Sigfús Baldvin Ingvason fæddist á Akureyri 10. apríl 1963. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 4. nóvember 2023.

Foreldrar hans eru Ingvi Svavar Þórðarson, f. 12.4. 1941 og Ásgerður Snorradóttir, f. 22.3. 1942.

Systur Sigfúsar voru Þórey Björk, f. 27.10. 1966, d. 15.5. 1999, Ásdís Ólöf, f. 10.12. 1968, d. 13.12. 1994 og Fanney Sigrún, f. 13.7. 1971, gift Halldóri Jóhannssyni, f. 4.9. 1960.

Eiginkona Sigfúsar er Laufey Gísladóttir, f. 21.10. 1970, dætur Birta Rut Tiasha, f. 7.4. 1998 og Hanna Björk Atreye, f. 5.7. 2000.

Sigfús bjó á Akureyri fyrstu æviárin og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Hann fékk snemma áhuga fyrir kristilegu starfi og starfaði sem unglingur með prestum Akureyrarkirkju við æskulýðsstörf. Hann fór í enskuskóla til Englands til að auka tungumálakunnáttu sína, skóla til Noregs til að víkka sjóndeildarhring sinn og vann á elliheimili og samyrkjubúi í Ísrael í sex mánuði.

Sigfús lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1. febrúar árið 1992 og var vígður til prests í Keflavíkurkirkju 15. ágúst árið 1993. Sigfús kom víða við, var starfsmaður Kristilegra skólasamtaka og forstöðumaður sumarbúða KFUM og KFUK á Hólavatni í mörg sumur, hafði umsjón með sunnudagaskóla í Digranessókn og barna- og æskulýðsstarfi KFUM og KFUK, starfaði lengi sem æskulýðsfulltrúi hjá þjóðkirkjunni, var fræðari á fermingarnámskeiðum í Skálholti og hafði umsjón með félagsstarfi fatlaðra í Reykjavík. Hann starfaði sem prestur í Keflavíkurprestakalli í 22 ár, að auki leysti hann af sem sóknarprestur í Útskálasókn í Kjalarnesprófastsdæmi árin 1995-1996. Sigfús fór í árs námsleyfi til Berkeley í Bandaríkjunum árið 2003 þar sem hann lauk sálgæslunámi.

Prestsstarfi sínu sinnti hann af heilindum, fyrir sóknarbörn sín jafnt sem aðra sem þurftu á að halda bæði á gleði- og sorgarstundum. Sigfús sinnti að auki sálgæslu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Af heilsufarsástæðum baðst hann lausnar frá starfi sínu en hélt þó áfram að sinna þeim prestsverkum sem hann var beðinn um allt til loka.

Sólargeislarnir í lífi Sigfúsar voru Laufey og dætur þeirra tvær.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 12. Athöfninni verður streymt:

mbl.is/go/fbfqr

Elsku sonur.

Með þér var lífið svo ljúft og hreint

og ljómi yfir hverjum degi.

Í sál þinni gátum við sigur greint,

sonurinn elskulegi.

Þú varst okkur bæði ljóst og leynt

ljósberi á alla vegi.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Minningin um þig er dýrmæt perla.

Hjartans þakkir fyrir allt.

Mamma og pabbi.

Nú mun ég ekki heyra aftur „sæl, systir“ því elsku fallegi, hjartahlýi, brosmildi, jákvæði, heilsteypti, þrautseigi, kærleiksríki, ákveðni Sigfús bróðir minn hefur kvatt þennan heim.

Elsku Sigfús, þú lifðir þínu lífi fallega, sýndir öllum í kringum þig áhuga, hlýju og kærleika. Varst umhyggjusamur eiginmaður, faðir, sonur, bróðir, frændi og mágur. Því miður rændi sjúkdómurinn þig miklu en alltaf skein brosmildi húmoristinn í gegn. Þrátt fyrir mótlætið og alla erfiðleikana sem þú gekkst í gegnum, að missa smátt og smátt möguleikann á að eiga í eðlilegum og afslöppuðum samskiptum við fólkið í kringum þig, þá elskaðir þú lífið mikið.

