Árbjörg Ólafsdóttir fæddist í Sjúkrahúsinu í Keflavík 26. nóvember 1971. Hún andaðist á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans við Hringbraut 4. nóvember 2023.

Foreldrar hennar eru Ólafur Sigurþór Sveinsson, f. 13. september 1945 og Guðbjörg Anna Ellertsdóttir, f. 15. janúar 1949.

Systur Árbjargar eru Þórdís Lilja, f. 1967, maki Matthías Magnússon, börn þeirra eru Ólafur Matti og Elna Mattína. Sveindís, f. 1974, maki Stefán G. Guðmundsson, sonur hennar er Victor Alexander, sambýliskona hans er Lilja Viktoría. Halla Sif, f. 1980, maki Andri Tryggvason. Börn þeirra eru Arnþór, Tryggvi og Anna Sif.

Fyrstu æviárin sleit Árbjörg barnsskónum í Laugarnesinu og hóf skólagöngu í Laugarnesskóla, en þegar Árbjörg var á níunda ári flutti fjölskyldan í Efra-Breiðholt þar sem hún gekk í Hólabrekkuskóla og útskrifaðist síðar sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún lauk háskólaprófi í þroskaþjálfun og starfaði nær óslitið á þeim vettvangi til dauðadags, síðast sem forstöðumaður frístundaheimilisins Hraunheima í Breiðholti.

Árbjörg var málsvari barna sem þurftu á hvers kyns stuðningi að halda og var vakin og sofin yfir velferð þeirra í sínu starfi. Hún tók þátt í ýmsu félagastarfi og var meðal annars ein af stofnendum Hrygggigtarhópsins innan Gigtarfélags Íslands.

Útför Árbjargar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Það er komið að sárri kveðjustund í hópi samrýmdra systra. Elsku Árbjörg, sú næstelsta í systrahópnum, hefur kvatt jarðvistina og eftir sitja ljúfar minningar, sorg og söknuður.

Svipmynd úr barnæsku systra í Laugarnesinu snemma á áttunda áratugnum. Fiðrildið Árbjörg flögrar út í glugga með sína æðislegu Fisher Price-myndavél og tekur myndir í gríð og erg. Kastar henni svo aftur fyrir sig þannig að hún lendir beint á kolli Sveindísar litlu systur sem sér stjörnur og hefur æ síðan elt Árbjörgu stóru systur með stjörnur í augum um allar koppagrundir.

„Ég er þakklát fyrir að hafa deilt herbergi með Árbjörgu fram á unglingsár og verið ferðafélagi hennar síðan ég man eftir mér,“ segir Sveindís sem fylgdi Árbjörgu í hennar hinstu fjallaferð. „Tilhlökkunin var mikil en örfáum dögum áður fékk Árbjörg verstu fréttir lífs síns; hún var með ólæknandi krabbamein. Hún lét þó ekki deigan síga og ætlaði sér samt að ganga Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víst var henni brugðið og af henni dregið og var gangan mikil þolraun. Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa slegist í för með henni og finnst heiður að hafa verið stoð hennar og stytta í draumaferðinni.“

Örverpið í systrahópi Árbjargar, Halla Sif, fæddist þegar fjölskyldan flutti í Efra-Breiðholt 1980. „Svo margs er að minnast frá hamingjuríkum uppvaxtarárunum og langri samfylgd, en rauði þráðurinn er hversu allt gekk vandræðalaust hjá Árbjörgu. Vandamál voru ekki til í hennar huga. Það leystist allt einhvern veginn. Þannig var hún áhyggjulaus, afslöppuð, jákvæð, réttsýn og skemmtileg,“ segir Halla Sif.

„Systrabörn Árbjargar voru sem hennar eigin. Hún naut þess að dekra við þau og ég hreinlega veit ekki hvort átti erfiðara með að missa af öllum ævintýrum sem þau Tryggvi barnungur sonur minn höfðu skipulagt þegar veikindin fóru að taka sinn toll af Árbjörgu. Það var aðdáunarvert hvernig hún tókst á við veikindi sín af krafti og miklu æðruleysi. Hún lét þau ekki stoppa sig í því að lifa lífinu til fulls, nánast fram á síðasta dag,“ minnist Halla Sif.

