin sé sem áður segir töluvert færri íbúðir.

Ljóst að það tæki tíma

„Sumarið 2022 var skrifað undir rammasamning milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu 35.000 íbúða á tíu árum til að mæta íbúðaþörf. Þar af 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin. Það tekur tíma að byggja svo margar íbúðir. Þannig að þegar við skrifuðum undir vissum við að það tæki einhver ár að komast upp í 4.000 íbúðir.“

– Má þá álykta að ef það skapast húsnæðisþörf hjá Grindvíkingum þá muni það auka á þetta misræmi sem er milli framboðs og þarfar?

„Já.“

– Hvað ber þá að gera? Á að endurskoða húsnæðisáætlunina?

„Við þurfum að leita allra leiða til þess að auka framboð nýrra íbúða. Sem sagt koma af stað byggingarverkefnum. Það kemur fram í októberskýrslu HMS að það er 70% samdráttur á milli tímabila í nýbyggingum. Við þurfum því að leita allra leiða til þess að örva uppbyggingu og það er svolítið flókið í þessu efnahagsumhverfi.“

– Af hverju?

„Vegna hárra vaxta og verðbólgu. Starfsumhverfi mannvirkjagerðar er þannig í dag að það er áskorun að taka ákvörðun um að hefja framkvæmdir.“

– Ef spár ganga eftir mun erlendum ferðamönnum fjölga á næstu árum. Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá hefur heimagisting verið á uppleið og mun hún að óbreyttu aukast næstu ár.

„Við vitum ekki hvað gerist í Grindavík en ef erlendum ferðamönnum fjölgar þá benda tölur um skammtímagistingu til að hún sé á uppleið. Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að byggja upp þessa öflugu atvinnugrein. Því fylgir að flytja þarf inn vinnuafl. Þannig að íbúðaþörfin eykst samhliða því líka.“

Ekki sami hluturinn

Hermann segir hafa borið á ruglingi í umræðunni varðandi íbúðaþörf og eftirspurn.

„Hugtakið íbúðaþörf lýsir þörf fyrir húsnæði fyrir fólkið sem býr í landinu og þar er stærsta breytan fólksfjöldi og fjöldi í heimili. Hugtakið eftirspurn vísar til getunnar til að kaupa húsnæði á hverjum tíma en hún ræðst af vaxtastiginu og aðgengi að lánsfé. Íbúðaþörfin er enn til staðar og hún eykst meðan við náum ekki að vinna hana niður.“

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni bjuggu um 3.700 manns í Grindavík um áramótin. Það er með öllu óvíst hvaða áhrif jarðhræringarnar munu hafa á húsnæðisþörf þessa fólks.

Hitt liggur fyrir í októberskýrslu HMS að um 3.389 íbúðir voru til sölu á landinu í mánuðinum og voru íbúðir í Grindavík meðtaldar. Á höfuðborgarsvæðinu voru 2.040 íbúðir til sölu og þar af 438 sérbýli. Tekið var fram að tölurnar kynnu að vera ofmat vegna tvítalningar á íbúðum sem eru seldar með fyrirvara.

Framboð íbúða var sagt svipað og fyrir farsóttina en eftir hana var efnt til húsnæðisátaks til að vinna upp uppsafnaðan skort á íbúðum. Þá hafi hrein ný íbúðalán fjármálastofnana til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, dregist mikið saman eins og hér er sýnt á grafi. Verktakar hafa brugðist við minni eftirspurn með því að hægja á uppbyggingu.

Höf.: Baldur Arnarson