Tryggvi Ágúst Sigurðsson fæddist 16. febrúar 1931. Hann lést 31. október 2023. Útför fór fram 10. nóvember 2023.

Elsku afi.

Í 40 ár hefur þú verið kletturinn minn, besti vinur minn, skjólið mitt, röksemdin mín og mín mesta stoð og stytta í gegnum súrt og sætt.

Fyrsta lögheimilið mitt var hjá ykkur ömmu og Nýju á Birkihlíð 11 með mömmu, bjó líka hjá mömmu og ykkur ömmu meðan ég var ólétt að Gretari Inga og fékk hafragraut á hverjum morgni og ís með súkkulaðisósu á hverju kvöldi, sömuleiðis var fyrsta lögheimilið hans Gretars Inga fyrstu þrjá mánuðina á Birkihlíðinni meðan við kláruðum að græja fyrstu íbúðina okkar, þá þótti ykkur ömmu ekkert mjög slæmt þegar við mæðgin komum upp á morgnana og Gretar lá á milli ykkar í rúminu eða var í ömmustólnum á eldhúsborðinu svo það væri hægt að dást að honum.

Enda var eins strengur á milli ömmu og Gretars Inga og var á milli mín og þín.

Ég hef verið með þér í ótal ferðum og brasi sama hvort það var heima, í Ísfélaginu, bústað eða Reykjavíkurferð, það var aldrei stundlegur friður fyrir mér enda grínuðumst við með það eftir að þú fórst á Hraunbúðir að þar fékkstu ekki einu sinni frið því ég elti þig bara þangað líka svo ég gæti aðstoðað þig áfram.

Kemur sér að okkur þótti félagsskapur hvors annars ekkert leiðinlegur, held þér hafi bara fundist ég alveg ágæt, allavega glottirðu bara þegar ég var að koma úr enn einni búðarferðinni fyrir þig eða tók rakvélarnar í djúphreinsun eða tók skyrturnar og straujaði þær því ekki gastu farið í þær óstraujaðar.

Það sem þú varst ánægður með að ég keypti íbúð fyrir okkur mæðgin á Birkihlíðinni 2013 bara ská á móti ykkur þannig að ég og Gretar Ingi vorum enga stund að skjótast yfir götuna til ykkar.

Enda átti Gretar eftir að hlaupa ansi oft yfir til ykkar og það kom sér einstaklega vel þegar bakaraofninn heima hjá mér var í mikilli notkun, já eða eldavélin, þá var bara skellt á sig ofnhönskum og yfir götuna um leið og kakan eða maturinn var tilbúinn.

Það kom sér líka vel þegar þú varst hættur að keyra og þurftir að komast eitthvað eða vantaði aðstoð með sjónvarpið eða tölvuna að ég var bara enga stund að skjótast yfir enda áttirðu það til að hringja frekar í mig en að kalla niður ef eitthvað var.

Allt sem ég kann til að bjarga mér hefur þú kennt mér í gegnum tíðina og svo mikið meira enn það.

Nú er kominn tíminn sem ég hef kviðið fyrir síðan ég áttaði mig á því að þú gætir ekki verið eilífur að geta ekki sagt þér að ég elski þig eða að ég sjái þig á morgun, að geta ekki bakað kökurnar þínar handa þér eða bara knúsað þig og kysst því þín faðmlög voru bara alltaf langbest!

Ég veit að núna líður þér betur og getur gert alla hluti sjálfur, þarft ekki neina aðstoð og fólkið okkar hefur tekið vel á móti þér og passar þig þangað til ég get passað þig aftur.

Ég er búin að vera heppin að fá að hafa þig svona lengi hjá mér, elsku afi minn, en það er samt ekkert auðveldara að kveðja klettinn sinn, ég trúi því samt að við eigum eftir að hittast aftur og mikið hlakka ég til, en þangað til segi ég:

Ég elska þig afi minn, sjáumst seinna.

Þín

Sirrý Árdís.

Elsku afi.

