Gasaborg Ísraelskir hermenn sjást hér við skyldustörf sín í Gasaborg í gær, þar sem Ísraelsher hefur sótt hart að höfuðstöðvum Hamas-samtakanna.
Gasaborg Ísraelskir hermenn sjást hér við skyldustörf sín í Gasaborg í gær, þar sem Ísraelsher hefur sótt hart að höfuðstöðvum Hamas-samtakanna. — AFP/Ísraelsher
Hersveitir Ísraela fóru hús úr húsi á lóðinni við al-Shifa-sjúkrahúsið í gær í leit að vopnum og vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Hamas. Hafa Ísraelsmenn þá gert rassíur tvo síðustu daga og nætur inn á sjúkrahúsið, en talið er að helsta stjórnstöð…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Hersveitir Ísraela fóru hús úr húsi á lóðinni við al-Shifa-sjúkrahúsið í gær í leit að vopnum og vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Hamas. Hafa Ísraelsmenn þá gert rassíur tvo síðustu daga og nætur inn á sjúkrahúsið, en talið er að helsta stjórnstöð Hamas-samtakanna sé falin neðanjarðar í og við sjúkrahúsið.

Talsmenn hersins sögðu í gær að hann hefði fundið mikið magn af rifflum, skotfærum og sprengiefnum á sjúkrahúsinu, auk þess sem hersveitir Ísraela fundu einnig fartölvur og skjöl sem tengdust bæði starfsemi Hamas-samtakanna sem og þeim 240 gíslum sem áætlað er að séu enn í haldi samtakanna. Hefur herinn birt ljósmyndir og myndskeið af vopnunum sem hann hefur fundið á sjúkrahúsinu.

„Hermennirnir taka fyrir eina byggingu í einu og leita á hverri hæð, á sama tíma og hundruð sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna eru enn á sjúkrahúsinu,“ sagði embættismaður á vegum hersins við AFP í gær.

Daniel Hagari, undiraðmíráll og einn af talsmönnum hersins, sagði í fyrrakvöld að hermennirnir hefðu m.a. fundið herbergi, sem hefði þjónað hlutverki stjórnstöðvar hernaðaraðgerða, og var mikið af fjarskiptabúnaði þar innandyra. Þá sagðist herinn í gærkvöldi hafa fundið lík eins af gíslunum, hinnar 64 ára gömlu Yehudit Weiss, í húsi í nágrenni spítalans. Sagði Hagari á sérstökum blaðamannafundi að hryðjuverkamenn hefðu myrt hana og að ekki hefði tekist að bjarga lífi hennar.

Hagari sagði einnig í gær að Ísraelsher hefði gert loftárásir á undirgöng þar sem sumir af helstu leiðtogum Hamas-samtakanna höfðust við. Hann sagði ekki að þeir hefðu fallið í árásunum, en tók fram að göngin sem þeir dvöldu í hefðu stórskemmst.

Sameinuðu þjóðirnar áætluðu að um 2.300 manns, bæði sjúklingar, heilbrigðisstarfsfólk og óbreyttir borgarar á hrakhólum, hefðu leitað sér skjóls innan sjúkrahússins áður en aðgerðir Ísraela hófust í fyrradag. Hafa ýmsar alþjóðastofnanir lýst yfir áhyggjum sínum af velferð þeirra sem nú dvelji á sjúkrahúsum Gasasvæðisins.

Talsmenn Hamas-samtakanna sökuðu í gær Ísraela um að hafa komið vopnunum sem fundust á al-Shifa-sjúkrahúsinu fyrir, en færðu engar sannanir fyrir þeim ásökunum sínum. Þá sökuðu talsmenn Rauða hálfmánans í Palestínu Ísraelsmenn um að hafa hafið umsátur við al-Ahli-sjúkrahúsið og ráðist á það í gær.

Skotinn við Jerúsalem

Ísraelskur hermaður féll í gær á Vesturbakkanum í skotárás við varðstöð í nágrenni Jerúsalemborgar. Réðust þrír menn vopnaðir byssum á varðstöðina og særðust fimm aðrir í árásinni áður en ísraelskir lögreglumenn skutu þá til bana.

Kobi Shabtai lögreglustjóri sagði að þremenningarnir hefðu verið vopnaðir bæði skammbyssum og öxum, og að þeir hefðu ætlað sér að fremja stóra árás innan landamæra Ísraels.

Hamas-samtökin lýstu yfir ábyrgð á árásinni á hendur sér í gær, og sögðu hana hafa verið í hefndarskyni fyrir „píslarvottana á Gasasvæðinu“. Mikil ólga hefur ríkt á Vesturbakkanum frá því að Hamas-liðar frömdu hryðjuverk sín í Ísrael 7. október sl., og hafa rúmlega 190 Palestínumenn fallið þar síðan átökin hófust á Gasasvæðinu.