Hagyrðingur Sigurður Sigurðarson með bókina og diskana.
Hagyrðingur Sigurður Sigurðarson með bókina og diskana. — Morgunblaðið/Sigmundur
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sigurður Sigurðarson, dýralæknir frá Keldum, hefur sent frá sér bókina Ljóð og lög Sigurðar dýralæknis. Þar eru um 1.700 ljóð eftir hann frá 1956 til ársins í ár og um 60 sönglög, 40 við eigin texta, auk um 100 vísna og vísuparta eftir aðra. „Ég vissi að ef ég gæfi ekki safnið út myndi enginn gera það,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir frá Keldum, hefur sent frá sér bókina Ljóð og lög Sigurðar dýralæknis. Þar eru um 1.700 ljóð eftir hann frá 1956 til ársins í ár og um 60 sönglög, 40 við eigin texta, auk um 100 vísna og vísuparta eftir aðra. „Ég vissi að ef ég gæfi ekki safnið út myndi enginn gera það,“ segir hann.

Kveðskapur var ríkur þáttur í uppeldinu á Keldum á Rangárvöllum, að sögn Sigurðar. „Fólk í kringum mig hafði mikinn áhuga á vísnagerð, fólkið mitt var alltaf að fara með kveðskap og ég byrjaði að semja vísur tíu til tólf ára gamall.“ Hann segir að móðir sín, Kristín Skúladóttir, og móðuramman Svanborg Lýðsdóttir hafi hvatt sig til að skrá eigin vísur og það hafi hann gert nema hvað elstu vísurnar séu glataðar.

Tækifærisvísur

Í bókinni eru margar tækifærisvísur og vísur ortar að gefnu tilefni. Nokkrar eru um Andrés Valberg og eftir hann. Í skýringu við eina þeirra segir Sigurður að Andrés hafi komið í pontu á fundi hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni og sagst „vera orðinn þunglyndur af fjármálaáhyggjum. Ég fór í pontu og spurði, hvort hann vildi að ég reyndi lækningu. Hann kvað já við því. Ég sagðist þá verða að gera það sem dýralæknir. Hann samþykkti það.“ Sigurður bætir við að hann sé ekki fljótur að semja en á stundinni hafi orðið til eftirfarandi vísa:

Andrés þjáir þunglyndi,

það er ljóta sagan.

Ef karlinn væri kvikindi,

kynni ég að lag’ann.

„Andrés gleymdi öllu þunglyndi og fann ekki fyrir því eftir þetta.“ Sigurður bætir við að Andrés hafi verið mikill vinur sinn og því ómaklega kveðið en vísan hafi hresst hann og það hafi verið aðalmálið.

Höfundurinn segir að sér þyki annars vænt um allar vísur sínar og allra helst vísur um börnin sín og ástarvísur um konur sínar elskulegar, fyrst Halldóru Einarsdóttur og síðan Ólöfu Erlu Halldórsdóttur. Ég hef verið ótrúlega kvenheppinn um dagana.“

Söngur ásamt kveðskapnum var fastur liður á Keldum. Sigurður hefur samið lög og texta frá barnsaldri og haustið 2019 gaf hann út 60 lög á tveimur diskum, Lífslög Sigurðar dýralæknis í 60 ár 1958-2018, og eru nótur og textar í bókinni. „Ég hef aldrei lært almennilega á hljóðfæri en móðir mín var organisti og fór með okkur bræður út í kirkju og spilaði fyrir okkur lög af ýmsu tagi, ættjarðarlög og fleira. Amma mín var kvæðakona og kvað stemmur.“

Sigurður var í krefjandi starfi sem dýralæknir í áratugi, helsti sérfræðingur landsins í riðuveiki auk þess sem hann hefur lengi rannsakað útbreiðslu miltisbrands og unnið með Ólöfu, konu sinni, við leit, skráningu og merkingu á miltisbrunagröfum. Hann segir að kveðskapurinn hafi komið sér vel við að létta lund manna og gleðja á erfiðum tímum. „Þegar allt var á suðupunkti bað ég menn gjarnan um að koma með ljóta vísu um mig og það varð til þess að gjörbreyta andrúmsloftinu.“

Bókin fæst hjá höfundi og þeir sem ekki hafa fengið diskana fá þá í kaupbæti.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson