Steinunn fæst við dagbókarskrif og ljóðagerð. Hún gaf nýlega út bók með endurminningum sem hún skrifar í dagbókarformi.
Steinunn fæst við dagbókarskrif og ljóðagerð. Hún gaf nýlega út bók með endurminningum sem hún skrifar í dagbókarformi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þá fóru skrif bókarinnar líka í gang og ég öðlaðist þann styrk sem ég bý nú yfir og bókarskrifin áttu stóran hlut í. Þau kölluðu fram töluverðan sársauka við að rýna í það liðna.

Í Hveragerði býr kennarinn, nuddarinn og ljóðskáldið Steinunn P. Hafstað. Steinunn bauð blaðamanni upp á kaffi við eldhúsborðið og við ræddum bók hennar Fáeinar færslur úr dagbók kerlingar sem hún gaf út nýlega. Bókin er full af hugleiðingum um lífið; gleði og sorgum og sögum úr hversdagsleikanum. Inn á milli birtir Steinunn ljóð, en hún hefur áður gefið út tvær ljóðabækur. Steinunn er einnig glúrin að semja krossgátur, en dyggir lesendur Morgunblaðsins muna ef til vill eftir gátum hennar sem birtust hér á árum áður.

Að skrifa minningabrot

Steinunn starfaði lengi sem kennari fyrir norðan, en lærði síðan að verða jógakennari og nuddari.

„Ég bjó lengi í Svarfaðardal og var þar grunnskólakennari, nuddkona og jógakennari og það komu margir til mín sem voru yfirkeyrðir af vinnu. Ég kenndi bæði sjálfsnudd og jóga í Skagafirði og víðar á Norðurlandi,“ segir Steinunn.

„Svo varð ég fyrir því við blaðburð í Hveragerði að lenda í hvirfilstormi sem sneri mér 180 gráður sem hryggbraut mig þar sem ég hékk á trjágrein. Þá var ég búin að nudda í vel þrjátíu ár og varð að hætta því sem og að kenna. Og til að forðast að það myndi leiða mig í depurð sá ég að ég gæti allt eins hjálpað sjálfri mér með æfingum, sem smám saman réttu úr bakinu sem kominn var kúfur á. Þá fóru skrif bókarinnar líka í gang og ég öðlaðist þann styrk sem ég bý nú yfir og bókarskrifin áttu stóran hlut í. Þau kölluðu fram töluverðan sársauka við að rýna í það liðna, sem vannst hægt og rólega úr eftir að ég byrjaði á því, en vegna blankheita komst ég hvorki til sjúkraþjálfara né sálfræðings.“

Sátt við líf mitt

„Það má lesa margt milli línanna í bókinni – sumir sjá eintóma sorg í henni, aðrir gleði, en ég er mjög sátt við líf mitt,“ segir hún svo og nefnir að hún selji aðeins bókina sjálf.

„Þegar þarna var komið sögu hafði ég um 17 ára skeið verið undir leiðsögn enskrar konu sem var „shaman“, sem opnaði mér sýn inn í marga heima. Það var annasamt í sveitinni í Svarfaðardal en þar bjó fjölskyldan með fjórum börnum í búi sínu með kindur og hross í rúm tuttugu ár. Þar fyrir utan voru hjá okkur sumarbörn, þannig að stundum voru átta börn alls yfir hásumarið. Reyndar passaði ég aldrei inn í samfélagið þarna, eignaðist fáa vini en hafði svo sem ekki mikinn tíma, enda aldrei pása. Lífið var svona á bæjunum; bóndakonur voru ekki mikið að fara af bæ,“ segir hún.

„Sveitakonur voru ekkert að tala um raunir sínar.“

Heila viku með krossgátu

Í bókinni sem og í titli hennar kallar Steinunn sig kerlingu.

„Það kom þannig til að ég var stödd í búð þar sem kassadrengurinn talaði svo hratt og óskýrt að ég varð að biðja hann að tala hægar og skýrar af því ég væri bara hálfheyrnarlaus kerling,“ segir Steinunn og brosir.

„Ég er bara kerlingin og það er allt í lagi.“

Talið berst að krossgátunum góðu. Það tók heila viku að ljúka hverri þeirra, en þær birtust ársfjórðungslega í rúm átta ár í Morgunblaðinu.

„Ég tengdi ég þær himintunglunum, en þær birtust í kringum vorjafndægur, sumarsólstöður, haustjafndægur og vetrarsólhvörf,“ segir Steinunn.

„Þessi skrif byrjuðu þegar við maðurinn bjuggum vetrarlangt í Þýskalandi. Hann við nám, en ég fékk hvergi vinnu af því að ég var ófrísk og var því að mestu ein heima allan daginn og tók stundum á móti honum með einni krossgátu sem ég hafði samið. Svo vatt það upp á sig og ég skrifaði fyrir Bændablaðið, sem þá var að hefja göngu sína, og í mörg ár fyrir Húsfreyjuna að auki,“ segir Steinunn og samdi svo lengi vel fyrir Morgunblaðið eins og fyrr segir.

„Ég sat yfir þessu kannski í heila viku að klára eina gátu. Lausnin var stundum meira en ein setning; jafnvel tvær eða þrjár ferskeytlur. Það höfðu margir gaman af þessu.“

Drungi

Faðmlag, gleði, frelsi, sorg

finnst af ýmsum toga

Úti í sveit og inni í borg

engjumst við í loga.

Innilokun, einsemd, kul

ævin jafnt í rýnir

Fæstir yfir draga dul

þær drungalegu sýnir.

Birtir upp og mildin mæt

miðlar hlýju sinni.

Bindur stuðlum ljóð sem læt

liggja í kirnu þinni.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir