Úlfarsárdalur Erna Guðlaug Gunnarsdóttir úr Fram sækir að marki Stjörnunnar í gærkvöldi. Reynsluboltinn Kristín Guðmundsdóttir verst.
Úlfarsárdalur Erna Guðlaug Gunnarsdóttir úr Fram sækir að marki Stjörnunnar í gærkvöldi. Reynsluboltinn Kristín Guðmundsdóttir verst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar Vals náðu í gærkvöldi tveggja stiga forskoti á toppi úrvalsdeildar kvenna í handbolta með sannfærandi 25:17-útisigri á bikarmeisturum ÍBV í Vestmannaeyjum í 10. umferðinni. Haukar geta jafnað Val að stigum á toppnum með sigri á nýliðum Aftureldingar í kvöld

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslandsmeistarar Vals náðu í gærkvöldi tveggja stiga forskoti á toppi úrvalsdeildar kvenna í handbolta með sannfærandi 25:17-útisigri á bikarmeisturum ÍBV í Vestmannaeyjum í 10. umferðinni. Haukar geta jafnað Val að stigum á toppnum með sigri á nýliðum Aftureldingar í kvöld.

ÍBV og Valur mættust í spennandi úrslitaeinvígi á síðustu leiktíð, en gengi liðanna hefur verið ólíkt á yfirstandandi leiktíð. Valskonur eru með níu sigra í tíu leikjum í deildinni og á mjög góðri siglingu.

Á sama tíma hafa Eyjakonur verið að glíma við mikið af meiðslum og verið vængbrotnar. Þá hefur álagið á liðinu verið mikið, vegna þátttöku í Evrópukeppni. Hefur liðið nú tapað fjórum leikjum af síðustu fimm, á meðan Valur er með fjóra sigra í röð.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var mögnuð í úrslitaeinvíginu á síðustu leiktíð og hún skoraði sex mörk fyrir Val í gær. Thea Imani Sturludóttir bætti við fimm. Amelía Einarsdóttir var markahæst hjá ÍBV með fimm.

Stjarnan óvænt á botninum

Í Úlfarsárdal vann Fram sannfærandi 33:22-heimasigur á botnliði Stjörnunnar. Fyrir tímabilið átti enginn von á því að Stjarnan yrði aðeins með þrjú stig og á botninum eftir tíu leiki, en í gær sást hvers vegna liðið er ekki í betri stöðu.

Var staðan í hálfleik 17:14, en Framarar stungu gjörsamlega af með flottum seinni hálfleik. Framliðið hefur verið að vaxa undanfarnar vikur. Þórey Rósa Stefánsdóttir er mætt aftur og þá gengur betur. Var hún einmitt markahæst hjá Fram í gær með átta mörk. Er ljóst að Þórey verður í góðu fjöri á HM sem hefst í lok mánaðar.

Góðu fréttirnar fyrir Stjörnuna eru þær að Helena Rut Örvarsdóttir átti sinn besta leik til þessa í vetur og skoraði níu mörk. Eva Björk Davíðsdóttir skoraði fjögur. Þær tvær eiga ekki að vera í botnliði deildarinnar, en það er eitthvað ekki að smella í Garðabænum.

Sterkur sigur ÍR

Nýliðar ÍR gerðu góða ferð til Akureyrar og unnu 22:19-sigur á KA/Þór. ÍR hefur komið mörgum á óvart og var sigurinn sá fimmti hjá Breiðholtsliðinu í vetur. Með sigrinum fjarlægðist ÍR neðstu lið deildarinnar, en ÍR-ingar eru nú í fimmta sæti af átta liðum með tíu stig. KA/Þór er í sjötta sæti með fimm stig, tveimur meira en botnlið Stjörnunnar. KA/Þór hefur nú tapað þremur í röð eftir tvo fyrstu sigra sína þar á undan.

Karen Tinna Demian átti stórleik fyrir ÍR og skoraði níu mörk. Lydía Gunnþórsdóttir gerði fimm fyrir KA/Þór.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson