Karl Guðmundur Friðriksson
Karl Guðmundur Friðriksson
Nýverið lauk 50 ára afmælisráðstefnu Alþjóðasambands framtíðarfræðinga. Ljóst er að framtíðarfræðin hafa fengið aukið vægi að undanförnu.

Karl Guðmundur Friðriksson

Dagana 25. til 27. október sl. var haldin 50 ára afmælisráðstefna Alþjóðasambands framtíðarfræða, World Futures Studies Federation WFSF, í París. Frá stofnun sambandsins, árið 1973, hefur það staðið fyrir faglegri umræðu um grunnatriði framtíðarfræða.

Víðtækt samstarfsnet

Alþjóðasamband framtíðarfræða er samráðsaðili UNESCO og Sameinuðu þjóðanna, auk annarra alþjóðlegra félagasamtaka á alþjóðavísu. Meðlimir sambandsins eru frá vel yfir 60 þjóðríkjum. Þeir koma frá félagasamtökum, háskólum, fyrirtækjum og stofnunum sem starfa faglega að ólíkum þáttum framtíðarfræða. Framtíðarsetur Íslands er formlegur aðili að sambandinu.

Áherslur ráðstefnunnar

Ógrynni fyrirlestra og vinnustofa var á ráðstefnudögunum, jafnframt var hægt að sækja ólíkar vinnustofur á öðrum dögum vikunnar. Í tilefni afmælis sambandsins var margt gert til að endurspegla síðastliðin 50 ár, auk þess sem rýnt var í hugsanlegar áskoranir næstu ára. Sem dæmi um efnistök þá stóðum við nokkrir framtíðarfræðingar Norðurlandanna að vinnustofu um framtíðarþróun lýðræðis. Þar var farið yfir þróun lýðræðis og áskoranir síðastliðin 50 ár og þær speglaðar í þeirri þróun sem fram undan er. Þessi vinna mun síðan halda áfram á ráðstefnu sem verður haldin hér á landi dagana 21.-23. febrúar 2024, um framtíðarþróun lýðræðis. Að þeirri ráðstefnu standa framtíðarfræðingar frá öllum Norðurlandaþjóðunum, en Framtíðarsetur Íslands er meginskipuleggjandi ráðstefnunnar. Sjá heimasíðu setursins, www.framtidarsetur.is.

Það er enginn vegur að gera grein fyrir straumum og stefnum sem fram koma á svona víðtækri ráðstefnu. Upplagt er að kynna sér efni og starfsemi sambandsins á vef þess, www.wfsf.org.

Framtíðir: suðorð eða fagorð?

Það fer ekki á milli mála að framtíðin hefur fengið æ ríkari sess í umræðunni en áður. Framtíðaráskoranir svo sem græn umskipti, loftslagsvá, ofurgervigreind, framþróun á sviði líf-, efna- og erfðatækni og alþjóðleg átök eru ofarlega í huga stjórnmálamanna, hagsmunaaðila og almennings. Þessar áherslur í umræðunni eru til góðs, þar sem við tökum sífellt á móti nýjum tímum enn hraðar en við höfum gert áður. Áskoranirnar eru flóknari en áður og geta þróast í vá ef þær eru hunsaðar en geta orðið tækifæri og uppspretta nýsköpunar ef hugað er að þeim í tæka tíð.

Framangreindar áskoranir hafa verið til umfjöllunar á vegum samtaka framtíðarfræðinga lengi. Bent hefur verið á að framtíðin geti tekið á sig ólíkar myndir, framtíðir eða sviðsmyndir og ólíkir aðilar þurfi að taka mið af þeim við mótun stefnu og viðbragða. Stefna og viðbragð gagnvart einni sviðsmynd eða framtíðarsýn er til lítils ef hún raungerist ekki. Segja má að framtíðarfræðin nálgist viðfangsefni sín í fleirtölumynd og að framtíðir séu hugsanlegar, mögulegar eða þróun sem mun verða. Það er að segja línuleg þróun og svo framtíð sem talið er að geti ekki átt sér stað en sagan segir að gerist stundum, öllum að óvörum. Framtíðarfræðin leggja áherslu á faglegar greiningar og aðferðir þannig að fagleg vinna svari sem best lykilatriðum út frá hagsmunum stjórnvalda, stofnana eða fyrirtækja.

Staða fræðigreinarinnar?

Framtíðarfræði, með rætur í félagsfræði, var orðin akademísk fræðigrein um 1960. Erlendis er hún kennd í grunn- og framhaldsnámi í háskólum. Hér á landi hefur greinin fengið litla umfjöllun þrátt fyrir að ein aðferð hennar, sviðsmyndagreining, hafi fengið góðar móttökur og sé í dag nýtt á mörgum sviðum samfélagsins. Sviðsmyndagreining var kynnt hér á landi árið 2005. Síðar var gefin út bók til að styðja við innleiðinguna árið 2007: Framtíðin. Frá óvissu til árangurs. Notkun sviðsmynda við stefnumótun. Bókina má nálgast gjaldfrjálst á vef Framtíðarseturs Íslands.

Segja má að málvitund hafi verið fyrsta hindrun í innleiðingu greinarinnar þar sem fullyrt var að fleirtölumynd af orðinu framtíð, framtíðir, væri ekki íslenska. Þeirri hindrun var rutt úr vegi en aðrar fyrirfinnast enn. Það hefur orðið þess valdandi að háskólasamfélagið hefur ekki tekið greininni snurðulaust að Háskólanum á Bifröst undanskildum.

Framtíðarfræði leggur áherslu á ímyndunarafl og sköpunargáfu við að skapa ólíkar framtíðir. Rannsóknir á framtíðinni hafa færst frá því að spá um framtíðina yfir í að greina og kortleggja framtíðir, svo hægt sé að ná eða móta þá æskilegu framtíð sem sóst er eftir.

Tengslanet Norðurlanda

Á öllum Norðurlöndunum eru félagasamtök, háskólar og stofnanir sem sinna framtíðarfræðum. Finnland sker sig samt frá öðrum Norðurlandaþjóðum á þessu sviði. Þar er háskólasamfélagið meðvitað um mikilvægi greinarinnar, en jafnframt eru aðrir sterkir innviðir sem móta finnskt samfélag á þessu sviði. Finnar voru fjölmennir á ráðstefnunni í París þar sem kynnt voru rannsóknarverkefni sem unnið er að.

Með ráðstefnunni sem verður á Íslandi næstkomandi febrúar verður tækifæri til að móta sterkt tengslanet Norðurlanda á sviði framtíðarfræða. Það er liður í að gera Norðurlöndin enn sterkari en ella við að móta æskilega framtíð á grundvelli lýðræðis og borgaralegra réttinda.

Höfundur er forstöðumaður Framtíðarseturs Íslands.