Árbjörg elskaði íslenska náttúru, fannst hún komin í paradís í sumarlandi fjölskyldunnar í Landsveit og lagði stund á göngur um fjöll og firnindi með hinum ýmsu gönguhópum. Hún var félagslynd og vinamörg og hafði einkar gaman af samfundum með vinum og ættingjum. Eftir að hún kynntist Ljósinu fann hún óvænt listagyðjuna í sjálfri sér og skapaði ótal listaverk í leir, saumum, málun og fleiru.

„Það felst svolítil huggun í því að Árbjörg skilur eftir sig fagurt handverk sem hún lagði natni í þegar heilsan brast og gaf ástvinum til að njóta í minningu hennar. Hún mátti ekkert aumt sjá, var fyrst til að bjóða fram hjálparhönd og var örlætið uppmálað. Árbjörg var sólargeisli í lifanda lífi og ljós hennar mun halda áfram að skína og ylja þegar sorg og söknuður kreppir að. Tilveran verður svo miklu fátækari án hennar,“ segir Þórdís, sú elsta.

Elsku Árbjörg. Minning þín er ljós í lífi okkar. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Meira á:

https://www.mbl.is/andlat

Þínar systur,

Þórdís, Sveindís og Halla Sif.

Stórt og mikið skarð hefur verið höggvið í okkar litla vinkonuhóp við fráfall hennar Árbjargar okkar. Þessi litríki karakter skilur eftir sig stórt tómarúm, bæði hjá vinum og fjölskyldu. Leiðir okkar fjögurra lágu fyrst saman í Hólabrekkuskóla í kringum 10 ára aldurinn og höfum við haldið sambandi allar götur síðan. Margt hefur verið brallað í gegnum tíðina og ekki síst á undanförnum árum þegar við höfum verið duglegar að ferðast saman og fara á alls konar tónleika og sýningar. Minnisstæðastar eru ferðirnar okkar til Stokkhólms á ABBA-sýninguna og svo til London á Tinu Turner-söngleikinn og auðvitað ABBA Voyage núna síðast. Það var nú aldeilis mikið blaðrað og hlegið í þessum ferðum og auðvitað skálað! Allir tónleikarnir sem Árbjörg og Hrönn fóru á með Nýdönsk, sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Árbjörgu, og öll matarboðin á Snorrabrautinni. Minningarnar sækja að og erfitt er að hugsa til þess að við fjórar munum víst ekki fara saman í fleiri ferðir.

Elsku Bubba og Óli, Þórdís, Sveindís, Halla Sif og fjölskyldur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði elsku vinkona. Við hittumst aftur í Sumarlandinu og þá verður sko hent í einn góðan Happy Hour og ABBA spilað á hæsta styrk.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.

Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.

Hverju orði fylgir þögn

og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt

aldrei nær að græða grund.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Hrönn, Jóna og Svandís.

Það var á haustdögum árið 2021 sem heldur framlágur hópur kvenna labbaði inn í Ljósið og sat námskeið sem bar nafnið Nýgreindar. Í þeim hópi var Árbjörg sem seinna átti eftir að verða vinkona okkar. Það leið ekki á löngu þar til hópurinn varð mjög samheldinn og langt í frá að vera framlágur heldur hnarreistur, hláturmildur og með eindæmum hávær. Árbjörg var svo sannarlega ein þeirra sem létu að sér kveða, hún var afskaplega jákvæð, hafði frá mörgu að segja og elskaði áskoranir sem voru ansi hreint margar hjá okkur. Það var ekki til neikvæðni og uppgjöf í Árbjörgu, hún fann lausnir og gerði góðlátlegt grín, en undir niðri var alvarlegur tónn og við vissum að hún hefði fengið stóran bita að kyngja í sinni greiningu.

