Þröstur Helgason og íslenski fjárhundurinn Buski í höfuðstöðvum Kindar útgáfu.
Þröstur Helgason og íslenski fjárhundurinn Buski í höfuðstöðvum Kindar útgáfu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er einfaldlega bara eitthvað við bókina. Það vita allir sem einhvern tíma hafa handleikið bók.

Þeir taka saman á móti mér, Þröstur Helgason og íslenski fjárhundurinn Buski, fimm mánaða. „Fyrst ég er kominn með bókaútgáfu sem heitir Kind þá varð ég auðvitað að fá mér fjárhund,“ segir Þröstur sposkur á svip. „Buski á eftir að verða verndari útgáfunnar og verður vonandi duglegur að smala bókum á markað.“

Þröstur hefur í meira en þrjá áratugi helgað sína starfskrafta menningu og listum; sem bókmenntagagnrýnandi, menningarblaðamaður og umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins og nú síðast dagskrárstjóri Rásar 1. Þegar hann lét af störfum þar í mars á þessu ári fór hann strax að huga að næstu skrefum.

„Mig langaði að halda áfram á sömu braut, sinna minni köllun, og bókaútgáfa hefur lengi höfðað til mín. Mig langar ekki síst að sinna sjónlistum, myndlist, hönnun og arkitekúr sem er allt á mínu áhugasviði. Það er skáldskapur auðvitað líka en margir eru um hituna þar. Ég útiloka ekki að gefa út skáldskap, verði eitthvað áhugavert á vegi mínum, en það er ekki yfirlýst markmið Kindar, heldur sjónlistir í víðum skilningi og sannsögur, það er annað efni en skáldskapur. Ég held að sé áhugi á slíkri útgáfu,“ segir hann.

– Þetta upplegg minnir um margt á Crymogeu sálugu.

„Já, Crymogea sinnti þessu hlutverki frábærlega og gaf út margar fallegar bækur. Hún hætti hins vegar 2016 og síðan hefur verið gat á markaðnum.“

Það fyrsta sem Þröstur gerði var að taka púlsinn á fólki í bransanum og kanna hvar þörfin lægi. Fyrsta verkefni hans spratt einmitt upp úr slíku samtali, við Börk Arnarson, gallerista í i8. „Hann kvaðst hafa áhuga á að gefa út veglega bók um list Eggerts Péturssonar og niðurstaðan varð sú að ég tók verkefnið að mér enda féll það mjög vel að mínum hugmyndum. Ég þekkti Eggert ekki mikið persónulega en hafði fylgst lengi með honum enda er hann einn af okkar bestu og ástsælustu listamönnum.“

Ekkert slegið af

Í bókinni, sem er í stóru broti, er að finna 109 myndir af málverkum Eggerts frá 25 ára tímabili og eru nýjustu verkin alveg ný af nálinni. Þar eru líka tvær greinar, önnur eftir Þröst sjálfan um verk Eggerts og hin eftir Þorlák Einarsson um ævi hans og feril. „Auk þess að gefa út bækur hef ég áhuga á að koma að skrifum, þar sem það á við, og það átti svo sannarlega við hérna.“

Þröstur er mjög ánægður með útkomuna. „Úr þessu hefur orðið gríðarlega fallegur prentgripur en ég fékk til liðs við mig mjög flinkan hönnuð, Einar Geir Ingvarsson, og prentað var í mjög góðri prentsmiðju á Ítalíu. Ekkert var með öðrum orðum slegið af. Ég legg mikla áherslu á að vanda til alls, mynda, texta, uppsetningar og prentunar.“

Og ekki er bara hugsað um heimamarkað en bókin kemur bæði út á íslensku og ensku. „Við teljum þessa bók eiga erindi út fyrir landsteinana.“

Þess má geta að forsala er hafin á vefsíðu Kindar, kindutgafa.is, og segir Þröstur hana hafa farið mjög vel af stað. Tilboðsverð er í gildi og allir kaupendur fá eintak sitt afhent í útgáfuhófi um miðjan desember, áritað af listamanninum sjálfum.