Þú þráðir að lifa en að lokum varðstu að gefa eftir. Líkami þinn gat ekki meira.

Ég sé þig núna fyrir mér brosandi, heilbrigðan með systrum okkar tveimur.

Elsku bróðir, ég kveð þig með söknuð í hjarta en jafnframt miklu þakklæti.

Þakklæti fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og varst minni fjölskyldu.

Elsku Laufey, Birta Rut, Hanna Björk, mamma og pabbi, missir okkar er mikill en minningin um fallegan dreng/mann lifir áfram.

Þín systir,

Fanney Sigrún Ingvadóttir.

Þær systurnar höfðu alla tíð verið samrýndar og því var upplagt að Guðrún og Laufey væru saman í herbergi. Nú var hins vegar eitthvað breytt. Skýringin var Sigfús, sem við þekktum að góðu einu, vinsæll í kristilegu félagsstarfi ungs fólks og æskulýðsstarfi kirkjunnar. Þetta er ekkert sem koma á foreldrum á óvart, nema að lítil börn verða fullorðin áður en litið er við og Laufey giftist Sigfúsi 18 ára gömul og Sigfús varð fyrsta tengdabarn okkar.

Þau Laufey og Sigfús voru bæði í námi og því hentaði vel að hefja búskapinn hjá okkur, en húsið höfðum við keypt tveim árum áður og var margt sem ekki var fullklárað við byggingu og frágang þess. Þess vegna var drifið í að fullgera stórt herbergi á efri hæð með takmarkaðri eldhúsaðstöðu og að hluta undir súð. Þá kom sér vel að Sigurgeir, frændi og smiður, hjálpaði okkur að ljúka við herbergið og gera einfalda eldhúsinnréttingu. Allt var það svo fullklárað daginn fyrir brúðkaupið.

Við tók nýr kafli í sögu fjölskyldunnar og yngri systkinin nutu þess að fá ungu hjónin í húsið. Það var án efa stuðningur við uppeldið, oft hlusta börnin betur á þau sem eru nær þeim í aldri og trúa þeim fyrir ýmsu sem erfitt er að ræða við foreldrana. Á sumrin störfuðu Laufey og Sigfús við sumarbúðir KFUM og KFUK á Hólavatni i Eyjafirði og naut Hanna yngsta systirin þess þá að vera höfð með.

Að loknu námi Sigfúsar tók við tímabil þjónustu við Keflavíkurkirkju. Það var góður tími. Sigfús var ekki hátíðlegur prestur en hann var glaðlegur og einlægur og náði til margra með þeim hætti. Hann átti gott samband við eldri borgara og lagði sig einnig fram við að hjálpa börnum að tjá sorg sína þegar einhver nákominn var kvaddur. Þau gerðu það m.a. með því að teikna mynd, skrifa skilaboð eða koma með rós sem þau lögðu í kistuna.

Nú kveðjum við Sigfús sem er fallinn frá fyrir aldur fram eftir mörg ár vanheilsu. Hann sem var afar félagslyndur missti smám saman sjón og heyrn, þrekið minnkaði og að lokum hætti hjartað að slá. Þá var hann rétt búinn að segja að hann vildi drífa sig í sjúkraþjálfun og hann ætlaði að mæta í afmælisboð hjá okkur þó að fresta þyrfti ferð til sólarlanda um sinn. Þetta lýsir einmitt baráttuþreki Sigfúsar, hann gafst aldrei upp og missti aldrei móðinn.

Þegar ég gekk með honum spotta nálægt heimili hans í Fagragarði 8 í Keflavík fannst mér leiðin stutt, en nú sé ég betur að stuttur spotti var þrekvirki miðað við heilsu hans og krafta. Afrek er afstæð stærð og margir eru afreksmenn þótt þeir komist ekki á verðlaunapallinn í þessu lífi.

Sigfús þjónaði Jesú Kristi með lífi sínu og Drottinn bregst ekki vinum sínum.

Gísli H Friðgeirsson og Lilja Sigurðaróttir.

