Vigfús Ægir Vigfússon
Vigfús Ægir Vigfússon
Góð þjálfun, þekking og geta til að veita slösuðu fólki fyrstu hjálp á vettvangi hefur verið áherslumál í öllu starfi björgunarsveitarinnar Oks sem starfar í uppsveitum Borgarfjarðar. Vigfús Ægir Vigfússon, formaður sveitarinnar, segir skrifað inn í …

Góð þjálfun, þekking og geta til að veita slösuðu fólki fyrstu hjálp á vettvangi hefur verið áherslumál í öllu starfi björgunarsveitarinnar Oks sem starfar í uppsveitum Borgarfjarðar. Vigfús Ægir Vigfússon, formaður sveitarinnar, segir skrifað inn í þá ferla sem sveitin starfar eftir að geta komið til aðstoðar í umferðarslysum, hvort heldur er í byggð eða á nærliggjandi fjallvegum svo sem á Kaldadal og Arnarvatnsheiði. Þarna háttar svo til að lögregla og sjúkralið geta verið lengi á staðinn vegna fjarlægðar frá byggð eða torfarinna vega. Því verður björgunarsveit að vera í stakk búin til að bregðast skjótt og vel við.

„Árið 2018 varð rútuslys hér í sveitinni, þar sem rúta með stórum hópi krakka í skólaferðalagi valt. Fyrsta tilkynning sem barst hljómaði illa, en þetta fór blessunarlega ekki eins illa og hljómaði í fyrstu. Við kunnum að bregðast við og höfum lagt mikið upp úr þjálfun á okkar mannskap,“ segir Vigfús. „Allir okkar félagsmenn eiga greiðan aðgang að námskeiðum hjá björgunarskóla Landsbjargar. Björgunarskólinn er með mjög ítarleg námskeið í fyrstu hjálp þar sem farið er yfir algengustu áverka í slysum og hvernig skuli brugðist við. Þarna get ég nefnt beinbrot, höfuðáverka og blæðingar.“

Alls eru 45 á útkallslista Oks, en hægt er að kalla út stærri hóp ef verkefnin eru mjög krefjandi. Þá er sveitin vel tækjum búin, meðal annars með stóran Nissan Patrol-jeppa sem hægt er breyta í sjúkrabíl með fáum handtökum.

„Auðvitað er slæmt að heyra frásagnir um að fólk jafnvel aki fram hjá slysum án þess að veita hjálp eða sýna viðleitni til slíks. Þarna þarf hugarfarsbreytingu. En ég veit líka vel að fólk getur veigrað sér við að koma að umferðarslysi, slíkt reynir á alla; almenning, björgunarsveitarmenn og sjúkralið. Þetta eru óþægilegar aðstæður en yfirleitt ekki óyfirstíganlegar. Því skiptir öllu máli að fólk veiti aðstoð. Símtal til Neyðarlínu, skjól eða hughreystandi orð geta skipt öllu fyrir þau sem eiga í hlut,“ segir Vigfús Ægir að síðustu.