Bílar Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taldi bílaumboðin ábyrg fyrir sölu notaðra innfluttra bíla sem samræmdust ekki kröfum kaupendanna.
Bílar Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taldi bílaumboðin ábyrg fyrir sölu notaðra innfluttra bíla sem samræmdust ekki kröfum kaupendanna. — Morgunblaðið/Eggert
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað í tveimur málum þar sem kaupendur nýlegra innfluttra bíla kvörtuðu. Í öðru málinu var félaginu sem flutti bílinn inn gert að útvega kaupanda nýjan bíl og í hinu að endurgreiða kaupandanum kaupverðið vegna galla í bílnum

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað í tveimur málum þar sem kaupendur nýlegra innfluttra bíla kvörtuðu. Í öðru málinu var félaginu sem flutti bílinn inn gert að útvega kaupanda nýjan bíl og í hinu að endurgreiða kaupandanum kaupverðið vegna galla í bílnum.

Fyrra málið snýst um kaup á bifreið árið 2022. Kaupandinn, sem notast við hjólastól, óskaði sérstaklega að bíllinn væri fjórhjóladrifinn og að hægt yrði að koma fyrir lyftubúnaði í honum.

Innflytjandinn fann bifreið sem hann taldi uppfylla kröfur kaupandans. Bíllinn var nýskráður árið 2022 og hafði verið ekið um 20.000 kílómetra. Kaupandinn greiddi 13,9 milljónir fyrir bílinn. Eftir að bíllinn kom til landsins kom í ljós að hann var ekki fjórhjóladrifinn þrátt fyrir fullyrðingar seljandans. Kaupandinn krafðist þess þá að bílasalinn útvegaði annan bíl sem uppfyllti gerðar kröfur en því hafnaði seljandinn.

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að nægileg sönnunargögn lægju fyrir því að seljandinn hefði ekki staðið við sínar skuldbindingar. Var honum gert að útvega nýjan bíl og þangað til hefur kaupandinn umráð yfir bifreiðinni sem hann fékk. Bílasölunni var einnig gert að greiða kostnað við meðferð málsins sem og allan kostnaði sem hlýst við framkvæmd nýrrar afhendingar og tilfærslu lyftubúnaðar milli bifreiðanna.

Bilaði ítrekað

Seinna málið snýr að kaupanda sem festi á síðasta ári kaup á notaðri bifreið sem hann greiddi fyrir 10.890.000 krónur. Skömmu eftir afhendingu komu í ljós alvarlegir gallar á bifreiðinni. Hún bilaði ítrekað og þurfti endurtekinna viðgerða við. Þá kom fram í máli kaupandans að samið hefði verið um að sérstakur „Parktronic“-búnaður hefði átt að fylgja bifreiðinni. Þann búnað var hins vegar ekki að finna.

Bílasalan bar m.a. fyrir sig að bíllinn hefði verið yfirfarinn af viðurkenndu umboði áður en hann var afhentur.

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taldi það ekki duga til og að umboðið bæri ábyrgð sem seljandi bílsins og dæmdi kaupandanum í vil. Segist nefndin í úrskurðinum telja, með hliðsjón af aldri bílsins, sem var árgerð 2021, að bíllinn hafi ekki haft þá eiginleika til að bera sem kaupandinn hafi með réttu mátt vænta við kaupin að því er varðar endingu. Þá megi neytandi sem hyggist festa kaup á vöru með réttu byggja ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem seljandi gefi. Það standi seljanda nær að kanna hvort tiltekinn fylgibúnaður fylgi með seldri bifreið. Féllst nefndin á kröfu kaupandans um riftun kaupanna. geir@mbl.is