Árbjörg Ólafsdóttir fæddist í sjúkrahúsinu í Keflavík 26. nóvember 1971. Hún andaðist á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans við Hringbraut 4. nóvember 2023.

Foreldrar hennar eru Ólafur Sigurþór Sveinsson f. 13. september 1945 og Guðbjörg Anna Ellertsdóttir f. 15. janúar 1949.

Systur Árbjargar eru Þórdís Lilja f. 1967, maki Matthías Magnússon, börn þeirra eru Ólafur Matti og Elna Mattína. Sveindís f. 1974, maki Stefán G. Guðmundsson, sonur hennar er Victor Alexander, sambýliskona hans er Lilja Viktoría. Halla Sif f. 1980, maki Andri Tryggvason. Börn þeirra eru Arnþór, Tryggvi og Anna Sif.

Fyrstu æviárin sleit Árbjörg barnsskónum í Laugarnesinu og hóf skólagöngu í Laugarnesskóla, en þegar Árbjörg var á níunda ári flutti fjölskyldan í Efra Breiðholt þar sem Árbjörg gekk í Hólabrekkuskóla og útskrifaðist síðar sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún lauk háskólaprófi í þroskaþjálfun og starfaði nær óslitið á þeim vettvangi til dauðadags, síðast sem forstöðumaður frístundaheimilisins Hraunheima í Breiðholti.

Árbjörg var málsvari barna sem þurftu á hvers kyns stuðningi að halda og bæði vakin og sofin yfir velferð þeirra í sínu starfi. Hún tók þátt í ýmsu félagastarfi og var meðal annars ein af stofnendum Hryggigtarhópsins innan Gigtarfélags Íslands.

Útför Árbjargar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 17. nóvember 2023, klukkan 13.

Það er komið að sárri kveðjustund í hópi samrýmdra systra. Elsku Árbjörg, sú næstelsta í systrahópnum, hefur kvatt jarðvistina og eftir sitja ljúfar minningar, sorg og söknuður.

Svipmynd úr barnæsku systra í Laugarnesinu snemma á áttunda áratugnum. Fiðrildið Árbjörg flögrar út í glugga með sína æðislegu Fisher Price-myndavél og tekur myndir í gríð og erg. Kastar henni svo aftur fyrir sig þannig að hún lendir beint á kolli Sveindísar, litlu systur, sem hálfrotast, sér stjörnur og hefur æ síðan elt Árbjörgu stóru systur með stjörnur í augum um allar koppagrundir.

Ég er þakklát fyrir að hafa deilt herbergi með Árbjörgu fram á unglingsár og verið ferðafélagi hennar síðan ég man eftir mér. Við höfum gengið saman hönd í hönd í gegnum lífið, hvort sem það var í dagsins önn, fjallgöngum, á ferð um Ísland eða í útlöndum, segir Sveindís sem fór með Árbjörgu í hennar hinstu fjallaferð. Tilhlökkunin fyrir ferðalaginu var mikil en örfáum dögum áður en lagt var af stað fékk Árbjörg verstu fréttir lífs síns; hún var með ólæknandi krabbamein. Hún lét þó ekki deigan síga og hélt ótrauð áfram ætlunarverkinu, að ganga Laugaveginn á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víst var henni illa brugðið og af henni dregið en áfram ætlaði hún samt og var það mikil þolraun. Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa slegist í för með henni í þessa ferð og finnst heiður að hafa verið stoð hennar og stytta í draumaferðinni.

Victor, sonur Sveindísar, segist hafa lært af Árbjörgu að gefa sér tíma. Árbjörg hafði nefnilega alltaf tíma til að hlusta, vera til staðar og dvelja í núinu. Hún var alltaf boðin og búin, og oftar en ekki líka búin að græja og gera, segir hann í eftirsjá eftir sinni uppáhaldsfrænku.

Örverpið í systrahópi Árbjargar, Halla Sif, fæddist haustið 1980 þegar fjölskyldan flutti í Efra-Breiðholtið. Svo margs er að minnast frá hamingjuríkum uppvaxtarárunum og langri samfylgd í gegnum lífið, en rauði þráðurinn er hversu allt gekk vandræðalaust hjá Árbjörgu. Vandamál voru ekki til í hennar huga. Það leystist allt einhvern veginn. Þannig var hún áhyggjulaus, afslöppuð, jákvæð, réttsýn og skemmtileg, segir Halla Sif um stóru systur sem var alltaf með útrétta hjálparhönd.

Systrabörn Árbjargar voru henni hjartfólgin og hún hugsaði um þau sem sín eigin. Hún naut þess að dekra við þau, hvort sem það var að fata þau upp í utanlandsferðum með leikföngum og gotteríi, bjóða þeim á safnarúnt og kaffihús í bænum, í bíóferð eða salíbunu í sundi. Ég hreinlega veit ekki hvort átti erfiðara með að missa af öllum ævintýrum sem þau Tryggvi barnungur sonur minn höfðu skipulagt þegar veikindin fóru að taka sinn toll af Árbjörgu. Á dagskránni var bæjarferð í tveggja hæða strætó og gistipartí hjá bestu frænku með Hvolpasveitarkaffið á sínum stað yfir teiknimyndum. Það var aðdáunarvert hvernig Árbjörg tókst á við veikindi sín af krafti og miklu æðruleysi. Hún lét þau ekki stoppa sig í því að lifa lífinu til fulls, nánast fram á síðasta dag, minnist Halla Sif.

Árbjörg elskaði íslenska náttúru, fannst hún komin í paradís í sumarlandi fjölskyldunnar í Landsveit og lagði stund á göngur upp um fjöll og firnindi með hinum ýmsu gönguhópum, bæði heima og að heiman. Hún var félagslynd og vinamörg, elskaði ferðalög innanlands sem utan og hafði einkar gaman af gestaboðum og samfundum með vinum og ættingjum. Eftir að hún kynntist Ljósinu fann hún óvænt listagyðjuna í sjálfri sér og skapaði ótal listaverk í leir, saumum, málun og fleiru.

Það felst svolítil huggun í því að Árbjörg skilur eftir sig fagurt handverk sem hún lagði í natni, stolt og fegurð þegar heilsan brast. Hún skapaði hvern hlut af gaumgæfni og gaf ástvinum sínum til að njóta í minningu hennar. Hún skilur eftir sig stórt skarð og verður ávallt sárt saknað. Hún mátti ekkert aumt sjá, var fyrst til að bjóða fram hjálp sína og liðsinni og var örlætið uppmálað, hvort sem það gilti um tíma hennar, gjafir, boð, ferðalög eða heimilið sjálft. Árbjörg var sólargeisli í lifanda lífi og ljós hennar mun halda áfram að skína og ylja þegar sorg og söknuður kreppir að. Við þökkum fyrir allar dýrmætu stundirnar, að hafa átt hana fyrir systur og verið samferða henni í gegnum lífið. Árbjörg var elskuð og hún elskaði fólkið sitt takmarkalaust. Hún var hvetjandi og umhyggjusöm, örlát, hjartahlý, stríðin en viðkvæm, uppátækjasöm, leikfús og hreint dásamlegt eintak af manneskju. Tilveran verður svo miklu fátækari án hennar, segir Þórdís, sú elsta.

Elsku, hjartans Árbjörg okkar. Guð geymi þig. Minning þín er ljós í lífi okkar. Með þökk fyrir allt og allt.

Þínar systur,

Þórdís, Sveindís og Halla Sif.