Nú hefur okkar kæri vinur kvatt þessa jarðvist. Vinskapur okkar nær aftur til menntaskólaáranna á Akureyri og frá þeim tíma hefur hann þróast og þroskast eins og heimsins besta vín. Það kom engum á óvart sem þekkti Sigfús að hann myndi læra til prests. Honum var ætlað það hlutverk, stóð sig einstaklega vel og var eftirsóttur sem slíkur. Það sannaðist vel þegar pólitíkin, sem meira að segja teygir anga sína inn í kirkjustarfið varð þess valdandi að gengið var framhjá Sigfúsi sem sótti um stöðu sóknarprests. Sigfús hélt áfram sínu starfi sem prestur og mjög margir héldu tryggð við hann og óskuðu eins og áður eftir hans þjónustu. Enda var Sigfús einstakur á svo marga vegu og gott að leita til hans. Hann var tillitssamur, kærleiksríkur, einlægur, hreinskilinn, þakklátur, góður hlustandi, úrræðagóður og svo mætti lengi telja. Hann var þó ekki óumdeildur, ekki frekar en aðrar manneskjur, og var að mati sumra ekki nógu hátíðlegur í sínum störfum. Sigfús var hins vegar maður fólksins og var óhræddur að víkja frá því sem þótti hin hefðbundna leið að mati þeirra sem fastheldnari voru. Hann var til í að grínast ef aðstæður leyfðu, eins og þegar hann bað Laufeyju að hringja á tilteknum tíma þegar hann var að gefa saman brúðhjón, en brúðguminn sá slökkti víst aldrei á símanum. Í miðri athöfn hringdi síminn og brúðguminn svaraði, eins og Sigfús grunaði að hann myndi gera.

Við hittumst reglulega, en alls ekki nógu oft finnst manni núna, borðuðum saman og spjölluðum. Símtölin voru nánast í hverri viku. Tíminn flaug eins og hann gjarnan gerir þegar gaman er og yfirleitt voru símtölin af lengri gerðinni. Umræðuefnin af öllu tagi og oftar en ekki ræddum við um menntaskólaárin, lífið á Akureyri og rifjuðum upp gömul uppátæki. Síðasta árið hafa símtölin hins vegar verið mjög fá þar sem heyrnin var farin að gefa sig það mikið hjá Sigfúsi að mjög erfitt var að eiga samtal við hann.

Á lífsleiðinni mæta flest okkar einhverjum erfiðleikum og þrátt fyrir að Sigfús hafi glímt við sinn sjúkdóm í langan tíma, þá nálgaðist hann lífsins þrautir af miklu æðruleysi, alveg til síðustu stundar. Sigfús var þakklátur fyrir lífið og naut stundarinnar. Ekki þurfti nema smá sólargeisla, þá var hann mættur á sólpallinn, og best leið honum á sólarströnd.

Elsku Sigfús, vafalaust ertu mættur á ströndina þarna uppi og orðinn sólbrúnn og sællegur. Við hittumst síðar, tökum upp fyrra spjall og fáum okkur „kappútsjínó“ eða jafnvel einn Kalda.

Elsku Laufey, Birta Rut, Hanna Björk, Ásgerður, Ingvi, Fanney, Lilja, Gísli og aðrir fjölskyldumeðlimir, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning um góðan dreng.

Ottó Magnússon og
Guðrún Gísladóttir.

Í dag kveðjum við einn úr æskuvinahópnum, Sigfús Baldvin Ingvason, sem fyrir mér verður alltaf bara Fúsi. Við kynntumst í unglingadeild KFUM og K á Akureyri og þar eignaðist ég vini af þeirri gerð sem það skiptir ekki máli hve langur tími líður á milli endurfunda, það er alltaf eins og við höfum talað saman í gær. Það er dýrmætt að eiga sömu sögurnar af prakkarastrikum, upplifunum og afrekum, að kunna sömu brandarana og hlæja enn að þeim áratugum seinna. Við brölluðum svo ótal margt saman og vorum samheldinn hópur, gengum á Súlur, hittumst í sundi á sunnudagsmorgnum, ferðuðumst og fórum í útilegur að Hólavatni og í Fagranes. Í Fagranesi dönsuðum við okkur til hita og á Hólavatni varð að bera inn vatn til að nota í salernin á veturna. Við fórum í vinnuferðir til að undirbúa sumarbúðirnar og þá var ég fegin að fá að mála báta með Örnu meðan piltarnir óðu út í hálffrosið vatnið til að setja út bryggjuna eða taka hana upp. Við lærðum að vinna, vera saman og hugsa vel hvert um annað. Reglulega héldum við partí fyrir stóra hópinn hér og hvar í heimahúsum, m.a. heima hjá Fúsa, og þá laumuðust litlu systur hans til að vera með og ekki amaðist stóri bróðir við þeim. Eftir eina kaffisöluna á Hólavatni brunaði Fúsi í bæinn með skottið á sínum gamla Saab fullt af tómum gosflöskum og að venju gaf hann í á bogabrúnni við Sólgarð og steingleymdi viðkvæmum farminum. Þá klingdi nú hressilega í glerinu þegar bíllinn tókst á loft og skall niður aftur og ég veit ekki hverjum brá meira farþegunum eða Fúsa. Við hlógum okkur svo máttlaus alla leiðina í bæinn. Svona var Fúsi, léttur i skapi og kunni að hlæja að sjálfum sér.

Svo varð Fúsi prestur, eignaðist hana Laufeyju sína og stelpurnar og Keflavík varð heimilið þeirra. Af og til komu þau að Hólavatni í heimsókn og þá brosti Fúsi út að eyrum og varð tíðrætt um hve staðurinn væri honum kær. Samstarfsfólk í sumarbúðunum minnist þess hve hann var alltaf léttur i skapi og hress við börnin. Það var mikið sungið á kvöldvökum af tærri gleði og alltaf stutt í bros og hlýju. Á einni kvöldvökunni sagði hann börnunum frá bæninni og sagðist stundum sofna í miðjum kvöldbænum en það fannst honum svo gott því þá sofnaði hann öruggur. Alltaf kom hann fram við börnin af mikilli virðingu og lagði ríka áherslu á að annað starfsfólk gerði slíkt hið sama.

Ég var formaður stjórnar sumarbúðanna þegar vígja átti nýbygginguna og þá kom aldrei annað til greina en að leita til Fúsa, sem vígði húsið með mikilli viðhöfn og réð sér ekki fyrir kæti. Dagurinn varð einstakur, ekki síst vegna Fúsa, gleðinnar sem hann færði inn í athöfnina og daginn allan. Hólavatn verður tómlegra nú þegar ekki er von á að hitta Fúsa fremra, fá eitt knús og rifja upp gamla daga. Hjartans þakkir, kæri vinur, fyrir samveruna og fyrir minningarnar. Takk fyrir allt sem þú lagðir af mörkum til að gera heiminn svo miklu betri. Þín verður sárt saknað.

Elsku Laufey, Birta Rut, Hanna Björk, Ásgerður og Ingvi, innilegustu samúðarkveðjur frá Hólvetningum, Fúsi var engum líkur.

Anna Elísa (Lísa).

Brosmildi gleðigjafinn og sólardýrkandinn Sigfús prestur eins og flestir hér í Keflavík kölluðu hann hefur verið kvaddur til nýrra verka. Sigfús gaf okkur svo margt gleðilegt í gegnum árin og sögurnar tengdar honum eru ófáar. Okkur er það minnisstætt þegar hann var að byrja sem prestur hér í Keflavík, því hann var óhræddur við að fara nýjar leiðir. Hann fékk söfnuðinn til að klappa, syngja og sleppa sér aðeins í kirkjunni sem manni þótti dálítið skrýtið til að byrja með, en hann var þó fljótur að fá mann til að hrífast með. Hjónin Sigfús og Laufey eru einstaklingar sem hafa svo sannarlega haft mikil og góð áhrif á líf okkar hjóna. Sigfús skírði og fermdi dóttur okkar og var ávallt mjög áhugasamur um afdrif hennar. Fótboltaáhugi Sigfúsar kom vel í ljós í hvert sinn þegar Norwich vann Arsenal eða þegar KA vann Keflavík, en þá hringdi hann ávallt í Begga og vildi nú láta hann vita hvernig leikirnir fóru og hafði gaman af. Við skemmtum okkur ávallt vel saman í yndislega vinahópnum okkar 5 fræknu, en Spánarferðin stendur þar svo sannarlega upp úr. Hann var ótrúlega jákvæður og bjartsýnn maður fram að lokastundu, en baráttuþrek hans veitir manni svo sannarlega innblástur þegar á móti blæs.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur fjölskylduna, við minnumst þín, elsku Sigfús, með mikilli hlýju í hjarta.

