Ásgeir Gestsson fæddist 27. ágúst 1937 á Syðra-Seli í Hrunamannahreppi. Hann lést 8. nóvember 2023 á Sólvöllum á Eyrarbakka.

Ásgeir var sonur hjónanna Gests Guðmundssonar, bónda á Syðra-Seli, f. 1902, d. 1988 og eiginkonu hans Ásu Maríu Ólafsdóttur, f. 1908, d. 1994.

Hálfbróðir Ásgeirs sammæðra var Ólafur Sigurgeirsson, f. 1932, d. 2018. Alsystkini Ásgeirs eru Guðrún, f. 1936, Hjalti, f. 1938, d. 1941, Marta, f. 1940, Halldór, f. 1942, d. 2008 og Skúli, f. 1947, d. 2020.

Eiginkona Ásgeirs frá 17.6. 1961 var Hrafnhildur Jakobína Sigurbjörnsdóttir frá Kelduneskoti í Kelduhverfi, f. 1940, d. 1998, þau höfðu þá slitið samvistum. Börn Ásgeirs og Hrafnhildar eru Ævar, f. 1961, í sambúð með Svanhildi Hrönn Pétursdóttur, hann á þrjú börn og fimm barnabörn, Eydís, f. 1962, í sambúð með Ólafi Bjarna Ólasyni, hún á fjögur börn og tvö barnabörn, Gestur, f. 1968, giftur Gerd Annie Asgeirsson, hann á tvö börn og eitt barnabarn, Ása María, f. 1969, í sambúð með Kristjáni Ketilssyni, hún á fimm börn og þrjú barnabörn, Ásgeir Hrafn, f. 1972, í sambúð með Anne Reiersen, hann á þrjú börn og tvö barnabörn, Benedikt Óskar, f. 1975, giftur Hönnu Björk Grétarsdóttur, hann á þrjú börn.

Ásgeir ólst upp í stórum systkina- og frændsystkinahópi á Syðra-Seli og vann öll hefðbundin sveitastörf. Eftir unglingsárin vann hann hin ýmsu störf víða um land, var meðal annars á sjó nokkrar vertíðir. Hann lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri og hófu þau Hrafnhildur búskap á Kaldbak 1963. Þar bjó Ásgeir til 2002 þegar hann flutti að Flúðum og átti þar heimili til dauðadags en dvaldi síðustu árin á Sólvöllum á Eyrarbakka.

Útför Ásgeirs fer fram frá Hrunakirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 14.

Í dag kveðjum við frænda okkar Ásgeir Gestsson. Hann ólst upp í stórum barnahópi og bjuggu foreldrar okkar félagsbúi að Syðra-Seli í Hrunamannahreppi. Sex börn í vesturendanum og sex í austurendanum og var ansi oft glatt á hjalla, bæði í leik og í starfi. Ásgeir var mikil félagsvera og hafði gaman af því að hitta og tala við fólk, hvort sem það voru fullorðnir eða börn. Hann var bóndi á Kaldbak, átti stóran fjárstofn, afar fjárglöggur, kunni skil á flestum fjármörkum og var hann fjallkóngur Hrunamanna um tíma. Hann var mikill hestamaður og hafði unun af útreiðum og hestaferðum. Þær voru líka ófáar og afar skemmtilegar bridge-spilastundirnar í austurendanum.

Agnes minnist sérstaklega heimsókna hans í búðina; kaffi, kringlur og spjall við vinina. Oftar en ekki fór hann með eftirfarandi:

„Það var og, sagði skáldið, og hló við fót.

Hann var sköllóttur með eina tönn. Svo kom blessað vorið.“

Og þegar hann kvaddi vinina sagði hann: „Komdu aftur ef þú villist.“

Við færum börnum Ásgeirs, Ævari, Eydísi, Gesti, Ásu Maríu, Ásgeiri, Bena og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kæran frænda kveðjum við með hlýhug og þökk fyrir samfylgdina í gegnum tíðina.

Hvíl í friði, blessuð sé minning þín.

Systkinin frá Syðra-Seli,

Elsa Sigrún, Guðrún, Guðmundur, Margrét, Kristrún, Agnes og fjölskyldur.