Kristján Baldursson
Kristján Baldursson
… þegar við sjáum að við erum öll samtengd og hegðun okkar hefur áhrif á allan heiminn.

Kristján Baldursson

Virtur amerískur umhverfislögmaður og vísindamaður, James Gustav Speth, f. 1942, sagði að það sem hann hefði talið helstu og mestu umhverfisvandamál heims eftir 30 ára vísindastarf væri tap á líffræðilegum fjölbreytileika, hrun vistkerfa og loftslagsváin. „En ég hafði rangt fyrir mér,“ sagði hann, „því helsta og mesta umhverfisvandamál heimsins er sjálfselska, græðgi og afskiptaleysi mannsins.“

Vísindin væru ekki fær um að takast á við þetta vandamál. Því þyrfti menningarlega og siðferðislega hugarfarsbreytingu til að snúa þróuninni við.

Ég held að þetta sé mergur málsins. Vísindin geta mælt og rannsakað afleiðingar sem hlotnast af hruni vistkerfa og loftslagshlýnun en finna ekki ráð við að hefta þróunina því að hún á sér svo djúpar rætur, fyrst og fremst í viðhorfum mannsins til náttúrunnar. Maðurinn lítur á sig sem drottnara yfir náttúrunni en ekki hluta af henni og manninum sé allt leyfilegt. Það er gengið hart á auðlindir jarðarinnar á ósjálfbæran hátt.

Búddísku fræðin tengja manninn meira við náttúruna en kristindómurinn. Kristindómurinn leggur áherslu á að guð sé á himnum og maðurinn frelsist fyrir náð. Með öðrum orðum að maðurinn sé aðskilinn frá guði. En samkvæmt búddisma er allt ein heild, guð er í náttúrunni sem og öllu lífi.

Skoðum betur þessi þrjú atriði sem James Gustav Speth nefnir sem helsta umhverfisvandamálið, þ.e. sjálfselsku, græðgi og afskiptaleysi. Hvernig getur sjálfselska verið umhverfisvandamál? Ein hlið á þessu er hversu sjálfhverf við erum t.d. varðandi notkun á ýmsum vélum og tækjum sem eiga að gera lífið þægilegra, en útblástur vegna þeirra skerðir lífsgæði til lengri tíma. Einkaneysla er í eðli sínu sjálfselska; að átta sig ekki á afleiðingum eigin neysluhyggju á lífskjör annarra lífvera.

Svo nefnir hann græðgina. Þennan löst sem meira og minna allir eiga við að stríða. Það virðist rótgróin græðgi í flestu fólki og lýsir sér í endalausri söfnunaráráttu. Að sanka til sín hlutum, peningum, upplifunum eða öðrum veraldlegum gæðum. Og eftir því sem efnahagurinn vex verður söfnunin stórtækari. Svo nefnir hann þriðja atriðið; afskiptaleysi. Hvernig getur afskiptaleysi verið umhverfisvandamál? Jú ef við skiptum okkur ekki af því sem við sjáum fara úrskeiðis, gerum ekkert í því og berum ekki ábyrgð á okkur sjálfum og gerðum okkar, þá erum við sjálf alvarlegt umhverfisvandamál. Afskiptaleysið felst í því að loka augunum fyrir því ástandi sem ríkir í kringum okkur í loftslagsmálum.

Af þessu má draga þá ályktun að ekkert muni breytast í umhverfismálum fyrr en allsherjarhugarfarsbreyting verður meðal fólks. Að við lærum að bera virðingu fyrir náttúrunni og fyrir lífinu þegar við sjáum að við erum öll samtengd og hegðun okkar hefur áhrif á allan heiminn.

Höfundur er tæknifræðingur og eldri borgari.

Höf.: Kristján Baldursson