Þó kynni okkar hafi ekki verið löng voru þau sterk og á stuttum tíma nær dagleg samskipti og fullt af skemmtilegum uppákomum. Við elskuðum að hittast og gera eitthvað saman, vandinn var bara sá að það var svo mikið að gera hjá Árbjörgu í utanlandsferðum, það var nefnilega ekkert sem stoppaði hana. Við fórum í frábærar ferðir saman, ein hét „Kastað til bata“ þar sem við nutum okkar í veiðihúsinu við Langá og lærðum að kasta með flugustöng. Ekki var ferðin á Sólheima síðri þó Árbjörg hefði varla tíma til að vera þar, þurfti að skreppa í bæinn nokkrum sinnum þessa viku. Okkur fannst við svo skemmtilegar að nauðsynlegt væri að fara saman í bústaðarferð og haldið var að Hamraendum á Snæfellsnesi þar sem við áttum dásamlega daga. Að njóta saman, við höfðum skilning á aðstöðu hver annarrar, það þurfti ekki orð, það þurfti bara að vera og hlæja því við vissum allar að við værum tímasprengjur og hver fengi stutta stráið var ekki rætt. Ekki er hægt að sleppa því að minnast áræðis Árbjargar. Hún henti sér í öll þau tilboð sem til voru í endurhæfingu í Ljósinu. Mestum tíma varði hún í fatasaum og fór að lokum í Tækniskólann í frekara nám.

Að hafa eignast vinkonu sem þig, elsku hjartans Árbjörg okkar, er eitthvað sem stendur manni hjarta næst þegar að lokum kemur. Vinátta þín var og er okkur óendanlega mikils virði. Á síðustu vikum höfum við líka kynnst þínu nánasta fólki. Þú varst svo heppin með þína samheldnu og elskandi fjölskyldu sem höggið er stórt skarð í. Eins og Sveindís sagði við mig um daginn, endilega komið í heimsókn áfram, þið hafið svo mikið skemmtanagildi fyrir systur mína. Enda þegar við komum var eins gott að loka dyrunum svo fólkið á deildinni fengi ekki heyrnarskemmdir, svo hressilegar og framúrskarandi fyndnar með kolsvartan húmor vorum við. Það var notalegt að fá að vera með þér alla daga, við ræddum margt og grétum stundum, langaði að eldast saman og halda áfram að vera duglegar að hittast með Ljósahópnum okkar. Minning þín mun lifa í hópnum okkar, um einstakan orkubolta sem fór í gegnum veikindi af æðruleysi.

Elsku hjartans fjölskylda, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Guð gefi ykkur styrk til að horfa björtum augum á framtíðina með fullt af dásamlegum minningum um einstaka Árbjörgu sem var með hjarta úr gulli.

F.h. Leynifélags Ljóssins,

Ragnhildur Ösp,
Ingunn Mai,
Helga Dögg
og Inga Rut.

Fegraðu umhverfi þitt

með gjöfum.

Stráðu fræjum

kærleika og umhyggju.

Og þín verður minnst

sem þess sem elskaði,

þess sem bar raunverulega umhyggju

fyrir fólki.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Á kveðjustundu hugsum við til okkar kæru Árbjargar, vinnufélaga og vinkonu Stebba í tæp 20 ár, sem kvaddi svo allt of fljótt. Hjartað er fullt þakklætis til hennar fyrir einstakan stuðning, tryggð og vináttu við Stebba. Fyrir þolinmæði, virðingu fyrir fötlun hans og metnað hennar fyrir hans hönd. Slíkt verður aldrei fullþakkað og mun aldrei gleymast. Takk elsku Árbjörg, þín er sárt saknað.

Stefán og Ásta.

Elsku Árbjörg okkar, ekki áttum við von á því að þurfa að kveðja þig svona fljótt. Baráttuþrek þitt var svo mikið og þú varst svo mikill nagli að við einhvern veginn vorum viss um að þú myndir vinna þennan bardaga.

Við erum nýbúin að ræða hvenær þú kæmir aftur í vinnu og hlakka til þess. Þú ert búin að vera hluti af Miðbergsfjölskyldunni í 15 ár og stórt skarð höggvið í hópinn okkar núna þegar þú ert farin.

Fáir voru jafn virkir í að skipuleggja starfsmannagleði og -ferðir og alltaf til í að taka þátt í öllu. Þú varst alltaf fyrst í að bjóða þig fram í allar nefndir og virkur þátttakandi í öllu okkar starfi.

Þú gast verið með svartan húmor og með bein í nefinu, það gat tekið tíma að kynnast þér en þegar fólk lærði á húmorinn gat það ekki annað en kunnað að meta þennan stóra karakter sem þú varst.

Umhyggja þín fyrir börnunum var mikil og þú brannst fyrir velferð barnanna, ekki síst þeirra sem þurftu á sérstökum stuðningi að halda í frístundastarfinu.

