Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
„Ég álít að upphaf vellíðunar sé fólgið í því að vera ekki að skifta mér af því hvernig aðrir hafa það eða hvurt aðrir menn ætla“

Vilhjálmur Bjarnason

Í Árna biskups sögu er frásögn um skattamál. Loðinn leppur var ekki sáttur við framkvæmd tíundarlaga, en það er fyrsta lagasetning um skattamál hér í landi, sennilega frá árinu 1097.

Úr Árna biskups sögu

Loðinn Leppur segir við Árna biskup (1269-1298):

„Þið biskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur um allan heiminn, og einsaman er rétt og lögtekin.“

Árni biskup er ekki alveg sammála Loðnum leppi og svarar fullum hálsi:

„Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.“

Ágreiningurinn snerist um það hvort tíund væri eignaskattur eða tekjuskattur. Tíund var eignaskattur. Tíund var 10% skattur af lögarði, sem var 10% á þjóðveldisöld, í raun 1% eignaskattur, en ekki 10% skattur af tekjum búsins.

Kirkjan viðurkenndi ekki vexti og að dautt fé gæti gefið af sér arð. Íslendingar komust upp með að sneiða hjá meginreglum svo snemma sem á fyrstu öldum byggðar.

Þróun í skattlagningu

Vitræn skattlagning á Íslandi á sér ekki langa sögu. Lög um tekjuskatt eru sett 1877, síðan kemur lögfestan um skattstjóra árið 1921. Fyrsti skattstjórinn er jafnframt prófessor í fullu starfi. Og svo var drengur úr Samvinnuskólanum gerður að skattstjóra. Þá voru um 260 niðurjöfnunarnefndir, með misvitrum nefndarmönnum, sem sem gert var að leggja gjöld á íbúa eftir „efnum og ástæðum“.

Sennilega hefst vitræn skattlagning ekki fyrr en árið 1962 þegar embætti ríkisskattstjóra er stofnað. En þá er komið á vitrænni skattlagningu með samræmdum reglum.

Nú er svo komið að flestar upplýsingar, sem þarf til álagningar skatta, eru forskráðar á framtal, þannig að einungis þarf að opna framtal og ýta á „senda“. Framtalskvíða er þá lokið.

Deilum um skattskyldar tekjur er að mestu lokið, en þekktir gáfumenn skilja ekki eðli „verðbóta“ og þaðan af síður eðli „arðs“tekna. Ritari ætlar ekki að útskýra þessi andlög að sinni.

Undanskot og svik

Það eru margir, sem eru kallaðir til að fjalla um skattundanskot og skattsvik.

Skattundanskot eru af margvíslegum toga.

Vantaldar tekjur

Nótulaus viðskipti, sem er ein tegund vantalinna tekna

Milliverðlagning

Tilhæfulausir reikningar

Einkaneysla bókuð sem aðföng í atvinnurekstri

Tekjur í aflandsfélögum

Virðisaukaskattur af sölu vöru og þjónustu í röngu skattþrepi

Ritari barðist nokkuð fyrir afnámi arfavitlausrar skattlagningar, eins og skattlagningar frístundahúsa. Til skamms tíma var sala sumarhúsa skattlögð með hálfu hlutfalli fjáreignatekjuskatts. Af hverju? Af því bara! Afnám þessa skatts hafðist í gegn eftir að þingtíma mínum lauk.

Yfirleitt má rekja „verðmætaaukningu“ fasteigna til verðbólgu. Verðbólga getur ekki verið grunnur að skattlagningu. Verðbólga skilar ekki eignaaukningu.

Viðskipti yfir landamæri

Vissulega flækjast mál þegar fyrirtæki eiga í viðskiptum yfir landamæri og þegar fjölþjóðleg fyrirtæki eiga í hlut. Með milliverðlagningu er átt við verðlagningu í viðskiptum milli tengdra fyrirtækja yfir landamæri. Hin eiginlega krafa er að viðskipti séu á verði eins og milli óskyldra aðila, oftast á einhverju sem er næst „markaðsverði“. En ekki er það alltaf óumdeilt og fyrirtæki reyna þá að haga verðlagningu þannig að hagnaðurinn verði eftir í því landi þar sem skattprósentan er lægst.

