Guðrún Helga Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík 16. janúar 1975. Hún lést á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans 2. nóvember 2023.

Foreldrar hennar eru Finnbogi Birgisson, f. 23.4. 1955 og Þórunn Elín Halldórsdóttir, f. 23.4. 1957.

Guðrún Helga var elst þriggja systkina. Systir hennar er Þórunn Benný, f. 21.2. 1979 og bróðir Birgir Arnar, f. 2.7. 1984.

Hinn 25.8. 2001 giftist Guðrún Helga eftirlifandi eiginmanni sínum, Arnari Má Árnasyni tæknifræðingi, f. 20.1. 1975.

Foreldrar hans eru Árni Páll Ragnarsson, f. 3.6. 1951 og Guðrún Ósk Valtýsdóttir, f. 6.4. 1950.

Guðrún Helga og Arnar Már eignuðust soninn Brynjar Snæ, f. 27.6. 1997. Brynjar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í alþjóðaviðskiptum í Danmörku.

Guðrún Helga flutti tveggja ára með foreldrum sínum til Neskaupstaðar þar sem hún eyddi unglingsárunum. Árið 1992 kynntist hún Arnari Má og sama ár fluttu þau saman í Kópavog og hófu þar sambúð, þá 17 ára gömul. Eftir flutninginn suður hóf Guðrún fljótlega nám í hársnyrtiiðn við Iðnskólann í Reykjavík. Að námi loknu starfaði hún nær alla tíð sem hársnyrtir, lengst af í Reykjavík og Kópavogi en auk þess á Reyðarfirði um skamma hríð. Í tæpan áratug rak hún sína eigin hárgreiðslustofu í Skipholti í Reykjavík. Árin 1999-2002 bjó fjölskyldan í Danmörku þar sem Arnar var við nám, og á þeim tíma starfaði Guðrún Helga á leikskóla.

Árið 2004 keyptu þau hjónin sér íbúð í Breiðvangi í Hafnarfirði, þar sem þau bjuggu til 2012. Þá keyptu þau sér hús í Túngötu 9 á Álftanesi og fluttu í „sveitina“.

Guðrún Helga hafði gaman af prjónaskap og ýmsu föndri, var félagslynd og naut sín best í góðra vina hópi og í faðmi fjölskyldunnar.

Útför hennar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 11.

Elsku systir mín er farin frá okkur í blóma lífsins. Við sem eftir sitjum skiljum ekki af hverju, þú með þitt fallega hjarta sem ávallt varst tilbúin að gera allt fyrir alla. Það sem við systkinin vorum einstaklega heppin að eiga þig sem stóru systur.

Þú varst ekki gömul þegar þú hittir þína einu sönnu ást. Þið Arnar voruð einstakt par, alltaf ein heild, og þegar Brynjar Snær ykkar mætti á svæðið stækkaði heildin og varð að fallegri lítilli fjölskyldu.

Oft vissir þú meira en við hin eins og þegar við Davíð giftum okkur. Við ætluðum að hendast inn hjá sýslumanni, en þú máttir nú ekki vita af litlu systur gifta sig ógreidd og boðaðir komu þína til að gera mig brúðkaupsfína. Þú mætir á svæðið, horfir á mig og spyrð: „Er ekki eitthvað sem þú átt eftir að segja mér?“ Ég svara neitandi, þú tókst það nú ekki gilt og spyrð aftur hvort það sé ekki eitthvað sem ég eigi eftir að segja þér! Ég man hvað mér brá og hugsa: hvernig veit hún leyndarmál mitt – enda hafði ég bara vitað það sjálf í þrjá daga – og svara að ég sé ólétt. Þú horfir á mig með þína einstöku glettni í augum og svarar mér að þú hafir vitað það en viljað að ég segði þér það sjálf.

Þegar leið á þessa meðgöngu voru merki um litningagalla, hringdi ég strax í þig til að fá ráð og hughreystingu. Þið Arnar sögðuð mér að þetta líkindamat væri bara stærðfræði, ég skyldi bara bíða róleg. Svo fékk ég staðfestingu á að ekkert amaði að og lítil stúlka væri á leiðinni. Kom ekkert annað til greina en að nefna hana í höfuðið á manneskjunni sem ég leit mest upp til, stóru systur minni, og fékk hún nafnið Helga.

Þú hafðir gaman af að gleðja aðra eins og sást þegar pabbi varð sextugur, þú fékkst mig með þér í lið til þess að plana herlegheitin. Stærsta gjöfin var að fá Birgi bróður heim frá Danmörku. Var svipurinn á þeim gömlu þegar þau opnuðu dyrnar og einkasonurinn stóð við dyrnar ómetanlegur! Það sem við systur gátum hlegið að þessu. Svo var brunað afstað í óvissuferð með bílstjórann Brynjar Snæ. Við enduðum daginn heima hjá ykkur Arnari þar sem tengdasynirnir tóku á móti okkur og var borðaður góður matur og trallað fram á nótt.

Þegar þú veiktist hrundi heimurinn því þetta var svo ósanngjarnt, við systur áttum gott samtal um lífið og tilveruna og þegar ég sagði Guðrúnu að það væri eins gott að hún sigraðist á þessum veikindum því ég treysti á hana að hjálpa mér að sinna þeim gömlu í ellinni því hún hefði betri tök á þeim en ég, þá var mín ekki lengi að svara: „Benný mín, ef það er eitthvað sem þú þarft að svara eða segja þeim skaltu ekki segja mamma eða pabbi heldur elsku mamma mín eða elsku pabbi minn, þá hlusta þau frekar á þig!“ Veistu, ég held að það sé bara alveg rétt hjá þér elsku Guðrún mín.

Nú ertu farin frá okkur og við sitjum eftir með brostin hjörtu en við munum með tíð og tíma læra að lifa með því. Elsku besta stóra systir mín, takk fyrir allt, ég mun alltaf passa vel upp á strákana þína og mömmu og pabba.

Þín systir,

Þórunn Benný.

Það var eitthvað við þennan morgun sem var depurð yfir og ég vissi ekki hvað. Sama dag kom þunga erfiða höggið þegar mér bárust þær fréttir að Guðrún Helga vinkona mín hefði látist þessa nótt.

Hvaðan komu fuglarnir,

sem flugu hjá í gær?

Á öllum þeirra tónum

var annarlegur blær.

Það var eitthvað fjarlægt

í flugi þeirra og hreim.

Eitthvað mjúkt og mikið,

sem minnti á annan heim,

og ég gat ekki sofið

fyrir söngvunum í þeim.

(Davíð Stefánsson)

Hetjan mikla sem hafði sigrað hverja ölduna á fætur annarri, þar til sú síðasta í þessu erfiða stríði lagði þessa einstöku konu að velli. Elsku Guðrún mín með fallega brosið og hláturinn sem alltaf var til staðar í yfir tuttugu ár sem við höfum verið vinkonur. Guðrún var gift frænda mínum Arnari og komu þau oft austur á Reyðarfjörð til tengdó eins og Guðrún sagði alltaf. Guðrún var algjör snillingur í sínu starfi, hárgreiðslumeistari og rak stofu í mörg ár með vinkonu sinni. Þangað kom ég oft til hennar í „sjæningu“ eins og við sögðum og fór alltaf endurnærð á sál frá henni. Hún var einstakur gleðigjafi og hlýjan og faðmlagið einstakt, hún hafði allt það besta sem guð getur gefið. En ekki var hennar lífsins ganga alltaf greið. Heppin voru þau Arnar þegar þeirra leiðir lágu saman ung að árum, yndisleg hjón sem áttu sér drauma og þrár. Eignuðust ljósgeislann í lífi sínu, hann Brynjar Snæ, yndislegur, fallegur og góður drengur sem óx og dafnaði hjá traustum og yndislegum foreldrum.

Árin liðu og Brynjar var ykkar einkabarn sem gekk menntaveginn og erlendis var haldið í áframhaldandi nám. Ævintýrin blöstu við ykkur og komið var að því að njóta lífsins, ferðast um landið með hjólhýsið og eiga sínar ævintýraþrár. Þá kom höggið stóra fyrir einu og hálfu ári, var hægt að leggja meira á þessa yndislegu konu en það sem hún var búin að ganga í gegnum? Jú erfiður vágestur hafði tekið sér bólfestu í hennar líkama. Hversu sorglegt og dapurt og erfiðir tímar sem tóku við. Guðrún ætlaði að sigrast á þessu og byrjaði strax í erfiðri meðferð sem tók eitt og hálft ár. Alltaf var haldið í vonina, vonina sem allir halda í sem lengst þar til haldið bugast og hnefinn bognar.