Það eru fáir jafn virkir og þú varst, hlaupandi upp um öll fjöll, á tónleikum, ferðalögum eða bara að skála á barnum við okkur hin. Þá má ekki gleyma öllum þeim ferðalögum sem þú fórst í bæði innanlands og utan. Ófá þeirra farin með okkur samstarfsfólki þínu í Miðbergi þar sem við skemmtum okkur stórkostlega á sama tíma og við kynntum okkur frístundastarf og ráðstefnur í öðrum löndum. Oftar en ekki varst þú forsprakkinn í að finna næstu ferð.

Við eigum eftir að sakna þess mikið að hafa þig ekki og alla þína, orku, kraft og metnað með okkur í framtíðinni.

Minning þín lifir með okkur í Miðbergi og við munum halda henni á loft, lyfta glasi þér til heiðurs hvenær sem færi gefst og spila lög með Abba og Nýdönsk um leið og við hugsum til þín.

Þarna er fallegt þar vil ég búa

Draumur og veruleiki mætast

Þó að ég þurfi kamba að kljúfa

Þá skal ég láta drauminn rætast

Ég þarf að funda við almættið

Vakna lífsins til

Ferðbý mig snöggt og legg af stað

Tek stefnu á Hamragil

Þar næ ég fundi við almættið

(Draumur, Nýdönsk)

Við sendum fjölskyldu og vinum Árbjargar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði elsku Árbjörg okkar, við höldum þínum einkunnarorðum, „lífið er núna“, á loft og reynum að tileinka okkur viðhorf þitt til lífsins.

Fyrir hönd okkar allra í Miðbergi,

Herdís, Kristrún (Kitta), Sigrún og Þorbjörg (Tobba).

Í dag kveðjum við Árbjörgu frænku mína en hún hélt af stað í sitt síðasta og stærsta ferðalag 4. nóvember síðastliðinn. Árbjörg var góð og skemmtileg frænka, við vorum systradætur og áttum í innilegu frænkusambandi, hún og hennar systur, ég og mínar.

Það er risastórt skarð í hópnum núna og kramin hjörtu í öllum brjóstum.

Árbjörg elskaði ferðalög og útivist og var dugleg að sinna hvoru tveggja. Stundum rann það saman í eina ferð eins og þegar hún og vinkonur hennar skelltu sér í góða ferð að ganga Jakobsveginn. Annars var hún dugleg að ganga á fell og fjöll með ferðahópnum sínum og notaði hvert tækifæri til að skella sér út fyrir landsteinana. Henni leið best ef hún átti alla vega tvær ferðir fram undan, helst á tónleika eða eitthvað álíka skemmtilegt. Ferðasögurnar voru alltaf skemmtilegar, endalaus ævintýri og óvæntar uppákomur og allt sagt með hennar dásamlega húmor og dillandi hlátri. Það eina sem Árbjörg elskaði meira en ferðalög var fjölskyldan. Hún var uppáhaldsfrænka systrabarna sinna og sinnti þeim af alúð og ánægju. Hún var líka dugleg að rækta sambönd við vini sína og vandamenn. Hún var alltaf til í að hittast, hvort sem var „frænkukaffi“ eða „frænkuganga“ en hún skipulagði þónokkrar göngur fyrir okkur systradæturnar, á Þorbjörn, Helgafellið, Úlfarsfell, í Mosó eða bara Öskjuhlíð, mikið sem það eru dýrmætar stundir og minningar núna.

Það er mjög lýsandi fyrir Árbjörgu að eftir að hún greindist með krabbamein stofnaði hún samskiptahóp fyrir mig og mínar systur þar sem hún hélt okkur upplýstum um gang mála og oftar en ekki var það hún sem sendi okkur hughreystingu í gegnum samskipti okkar þar.

Ég á eftir að sakna þessarar dásamlegu konu, húmorsins og hlátursins, faðmlaga og ferðasagna.

Í Sumarlandinu ímynda ég mér að hún hitti fyrir alla þá sem kvatt hafa áður og elskuðu hana og hún elskaði, svo það hafi orðið þvílíkir fagnaðarfundir.

Ég bið að heilsa þangað til næst, elsku besta mín, knús á línuna.

Arndís Dögg Arnardóttir (Dísa frænka).