Sitthvað fleira hefur ratað til Þrastar eftir að hann fór að láta vita af útgáfunni og gerir hann ráð fyrir að eitthvað af því komi til með að bera ávöxt strax á næsta ári. „Ég er byrjaður að vinna að bók um íslenskan arkitektúr og svo eru fleiri listamenn við þröskuldinn. Ekki er þó tímabært að upplýsa meira um það að svo stöddu. Þetta er dýr útgáfa og mikil og tímafrek pródúksjón.“

Meðfram sjónlistunum er Þröstur að undirbúa útgáfu á „non-fiction“-efni enda þykir honum vanta á markaðinn íslensk fræði- og vísindarit, menningarsagnfræði og umræðubækur af ýmsu tagi um samtíma okkar.

– Viltu efna til samtals við þjóðina?

„Já, það vil ég gera og þetta er í grunninn ekkert ólíkt því sem ég var að gera með Lesbókina og Rás 1. Það voru hvor tveggja miðlar með mikla dreifingu, þannig að maður fann mjög vel fyrir áhuganum á efni sem snýr að menningu og listum, sérstaklega þegar vandað er til verka og boðið upp á spennandi efni og áhugavert fólk.“

Óbilandi trú á bókinni

Þröstur hefur óbilandi trú á bókinni sem miðli og hefur engar áhyggjur af því að hún sé að gefa eftir. „Það á ekki síst við um bækur eins og þær sem mig langar að gefa út; þær virðast alltaf ganga betur og betur. Fólk hlustar mikið á annað efni í seinni tíð en maður setur ekki bækur um sjónlistir á Storytel. Að því sögðu þá eru vísbendingar um að sala á skáldskap sé líka að aukast. Erum við ekki að tala um enn eitt metárið í útgáfu? Bókin mun lifa, á því er enginn vafi. Það er einfaldlega bara eitthvað við bókina. Það vita allir sem einhvern tíma hafa handleikið bók.“

– Hefurðu engar áhyggjur af ungu kynslóðinni í þessu sambandi?

„Það er rétt að samkeppnin um athygli fólks hefur aldrei verið meiri og upp er að koma kynslóð sem ekki les eins mikið og við gerðum. Þá þurfum við bókaútgefendur bara að bretta upp ermar og gera betur – hitta á æðina. Innihaldið er kóngurinn. Á endanum er þetta alltaf spurning um það.“

– En þetta er eftir sem áður erfiður bransi. Er ekki óðs manns æði að hella sér út í bókaútgáfu á Íslandi árið 2023?

„Það eru margir búnir að spyrja mig að þessu,“ svarar Þröstur hlæjandi. „Menn gerðu það raunar líka þegar ég tók við Lesbókinni og Rás 1. Ég er orðinn vanur því að taka að mér vonlaus störf.“

Hann hlær.

„Staðreyndin er hins vegar sú að ég hef óbilandi áhuga á þessum hlutum, menningu, myndlist, bókmenntum, og met það svo að hér sé glufa á markaðnum. Við sjáum svo bara til.“

Spurður hvað hann geri ráð fyrir að anna mikilli útgáfu á ári segir Þröstur það enn svolítið óljóst. „Ég veit það ekki nákvæmlega á þessari stundu og geri ráð fyrir að þetta ár og næsta fari svolítið í að stilla útgáfuna af. Eins og ég gat um áðan eru nokkrir hlutir í pípunum hjá mér og vonandi erum við að tala um bækur í fleirtölu á næsta ári. Markmiðið í framtíðinni er að vera með útgáfu jafnt og þétt yfir árið, ekki bara fyrir jólin, en ég veit ekki hvort það næst strax á næsta ári.“

Þá stendur í raun bara ein spurning út af, af hverju Kind?

„Ég rak í nokkur ár í rassvasanum á mér útgáfu sem hét Kind ásamt tveimur félögum mínum. Til hennar var stofnað utan um teikningar annars þeirra, Þórodds Bjarnasonar, sem vinnur sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann hefur um árabil teiknað myndir af kindum undir merkjum Réttarríkisins og meðal annars birt í Viðskiptamogganum. Við gáfum út bækur með þessu efni og líka tímaritaröðina 1005 en lögðum útgáfuna niður fyrir nokkrum árum. Mér hefur hins vegar alltaf þótt vænt um þetta nafn og ákvað því að taka það upp aftur núna. Kind er ekkert verra nafn en til dæmis Penguin, sem margir þekkja.“

Buski kinkar kolli.