Síðustu ár hef ég reynt að búa mig undir þennan dag, daginn sem ég þarf að kveðja þig. Allt frá mínu fyrsta augnabliki til þíns síðasta þá höfum við átt eitthvað sérstakt saman, eitthvað sem enginn getur lýst. Þú varst minn besti vinur og helsti stuðningsmaður í einu og öllu. Birkihlíðin var alltaf mitt annað heimili. Þar urðu dýrmætar minningar til, ég var orðin 17 ára gömul þegar ég var ennþá að skríða upp í á milli þín og ömmu þegar það féll niður tími í framhaldsskólanum hjá mér, þá lá leiðin alltaf beint niður á Birkihlíð og upp í hlýtt rúmið ykkar ömmu, skömmu síðar varstu farinn fram til að elda hafragraut handa okkur ömmu.

Elsku afi, í minningunni hafðirðu stærstu og sterkustu hendur í heimi, þú hafðir hlýjasta faðminn, gafst bestu knúsin og enginn gat huggað mann eins og þú gerðir. Þú vissir allt, sama hvert viðfangsefnið var þá gastu eitthvað til málanna lagt, enda víðlesinn og fréttasjúkur með eindæmum. Þú hafðir svo gaman af því hvað við vorum ólík, við höfðum ólíkar skoðanir á hreinlega öllu, nema þegar kom að okkur tveimur, þar vorum við sammála, við elskuðum hvort annað skilyrðislaust.

Það er ótrúlegt að finna svona skilyrðislaust fyrir ást einhvers til manns. Þú gast stundum verið hálfdónalegur í garð annarra þegar kom að mér. Þegar þú vissir að von væri á mér í heimsókn fórstu iðulega og keyptir handa mér möndluköku, enda vissirðu að hún væri uppáhaldið mitt. Það mátti samt enginn annar fá sem kom mögulega á undan mér í kaffi. Þú tókst síðustu bitana af lagtertunni hennar ömmu af borðinu til að passa upp á að ég fengi pottþétt minn skammt, eða sagðir ömmu að baka pönnukökur því ég væri á leiðinni. Þessu hlýddu allir í einu og öllu, það var því ekki furða þegar ég hringdi heim á Birkihlíðina frá Reykjavík og amma svaraði að hún rauk strax af stað: „Tryggvi, Tryggvi, þetta er hún, hún er í símanum, bíddu elskan, hann er að koma!“ Ég reyndi gjarnan að fá hana til að slaka aðeins á og spjalla við mig en áður en ég vissi af varstu kominn á hina línuna og sagðir ömmu að leggja á. Síðan tók við klukkutímaspjall um allt og ekkert.

Elsku afi, hvað geri ég nú? Stundin er runnin upp. Ég þarf að sleppa takinu og kveðja þig. Ég sit hérna hágrátandi að reyna að viðurkenna fyrir sjálfri mér að þetta sé orðið að veruleika. Ég hef reynt að forðast það að tala um þetta, ef ég segi það ekki upphátt þá get ég kannski frestað því aðeins að kveðja þig. Nú eru innan við tíu vikur í það að ég eignist mitt fyrsta barn, barnið sem við tvö höfum beðið svo lengi eftir. Það eina sem ég vildi í þessu lífi var að þú myndir upplifa það að ég eignaðist barn. Þetta er svo sárt. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig elsku afi, alla þessa athygli og alla þessa ást. Jesús minn þú varst svo stoltur af mér í einu og öllu og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklát.

Þú varst mér allt, ég verð alltaf stelpan þín.

Ég elska þig.

Svava Kristín.

Í dag kveðjum við afa Tryggva, afi var einstaklega ljúfur og góður maður. Það var alltaf gott að koma til hans. Hann hafði áhuga á okkur og fannst gaman að heyra hvað við vorum að gera í lífinu, hrósa okkur og fylgjast með okkur og fjölskyldum okkar dafna. Við eigum öll sömu góðu minningarnar af afa, þar sem hann tók á móti okkur í ljósbláu skyrtunni sinni, annaðhvort í eldhúsinu í Birkihlíðinni eða fyrir framan sjónvarpið og bauð okkur afabrjóstsykur eða bingókúlur. Hann kenndi okkur að fara vel með peninga, og í orðsins fyllstu merkingu, ef þeir væru krumpaðir í vasa eða veski þá hlypu þeir frá manni. Hugsa vel um hlutina sína, ekki eyða í óþarfa eða t.d. skilja eftir ljós eða rennandi vatn. Góð lífsgildi sem gott var að taka með sér inn í lífið. Takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku afi, biðjum að heilsa ömmu sem hefur án efa tekið vel á móti þér.

