— Ljósmyndir/Sigga Ella
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Höfundarverk Ingibjargar Haralds hefur fylgt okkur í langan tíma og okkur finnst merkilegt að það er sama hvar við erum staddar í lífinu, við getum alltaf fundið ljóð í hennar ranni sem við tengjum við,“ segja þær Ingibjörg Ýr…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Höfundarverk Ingibjargar Haralds hefur fylgt okkur í langan tíma og okkur finnst merkilegt að það er sama hvar við erum staddar í lífinu, við getum alltaf fundið ljóð í hennar ranni sem við tengjum við,“ segja þær Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir tónskáld og Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona, en saman mynda þær tónlistardúóið Ingibjargir. Þær fagna útgáfu sinnar fyrstu plötu, Konan í speglinum, með tónleikum í Iðnó annað kvöld kl. 20 en platan inniheldur 15 ný sönglög við ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur.

„Þegar við hnutum fyrst um ljóðin hennar vakti sterk rödd þessarar konu athygli okkar, allt hjá henni er svo skýrt og við tengdum við það sem hún var að segja. Hún var ekki fjarlæg þó hún væri af annarri kynslóð, heldur heyrðum við vel í henni og við skildum hana vel, ungar að árum sem við vorum á þeim tíma. Sum ljóðin hennar náðu okkur algerlega,“ segja Ingibjargir sem kynntust í Listaháskólanum fyrir áratug.

„Þá vorum við báðar að grúska í ljóðum og við komumst að því að við vorum á sama tíma að skoða ljóð Ingibjargar Haralds, hvor í sínu lagi. Í lok hverrar annar í LHÍ er uppskeruhátíð tónsmíðanema sem heitir Omkvörnin, og ég samdi tónlist við tvö ljóð eftir Ingibjörgu Haralds fyrir þá hátíð, sem við Ingibjörg Fríða fluttum saman. Þetta var fyrir níu árum, í lok árs 2014 og þarna varð óvart til þessi þrenning eða konsept, við þrjár Ingibjargir.“

Þær segja að eftir því sem verkefninu með ljóð Ingibjargar Haralds hafi undið fram, þá fundu þær ný ljóð sem þær tengdu við. „Ingibjörg Haralds leyfir sér mikla mýkt en er á sama tíma algjör töffari. Við völdum ljóð á plötuna sem við tengdum persónulega við á þeim tíma sem lögin voru samin, en þá voru fyrstu börnin okkar mjög ung og fyrir vikið vorum við uppteknar af móðurhlutverkinu, en í dag myndum við kannski velja allt önnur ljóð. Hún var listakona og vinnandi móðir, rétt eins og við, og á nýliðnum kvennafrídegi varð okkur hugsað til þess hversu mörgu Ingibjörg tæpir á í sínum ljóðum sem enn á erindi. Til dæmis fjallar hún um þriðju vaktina, sem þá var ekki búið að gefa nafn, hún segir í einu ljóði á plötunni frá því hvernig kona hleypur á milli ritvélar og ryksugu á meðan hún sinnir börnum. Þetta er kona að reyna að sinna listsköpun, en ætlast er til að hún geri allt hitt líka á heimilinu. Hún kemur inn á hvernig börnin drekka hugsanir okkar með móðurmjólkinni þegar við erum með barn á brjósti, hversu mikið það breytir okkur og kippir okkur út úr öllu, en samt eigum við að sinna öllu hinu. Hún talar líka inn í samtímann með einlægri ósk um veröld án stríða.“

Harmóníum í Þingvallakirkju

Tónlistinni á plötunni hefur verið lýst sem töfrandi blöndu hins ævaforna og nútímalega, flæði á milli þess hefðbundna og tilraunakennda. Hljóðheimurinn samanstendur af píanói, langspili, harmóníum, spiladósum, söngskálum, kalimbum, klukkutifi, andardrætti og rafhljóðum, í bland við upplestur og söng.