Kær kveðja frá

Kristjönu, Bergþóri og Sunnu Líf Zan.

Orðin sem koma upp í hugann nú þegar við minnumst sr. Sigfúsar koma úr Rómverjabréfinu: „Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni.“ (Róm. 12.12)

Allt þetta einkenndi sr. Sigfús. Hann þjónaði söfnuðinum af áhuga og ánægju svo að eftir var tekið. Hann var frjór og nýjungagjarn er kom að hugmyndum í safnaðarstarfi og helgihaldi. Sigfús var óbilandi stuðningur þeim sem þurftu á að halda og lagði mikið á sig til að geta orðið sóknarfólki að liði.

Hann var líka stoltur af því sem Guð hafði fært honum og þar ber einkum að nefna fjölskylduna hans, Laufeyju og dæturnar Birtu Rut og Hönnu Björk. Þegar hann sagði okkur frá viðfangsefnum þeirra þá ljómaði hann af stolti. Hann bar kross sinn með þolgæði. Þótt sjúkdómurinn hafi sett mark sitt á líf hans var hann staðfastur og kunni ýmis ráð til þess að draga úr þeim áhrifum sem hann hafði. Hann var líka einlægur trúmaður sem birtist á svo margvíslegan hátt í lífi hans og þjónustu.

Við sem þjónuðum með honum í Keflavíkurkirkju biðjum góðan Guð að blessa sr. Sigfús, þökkum samfylgdina með honum og miðlum kærum kveðjum til fjölskyldu hans.

Arnór, Erla og Skúli.

Við lútum höfði félagarnir í bljúgri bæn fyrir matinn og minnumst Sigfúsar, sem einnar höfuðáttanna, er við hittumst hér á Fellsströnd til að spila bridge.

Samkoman endurspeglar gleðistundir, þá félagar hittast og næra vinarþel í fögru umhverfi, þar sem mynni Hvammsfjarðar með sínum eyjafjölda býr okkur hið fegursta altari þá litið er út um stofugluggana. Þetta höfum við gert í um áratug, stundum einu sinni, stundum tvisvar ár hvert. Sigfús var með okkur á meðan heilsan leyfði. Hugljúfur, síbrosandi, klókur spilari sem kenndi okkur sem styttra vorum komnir og tók þátt í galsanum sem brast á er minnst varði. Sigfús var hið sanna norður við borðið. Arnór kom úr austrinu, Ríkharður úr suðrinu og Skúli úr vestrinu. Húsráðandi, Konráð, bar titilinn áttleysa, enda fimmta hjólið og lítt skrifað blað í þessari göfugu íþrótt. Sigfús var á heimavelli við spilaborðið. Bridgeíþróttin reynir ekki aðeins á minni, útreikninga og herkænsku. Hún er líka félagsleg athöfn þar sem samskipti lúta lögmálum sagnkerfa þar sem oft reynist erfitt að ná áttum. Norður kallaði okkur saman til spilakvölda á heimili þeirra Laufeyjar og nutum við gestrisni þeirra og hlýju. Þar var oft mikið hlegið og glatt á hjalla þrátt fyrir erfiðar aðstæður þegar heilsa norðurs setti strik í reikninginn. Þegar sjón Sigfúsar fór að daprast dóu áttir ekki ráðalausar heldur spiluðu bara á stærri spil sem voru hvert um sig eins og blævængur. Endalaus trú og æðruleysi Sigfúsar í erfiðri baráttu við sjúkdóminn var aðdáunarverð. Norður vann afar vel úr þeirri hendi sem honum var gefin í þessu lífi hér á jörð.

