Hvar ertu stödd í heiminum? Ég er í Wiesbaden í Þýskalandi og er að sýna When the Bleeding Stops, sem er sviðsverk um það að eldast og breytingaskeiðið. Viðtökurnar hér hafa verið glimrandi góðar og við höfum fengið sterk viðbrögð frá áhorfendum

Hvar ertu stödd í heiminum?

Ég er í Wiesbaden í Þýskalandi og er að sýna When the Bleeding Stops, sem er sviðsverk um það að eldast og breytingaskeiðið. Viðtökurnar hér hafa verið glimrandi góðar og við höfum fengið sterk viðbrögð frá áhorfendum. Ég býð alltaf konum á hverjum sýningarstað að taka þátt í verkinu og þær dansa með okkur á sviðinu.

Hvernig virkar það, kunna þær að dansa?

Ég er með rafræna vinnustofu með þeim áður en við mætum á staðinn. Þær dansa heima í stofu og taka svo myndbönd af sér að dansa sem ég nota í sýningunni. Ég býð þeim svo á sviðið með mér, en ég er líka með íslenska dansara með mér sem leiða þær áfram.

Þetta er þá tækifæri fyrir miðaldra konur á breytingaskeiði að láta ljós sitt skína?

Já, heldur betur!

Hvernig túlkar maður breytingaskeið í dansi?

Sjálf sýningin er marglaga. Hún byrjar á hálfgerðu uppistandi þar sem ég deili minni sögu. Sýningin þróast svo út í það að við förum að sjá myndböndin sem konurnar hafa sent, lítill gluggi inn í hversdagslíf þessara kvenna og að lokum tekur dansinn völd. Markmið mitt er að reyna að breyta aðeins viðhorfi fólks til kvenna á breytingaskeiðinu. Hingað til finnst mér umræðan hafa einskorðast við einkennin og líkamlega þáttinn, sem er mikilvægt. Það vantar hins vegar að skoða hvaða augum samfélagið lítur á þetta skeið og hvaða áhrif það hefur á konur. Ég vil fagna breytingaskeiðinu því konur á miðjum aldri eru fullar af visku, þroska og reynslu og með mikilvæga rödd sem þarf að heyrast hærra. Við verðum safaríkar þroskaðar ferskjur sem hafa sjaldan verið betri.

Ertu þá komin í útrás með verkið?

Já, það má segja það. Við vorum valdar inn á stóra danshátíð sem heitir Aerowaves fyrr á árinu og í kjölfarið var okkur boðið með sýninguna til yfir 15 Evrópuborga. Allt næsta ár verðum við því miðaldra danshópur á faraldsfæti en fyrst ætlum við að sýna eina sýningu á stóra sviði Borgarleikhússins á sunnudaginn.

Í verkinu „When the Bleeding Stops“ fjallar Lovísa Ósk Gunnarsdóttir um þögnina og skömmina sem virðist einkenna breytingaskeiðið í vestrænu samfélagi. Lovísa sýndi sýninguna fyrst fyrir tveimur árum en sýnir nú aftur í Borgarleikhúsinu á sunnudag, 19. nóvember, kl. 21. Miðar fást á tix.is.