„Sum lögin voru niðurnegld fyrirfram en önnur eru spuni og urðu til í hljóðverinu. Í grunninn er tónlistin á plötunni mikið til píanó og söngur, sem er okkar aðalhljóðfæri, en spuninn er sameiginleg tónsmíðaaðferð og lögin hafa mikið mótast í samspili. Hljóðfæranotkunin á plötunni endurspeglar ferðalag okkar síðasta áratuginn í tónlist, þau eru vitnisburður um hverju við höfum verið að grúska í á þeim tíma sem lögin urðu til. Langspilið er til dæmis hluti af hljóðfærahópnum af því að við vorum djúpt inni í þjóðlagatónlist á tímabili, og við erum alveg enn þar,“ segja þær Ingibjargir, en Ingibjörgu Ýri þykir mjög vænt um langspilið, því hún vann á Þjóðlagasetrinu á Siglufirði sumarið eftir að hún útskrifaðist úr Listaháskólanum. „Á þeim tíma komu fáir ferðamenn á safnið og ég var mikið ein þar, sem ég elskaði, af því að þá gafst tími til að spila á langspilið sem er þar í stofunni. Tilkoma harmóníum í laginu, „Til ófædda barnsins míns“, er sú að við frumfluttum það í litlu Þingvallakirkjunni og þar var harmóníum til staðar. Það lá beinast við að nota hljóðfærið og þannig varð augnablikið til. Í þessu lagi eru bara tveir hljómar út í gegn, rosalega einfalt, sem mér tónskáldinu finnst gaman að geta leyft mér, því ég hef verið að semja fyrir meðal annars Sinfóníuhljómsveit Íslands, og þá verður tónlistin óumflýjanlega flóknari.“

Þegar þær eru spurðar hvað hafi ráðið því að sum ljóðin séu lesin en ekki sungin, segja þær að það hafi oftast gerst í augnablikinu. Ingibjörg Fríða segir að eitt af því sem geri Ingibjörgu Haralds svo skýra, sé að henni líði eins og ljóðskáldið sé að tala beint við hana í ljóðunum.

„Ég upplifi ekki að ljóðmælandinn sé upphafinn, heldur líður mér eins og ljóðlínurnar séu í eðlilegu samtali við mig. Fyrir vikið finnst mér stundum þegar ég les ljóð Ingibjargar að þau þurfi að lesast í þeim takti sem ég myndi segja þessar setningar við fólk. Við leyfum líka rödd Ingibjargar Haralds að hljóma í einu lagi, „Land“, þar les hún sjálf upp ljóðið.“

Barneignir og skurðaðgerð

Ýmsar hindranir réðu því að Ingibjargir hafa ekki fyrr gefið út plötu saman, þrátt fyrir samvinnu í áratug. „Við erum búnar að eignast fjögur börn samtals á þessum áratug, sem þarf að sinna, en það sem setti helst strik í reikninginn er að ég þurfti að fara í heilskurðaðgerð,“ segir Ingibjörg Ýr.

„Ég var lengi að ná mér og varð barnshafandi þremur mánuðum eftir aðgerð, sem tafði batann, og síðan kom covid. Þessi lög og ljóð þurftu þessa náttúrulegu gerjun eða þróun í góðan tíma. Við unnum bróðurpart plötunnar 2019 og frumfluttum lögin á tónleikum, vorum tilbúnar til að fara í upptökur og söfnuðum fyrir plötunni með hópfjármögnun á Karolinafund. Okkur fannst gott að það var aldrei nein pressa, við leyfðum okkur að flýta okkur ekki. Við erum báðar starfandi listamenn og sinnum allskonar verkefnum og það er oft mikil pressa að gera allt hratt. Þetta verkefni hefur ekki verið þannig, lífið hefur gripið inn í, sem hefur verið dýrmæt lexía fyrir okkur og ótrúlega þroskandi, að komast að því að við erum ekki alltaf sjálfar við stjórnvölinn í lífi okkar,“ segja þær Ingibjargir og bæta við að myndverk Önnu Katrínar Einarsdóttur, sem m.a. prýðir umslag plötunnar, eigi sér tengingu við tónlistina á plötunni.

„Hún málaði þær með vatnslitum út frá sinni eigin túlkun á tónlistinni og við notum myndirnar hennar mikið til að tengja verkefnið og binda það saman.“