Reikningslist gefin út árið 1841.
Reikningslist gefin út árið 1841.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir fer fram netbókauppboð á vefsíðu Gallerís Foldar og verður til 3. desember. Uppboðið er samstarfsverkefni fornbókabúðarinnar Bókin og Foldar og hægt er að skoða bækurnar í Gallerí Fold meðan á uppboðinu stendur

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Um þessar mundir fer fram netbókauppboð á vefsíðu Gallerís Foldar og verður til 3. desember. Uppboðið er samstarfsverkefni fornbókabúðarinnar Bókin og Foldar og hægt er að skoða bækurnar í Gallerí Fold meðan á uppboðinu stendur.

„Þetta er mikið magn og mikið og fjölbreytt úrval,“ segir Ari Gísli Bragason fornbókasali en ríflega 160 bækur eru boðnar upp að þessu sinni.

Meirihluti ritanna er í viðhafnarbókbandi, oft með skreytingum eða í upprunalegu bandi og hafa bókameistarar unnið flest verkanna.

Lísa í Undralandi, frumútgáfa af Dimmalimm, Litla stafabókin og Ævintýri Erlu eru meðal þeirra klassísku verka sem eru boðin upp.

Frumútgáfa af fyrstu bók Einars Benediktssonar, Sögur og ævintýri, útgefin 1897, verður í boði, en einnig eru fyrstu útgáfur af verkum Páls Ólafssonar og Matthíasar Jochumssonar meðal annars.

Áritað eintak af Kvæðakveri eftir Halldór Laxness verður einnig í boði, sem og Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson í gömlu samtíma-skinnbandi.

Sagan af Agli Skallagrímssyni, útgáfa frá 1856, verður boðin upp, auk Kórmáks sögu sem Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn gaf út árið 1852 og er það eintak óskorið.

Merkileg mappa með ljósmyndum sem tengjast Heklugosinu árið 1947 verður boðin upp, en ekki er vitað hvort mappan hafi verið gefin út í upplagi eða myndunum safnað í hana.

Ari segir meðal merkilegustu rita að sínu mati vera nokkrar eldri rímur eftir Sigurð Breiðfjörð, sem eru frá um 1850 og sumar eldri.

Hann nefnir einnig bókina Reikningslist sem kom út í Viðey árið 1841 og er í samtímabandi.