Arnór, Konráð,
Ríkharður og Skúli.

Þegar Laufey hringdi og sagði „Stefán, Fúsi er dáinn“, þá sukku orðin inn í hjarta mitt og upp komu alls konar yndislegar minningar um þennan dásamlega vin sem tókst á við lífið á einstakan hátt, jafnvel eftir að hann veiktist. Eitt af einkennum sannrar vináttu er að hún helst sterk þótt samverustundunum fækki. Þannig var því farið með okkur Fúsa eins og ég kallaði hann ávallt. Vináttan og nándin breyttist ekkert þótt við hittumst sjaldnar. Hann hafði mikla réttlætiskennd og mátti ekkert aumt sjá. Haustið 1987 fór hann í guðfræðinám við Háskóla Íslands. Það er óhætt að segja að prestsstarfið hafi hentað honum mjög vel, en það var einmitt það ár sem við kynntumst. Er ég skrifa þessi minningarorð koma allar skemmtilegu minningarnar upp í hugann. Ég keypti nýjan Mazda-bíl og við vinirnir fórum um víðan völl í þeim bíl. Okkur datt t.d. í hug að fara til Keflavíkur svona bara til að taka einn rúnt. Það var mikið spjallað og mikið keyrt.

Þau voru líka ófá skiptin sem við komum við í Staldrinu sem heitir núna Aktu taktu og fengum okkur smá nætursnakk, franskar kartöflur eða eitthvað í þeim dúr.

Áður en ég kynntist Fúsa var ég ekki á sérstaklega góðum stað. Gagnfræðaskólaárin höfðu verið mér erfið en þetta breyttist allt þegar ég kynntist Fúsa. Hann reif mig upp úr þessum dimma stað sem ég hafði verið á. Hann hjálpaði mér að öðlast sjálfstraust á ný sem ég bý að enn í dag.

Vinir okkar kölluðu okkur félagana spaugarana enda var mikið hlegið og spjallað.

Árið 1989 gifst hann Laufeyju Gísladóttur sem var mikil blessun inn í líf hans og hann inn í líf hennar. Þau voru svo samrýnd og náin, en samt ekki lokuð. Vinátta okkar Fúsa hélt áfram og styrktist ef eitthvað var.

Trúin á Guð var Fúsa allt. Við töluðum mikið um trúmál og verandi prestur gat Fúsi miðlað trú sinni á fallegan hátt til fólksins í bænum sem hann bjó í.

Fúsi var fjölskyldumaður og elskaði fjölskyldu sína mjög mikið, Laufeyju og dæturnar tvær, Birtu Rut og Hönnu Björk. Það fór ekki á milli mála hversu mikill kærleikur sveif yfir vötnum í Fagragarði 8 þegar ég kom í heimsókn.

Það er erfitt að ákveða hvað maður á að skrifa í stuttri minningargrein um frábæran vin. Ef ég ætti að nefna allt sem við vinirnir brölluðum saman myndi ég þurfa nokkuð margar síður í þessu blaði.

Stundum hittum við einstaklinga sem hafa áhrif á líf okkar til hins betra. Þeir eru eins konar ljós inn í dimmar aðstæður. Þannig var Fúsi fyrir mér og ég veit að ég tala fyrir munn svo margra annarra sem urðu á vegi hans. Hann hafði einstakt lag á að ná til fólks. Hann var eins og sumir segja maður fólksins, en þó ekki á kostnað trúar sinnar eða sannfæringar.

Hann var alveg einstakur og hafði alltaf tíma fyrir aðra. Hann kom vel fyrir sig orði, en kunni líka að hlusta með athygli og kærleika.

Ég læt hér staðar numið og syrgi vin minn Sigfús Baldvin Ingvason. Hann er á himnum og fylgist með öllu sem fram fer á jörðu niðri. Ég votta Laufeyju, Birtu Rut, Hönnu Björk og fjölskyldu hans allri mína dýpstu samúð.

Stefán Ingi Guðjónsson.