Nú amma er hjá þér

og þið saman á ný

um litfagra dali

hönd í hönd haldið í.

Ég bið bara að heilsa

því lítið annað get gert

vona að líf þitt á himnum

verði yndislegt.

- Ég elska þig, afi minn!

(Clara Regína)

Anna Rós, Halla Björk,
Sævald Páll og Einar Ottó.

Þeir tínast af sviðinu einn af öðrum frumbyggjarnir úr Grænuhlíðinni í Eyjum. Einn þeirra, Tryggvi Á. Sigurðsson, gamall nágranni minn og vinur, kvaddi jarðvistina 31. október sl.

Tryggvi var einn þeirra ungu manna sem hófu að byggja heimili fyrir fjölskyldu sína kringum 1955. Tryggvi byggði í Grænuhlíð 3 og Pabbi í Grænuhlíð 5 þannig að við Tryggvi urðum því nágrannar fljótlega eftir að ég fæddist, árið 1960.

Tryggvi var traustur, góður og skemmtilegur nágranni. Það var ekki hávaðinn í honum og hann hélt sína leið ákveðinn en brosmildur og kankvís. Það var alltaf gott að leita til Tryggva ef eitthvað bjátaði á og tryggðin skein af honum.

Tryggvi starfaði sem vélstjóri í frystihúsi Ísfélagsins og sá þar um að allt snerist og væri í lagi enda mikið í húfi því að allur afli unninn í frystihúsinu var hraðfrystur og geymdur í frystiklefum. Frystivélarýmið var því algjört hjarta starfseminnar. Í vélarúminu hjá Tryggva var allt í toppstandi og mér fannst Tryggvi einhvern veginn alltaf vera á vaktinni, allan sólarhringinn alla daga ársins.

Þeim félögum í Grænuhlíð 3 og 5 leiddist sjaldan að fá sér aðeins neðan í því og kannski varð á tímabili heldur mikið um það. Ég vildi nú aldrei taka undir það að eitthvað sæist á vini mínum, þó að kannski hafi verið farið að síga aðeins á hann. Einhverju sinni hafði mamma orð á því, þegar við komum heim úr heimsókn hjá Sirrý og Tryggva, að Tryggvi hefði verið orðinn fullur. Ég var nú ekki alveg sáttur við það og sagði að hann hefði í mesta lagi verið orðinn „mýktur“. Vinur minn Tryggvi var aldrei fullur!

Tryggva líkaði það vel þegar hann heyrði af því að litli vinur hans hefði tekið til varna fyrir hann og upp frá því var oft gripið til þessa orðfæris.

Eldgosið splundraði þessu dásamlega nágrenni sem við bjuggum í en áfram hélst vinskapur gegnum árin og kærleikurinn og traustið var alltaf samt þegar við hittumst.

Síðast hitti ég Tryggva í matsalnum á Hraunbúðum í lok september sl. Þegar ég kom að borðinu hjá Tryggva leit hann á mig á sinn kankvísa hátt, brosti og sagði: „Mikið andskoti lítur þú alltaf vel út Grímur minn. Þú breytist bara ekkert.“ Við spjölluðum saman og ég sagði Tryggva að við værum á leið á lundaball um kvöldið og það væri aldrei að vita nema ég yrði kannski bara „mýktur“. Minn maður hló, gjóaði augum yfir gleraugun, blikkaði mig og sagðist varla trúa öðru en ég yrði eitthvað aðeins meira en „mýktur“ fyrst ég væri að fara á ball.

Þetta var síðasta samtal okkar Tryggva og ég geymi þessi skemmtilegu orð hans með öðrum góðum minningum um hann í minningabankanum.

Tryggvi hefur nú haldið inn í óravíddir eilífðarinnar og ég er viss um að þar verður honum treyst fyrir yfirvélstjórn allra kerfa sem snúast þurfa og hver veit nema þar verði menn „mýktir“ á góðri stundu. Ef svo er þá trúi ég því að þeir félagar úr Grænuhlíðinni verði „mýktir“ saman.

Við Guðrún sendum Óla Kristni, Hallgrími, Klöru og Kristnýju sem og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Tryggva Sigurðssonar.

Grímur Gíslason.