Elsku besta Guðrún mín, þú varst mesta hetja sem ég þekki og gafst öllum mikla hlýju og gleði þar til yfir lauk. Þessi raunasaga þín er ótrúleg en eftir skilur þú yndislegan mann og son sem þurfa að hefja nýtt líf. Líf án þessa engils sem þú varst. Minning þín lifir í hjörtum allra en enginn fyllir þitt skarð, elsku vinkona. Góða ferð og takk fyrir allt það sem þú gafst mér. Blessuð sé minning hetjunnar miklu, Guðrúnar Helgu.

Elsku Arnar, Brynjar, foreldrar, systkini og tengdaforeldrar, mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég ykkur.

Gleymum ekki góðum vin,

þó gefist aðrir nýir.

Þeir eru eins og skúraskin

skyndilega hlýir.

(Höf. ók.)

Dagbjört Briem Gísladóttir, Sléttu, Reyðarfirði.

Í dag er til grafar borin ástkær vinkona mín Guðrún Helga Finnbogadóttir. Að mér og fjölskyldunni setur mikinn harm en Guðrún Helga hafði háð hetjulega baráttu við banvænan sjúkdóm og gerði hún það af einskærri bjartsýni og hugdirfsku þannig að við fjölskylda og ástvinir fylltumst aðdáun.

Það er nánast óbærileg tilhugsun að Guðrún Helga sé nú tekin frá okkur í blóma lífsins, eins lífsglöð og hlý og hún kom okkur öllum fyrir sjónir. Guðrún Helga var kona mikilla mannkosta og erfitt að setja saman minningakorn sem ná yfir alla hennar kosti. Í mínum huga var sem hún væri búin til úr englum, hún var eins og Guðrún amma hennar; hugsaði alltaf fyrst og fremst um aðra. Hún var alltaf jákvæð og hefur í gegnum tíðina kennt manni svo mikið en afstaða hennar til mikilla veikinda hennar kennir okkur að njóta lífsins og vera þakklát fyrir lífið á meðan það varir og nýta allar stundir með kærleika í brjósti. Hún hugsaði sérstaklega vel um Birgi litla frænda sinn og var mjög kært á milli þeirra enda þótti honum mjög vænt um bestu frænku sína, eins og hann kallaði hana, og dekraði hún við hann hvenær sem henni gafst tækifæri til.

Við vorum svo heppin fjölskyldan að þegar við fluttum frá Kópavogi þá fundum við hús á Álftanesi og ekki skemmdi fyrir að Guðrún, Arnar og Brynjar voru í næsta húsi. Og þar sem fjölskyldur okkar voru mjög samrýndar var mjög notalegt að geta gengið á milli, ekki síst fyrir Birgi sem gat hlaupið til þeirra þegar honum datt í hug.

Elsku Arnar og Brynjar Snær, missir ykkar er svo sár og erfiður en við munum hjálpast að að komast í gegnum þetta. Samúðarkveðjur til ykkar feðga, foreldra, tengdaforeldra og systkina. Blessuð sé minning elsku vinkonu minnar Guðrúnar Helgu.

Brynja Rós Bjarnadóttir.

Við Guðrún Helga kynntumst á sólríku sumri í Neskaupstað níu eða tíu ára gamlar. Faðir minn var að leysa af á sjúkrahúsinu og við fjölskyldan fluttum í tveggja herbergja íbúð í göngufæri við allt. Mikið frelsi fyrir stelpu úr Reykjavík. Þetta var sumarið sem veðrið var svo gott að allir voru með lit í kinnum og Ólympíuleikarnir þar sem Carl Lewis og Flo Jo voru að keppa í frjálsum. Það voru einu skiptin sem við vorum inni að horfa á sjónvarpið. Það voru allir krakkar úti að leika og stökkva úr rólum til að ná sem lengst í hverju stökki. Guðrún kynnti mig fyrir krökkum og sýndi mér staðinn. Dorg, bryggjurnar, berjamór, feluleikir, ganga yfir gilið í ylgresisskógi og ævintýr á hverju strái. Hún var létt í skapi, brosmild með spékoppa og spjallaði við alla á góðu nótunum, svo var hlegið. Hún var mjög hugmyndaríkur og skemmtilegur krakki. Við urðum pennavinkonur og skrifuðumst á um veturinn, það var svo gaman að fá bréf frá henni. Fallegt bréfsefni með vandaðri skrift, stundum teikningar og brandarar en alltaf góðar sögur.