Með aflandsfélögum er átt við eignarhaldsfyrirtæki, sem aðeins taka við fjáreignatekjum en stunda ekki framleiðslu.

Ýmis fyrirtæki virðast eiga heimilisfesti á Írlandi, þar sem tekjuskattur fyrirtækja er mjög lágur. Það er ekki aðeins Ísland sem er ósátt við óeðlilega skattlagningu á Írlandi. Svo á einnig við um skattyfirvöld í Bandaríkjunum og í Evrópu. Írland er á margan hátt „afland“.

„Skattsvik eru 4-5% af landsframleiðslu“

Ritari hefur verið áhugamaður um skattamál og „skattundanskot“ í áratugi. Ritari hefur lesið mörg rit um „skattsvik“ og þar er yfirleitt gengið út frá því í upphafi slíkra skýrslna að skattsvik á Íslandi séu sambærileg og í öðrum löndum.

Ritari hefur ekki víðtæka reynslu af skattlagningu í öðrum löndum. Þó virðist ritara sem viðskipti séu í reglufastara formi eftir því sem hnattstaða reksturs er norðar. Sama á við um heimilisfesti stórra fyrirtækja. Hnattstaða þeirra er oftar en ekki á breiddargráðum milli 50° og 60°.

Nú vill svo til að það hafa verið færðir þjóðhagsreikningar á Íslandi frá 1945 og landsframleiðsla hefur verið áætluð aftur fyrir gerð skipulegra þjóðhagsreikninga.

Á þessu tímabili skipulegra þjóðhagsreikninga hafa gögn til vinnslu þjóðhagsreikninga ekki aðeins skánað, heldur snarbatnað, og ná gögnin nú yfir rúmlega 99% af starfsemi í landinu.

Jafnframt hefur virðisaukaskattur verið lagður á vöru og þjónustu. Hagstofa tekur reglulega saman yfirlit um virðisaukaskattsveltu eftir tímabilum. Þá má nefna að víðtæk notkun kredit- og debetkorta, jafnvel í smæstu viðskiptum, bætir alla tekjuskráningu.

Auðvitað eru þessi uppgjör náskyld og þegar við bætast skattuppgjör fyrirtækja er kominn nokkuð góður grundvöllur til efnahagslegs lestrar og ályktunar.

Með því að fara svokallaða „leifaleið“, þ.e. að draga hlutdeild þeirra atvinnugreina þar sem upplýsingar eru „öruggar“ frá heild, þá sitja eftir 5%-10% eftir smiðsaugamati. Til þess að fá þau 4%-5% sem spakvitrir menn telja að „skattsvik“ séu í hlutfalli af landsframleiðslu þarf að bæta 50% til 100% á þær greinar sem eftir eru og ekki taldar „öruggar“ í skattalegu tilliti.

Eru þá undanskilin eiturlyfjaviðskipi og vændi, sem eru eðli máls samkvæmt tormetin.

„Ég álít að upphaf vellíðunar sé fólgið í því að vera ekki að skifta mér af því hvernig aðrir hafa það eða hvurt aðrir menn ætla.“ Ritari er ekki í eftirliti.

Iðrun og synd

„Aldrei verður maður gripinn jafnsárri iðrun og þegar maður hefur sett sig úr færi um að syndga. Ólán heimsins er sprottið af því að menn skortir hugrekki til að syndga.“

Vissulega eru skattsvik synd. Þau varða ekki aðeins þá sem í hlut eiga. Skattsvikarar eru gjarnan byrði í lífeyriskerfi. Skattsvikarar greiða ekki í lífeyrissjóð og verða gjarna bótaþegar almannatrygginga. Og þar með byrði fyrir skilvísa.

Höfundur var alþingismaður og lektor í fjármálum.