Sumarið eftir komum við aftur í fjörðinn farga, ég fékk mína fyrstu vinnu, að hugsa um blómabeð og raka. Ég er svo þakklátt Guðrúnu fyrir yndislegan tíma og góðar minningar frá þessum sumrum. Hún var komin með áhuga á að greiða og gera hár fínt. Ýmsar greiðslur prufaðar og mikið hlegið. Guðrún kenndi mér nokkrar greiðslur og hvað það væri auðvelt að safna hári og hugsa um það. Ég get þakkað henni fyrir að vera með fallegt sítt hár í fermingunni minni, því ég byrjaði að safna hári með hennar ráðum og hvatningu. Mældi það og sendi niðurstöður í bréfi, vísindi á mínu áhugasviði. Við vorum svo ólíkar og það var yndislegt. Gerði okkur báðar víðsýnni og lausnamiðaðri. Þegar Guðrún kom í heimsókn til Reykjavíkur var svo margt skemmtilegt brallað á unglingsárunum. Hún talaði við alla og spurði mikið, átti mjög auðvelt með að kynnast fólki og gera andrúmsloftið létt og skemmtilegt.

Samskipti okkar minnkuðu þegar Guðrún flutti í bæinn og svo til Danmerkur en svo síðustu ár er ég mjög þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman, hvort sem það voru ferðalög erlendis eða innanlands eða göngutúrar og spjall um lífið og tilveruna. Guðrún var góð í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og meiriháttar hárgreiðslukona. Hún gerði mig fullkomna í hvert sinn sem ég settist í stólinn hjá henni. Þegar Guðrún veikist af þessum illvíga sjúkdómi sem bráðahvítblæði er barðist hún með æðruleysi og jákvæðni, gat haldið gleðinni og styrk í gegnum þetta erfiða tímabil. Hún átti engan sinn líka. Guðrún var yndisleg manneskja, geislandi af gleði og hláturinn hennar innilegur og smitandi, ljósengill sem gerði líf fólks betra, alltaf tilbúin að aðstoða og hjálpa, ráðlagði og gaf af sér til síðustu stundar.

Ég er gríðarlega þakklátt fyrir þær stundir og minningar sem ég fékk með Guðrúnu og sendi innilegar samúðarkveðjur til eiginmanns hennar, Arnars, sonar þeirra Brynjars Snæs og allra vina og ættingja, hennar verður sárt saknað. Hvíl í friði elsku Guðrún Helga.

Hildur Kristinsdóttir.

Að hitta þig var eins og að ganga inn í sólargeisla. Heimurinn er fátækari þegar þú ert ekki lengur hér. Það sem við eigum samt enn eru minningarnar. Þær verða ekki frá okkur teknar. Kæru frændur og vinir, við höldum áfram.

Helga S. Ragnarsdóttir.

Í dag fylgjum við okkar elskulegu Guðrúnu Helgu síðasta spölinn. Hún var einstök samstarfskona og vinkona sem fyllti stofuna okkar af gleði og umhyggju. Hún tók á móti öllum með sínu einstaka brosi og hlýja viðmóti. Við vorum afskaplega náinn og þéttur hópur sem brölluðum ýmislegt saman og því er nú stórt skarð skilið eftir í Space-fjölskyldunni. Það er sárt til þess að hugsa að við fáum ekki að sjá fallega brosið og heyra hláturinn hennar aftur og ekki laust við að ákveðinn tómleiki svífi yfir stofunni þessa dagana.

Allar fallegu minningarnar munu lifa áfram í hjörtum okkar.

Hvíldu í friði, dásamlega Guðrún Helga.

Þínar

Pála, Eva, Ásta, Stella, Fanney, Hanna og Alda.