John F. og Jacqueline Kennedy á skírnardegi sonar þeirra, Johns yngri, í desember 1960.
John F. og Jacqueline Kennedy á skírnardegi sonar þeirra, Johns yngri, í desember 1960.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er mikill sorgaratburður en við vonum að píslarvætti hans verði til styrktar baráttu hans fyrir friði og jafnræði.

Sá hörmulegi atburður gerðist í Bandaríkjunum í gær, að John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, var skotinn til bana í borginni Dallas í Texasríki.“

Með þessum orðum hófst forsíðufrétt Morgunblaðsins laugardaginn 23. nóvember 1963. Aðeins var eitt mál á forsíðunni enda strax ljóst að um sögulegan atburð væri að ræða. Næsti Bandaríkjaforseti á undan sem var myrtur var William McKinley árið 1901.

Fyrstu áreiðanlegu fréttirnar sem Morgunblaðinu bárust um morðið komu frá AP-fréttastofunni um sexleytið síðdegis föstudaginn 22. nóvember eftir íslenskum tíma. Í fréttaskeytinu stóð: „Kennedy forseti og Connally frá Texas voru skotnir úr launsátri á föstudag. Ekki er vitað hvort þeir hlutu af bana.“

Nokkru síðar skýrði fréttastofan frá því að forseti Bandaríkjanna væri látinn. Orðrétt stóð í fréttaskeytinu: „Kennedy hlaut augsýnilega skot í höfuðið. Hann féll fram á andlitið í aftursæti bifreiðar sinnar, blóð var á höfði hans. Frú Kennedy hrópaði „Ó, nei“, og reyndi að lyfta höfði hans.“

Fyrir ofan fréttina var fimm dálka símamynd frá AP. Undir henni stóð: „Óþekktur maður (sennilega öryggisvörður) stekkur upp á bifreið Kennedys, forseta, augnabliki eftir, að hann hefur orðið fyrir skoti árásarmannsins. Jacqueline Kennedy greip um höfuð manns síns. Hún beygir sig yfir hann, er myndin var tekin.“

Fyrst um sinn var erfitt að fá nánari fréttir af víginu en smám saman púslaðist saman heildstæð mynd og blaðamenn Morgunblaðsins vöktuðu málið fram á nótt. „Í fréttastofufregnum í nótt er frá því skýrt, að augljóst sé að morðið á Kennedy hafi verið mjög vel skipulagt,“ stóð í forsíðufréttinni. „Nokkrir menn hafa verið handteknir og mun grunur leika á því að einn þeirra, Lee Harvey Oswald, hafi átt þátt í morðinu. Hann er Bandaríkjamaður, giftur rússneskri konu. Hefur hann skýrt frá því, að hann hafi fyrir fjórum árum beðið um rússneskan ríkisborgararétt. Ekki hefur Oswald viljað viðurkenna, að hann hafi átt neinn þátt í ódæðinu.“

Fram kom að vitni sögðust hafa heyrt þrjú skot. Tvö þeirra munu hafa hæft forsetann, annað í höfuðið, hitt í hálsinn. Þriðja skotið særði John B. Connally, ríkisstjóra í Texas, hættulega, en hann sat í bíl forsetans. „Áhorfendur urðu þrumu lostnir, þegar þeir sáu hvað gerzt hafði. Sumir leituðu skjóls í örvílnan, enda óttuðust þeir meiri skothríð. Jack Bell, fréttamaður AP, lýsir því þegar hann sá forsetann í bílnum fyrir utan inngang spítalans, þar sem hann lézt nokkru síðar. Segir fréttamaðurinn, að hann hafi legið hreyfingarlaus í aftursæti bifreiðarinnar, en ekki hefði sézt blóð á fötum hans. Aftur á móti var blóðpollur á bílgólfinu.“

Á fyrstu opnunni inni í blaðinu var atburðarásinni lýst í ítarlegra máli. Þar sagði meðal annars: „Ljóst er, að forsetinn komst aldrei til meðvitundar eftir kl. 17.25 [að íslenskum tíma], er skotið hæfði hann. Kl. 18.00, aðeins 35 mínútum síðar, var hann liðinn. Þá þegar hafði honum verið gefið blóð, en allt kom fyrir ekki, enda skotsárið þess eðlis. Mun kúlan hafa farið þvert gegnum höfuð hans.“

Haft var eftir sjónarvottum að skotið hefði verið úr glugga byggingar nokkurrar, við vegamót, sem forsetinn átti rétt ófarið um. Að vanda ferðaðist Kennedy í opnum bíl. Mun sæti hans hafa verið hækkað, svo að mannfjöldinn gæti betur til hans séð. Lögreglan skýrði síðar frá því, að í húsi því sem morðinginn hafðist við í hefðu fundist leifar af kjúklingi og annað sem benti til þess, að komu Kennedys hefði verið beðið, með það fyrir augum að ráða hann af dögum.

Umfjöllun um morðið inni í Morgunblaðinu var mjög vegleg, sérstaklega í ljósi þess að fréttin barst ekki fyrr en á sjöunda tímanum um kvöldið. Baksíðan var líka að mestu helguð ódæðinu en þar birtist hin fræga ljósmynd af Lyndon B. Johnson að sverja embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna, með ekkju Kennedys, Jacqueline, blóðuga sér við hlið. „Angist hennar má greinilega sjá á svip hennar,“ stóð í myndatexta.

„Harmur um heim allan“ var fyrirsögnin á baksíðunni og undirfyrirsögnin: „Æðstu þjóðhöfðingjar og fólkið á götunni lætur í ljós hrygð sína og samúð.“ Þar var vitnað í Pál páfa VI, Friðrik Danakonung, Elísabetu Englandsdrottningu, sir Winston Churchill, Charles de Gaulle og fleiri.

Spáin rættist

Á blaðsíðu 2 mátti svo lesa um viðbrögð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands, Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Emils Jónssonar utanríkisráðherra.

„Þetta er hræðileg fregn,“ sagði Ásgeir. „Ungur og þróttmikill forseti, sem átti við marga erfiðleika að stríða, er myrtur. Hann barðist fyrir jafnrétti og sáttum milli þjóða og kynþátta, og miklar vonir voru bundnar við hann og hans starf. Þetta er mikill sorgaratburður en við vonum að píslarvætti hans verði til styrktar baráttu hans fyrir friði og jafnræði.“

Bjarni tók í svipaðan streng: „Allir vita, að trú Kennedys hafði næstum því kostað hann forsetadæmið. Til þess var hann samt kjörinn og hefur gegnt því með þeim ágætum, sem lengi munu í minni höfð. Morð hans sýnir, að öllum líkaði ekki jafnvel við hann. En þó mun hann hljóta mesta frægð af því, sem sennilega hefur kostað hann lífið, baráttunni fyrir jafnrétti svartra manna og hvítra.“

Á sömu blaðsíðu var fréttaskýring undir fyrirsögninni „Spáin rættist“. Þar kom fram að margir hefðu spáð því að Kennedy myndi látast í embætti. Var þessi kenning byggð á þeirri einkennilegu staðreynd að frá 1840 höfðu allir forsetar kosnir á 20 ára fresti andast í embætti, þrír þeirra myrtir.

Forsetarnir voru þessir: Harrison (kosinn 1840), Lincoln (1860), Garfield (1880), McKinley (1900), Harding (1920) og Franklin D. Roosevelt (kosinn 1940 í þriðja sinn).

Ronald Reagan var kosinn 1980 og minnstu munaði að hann týndi lífi í morðtilræði 1981. Hann lifði þó af og þar með virðist þessi vítahringur hafa verið rofinn. George Bush yngri (kosinn 2000) er enn á lífi, eins Joe Biden (kosinn 2020), þótt hans embættistíð sé auðvitað ekki lokið.

Inni í Morgunblaðinu var heilsíðuumfjöllun og ævi og störf Kennedys. Þar sagði meðal annars: „Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis“ (Sálmar Davíðs, 127, 1), voru niðurlagsorð ræðu Kennedys Bandaríkjaforseta, sem hann hugðist flytja í Dallas í gær. – Boðskapurinn í þessari ræðu hins unga forseta átti að vera sá að Bandaríkin hefðu aldrei verið öflugri en einmitt nú, en hann hugðist jafnframt fullvissa landsmenn sína um að máttur þeirra yrði aldrei notaður til annars en að efla friðinn í heiminum. En forsetanum entist ekki líf til þess að flytja þennan boðskap.“

Einnig var fjallað með ítarlegum hætti um Lyndon B. Johnson sem heimsótt hafði Ísland aðeins rúmum tveimur mánuðum áður. „„Þetta er heimsókn, sem ég hef lengi hlakkað til. Við í Bandaríkjunum fræðumst þegar á unga aldri um hinn mikla landkönnuð ykkar, Leif Eiríksson. Um leið og við fræðumst um sögu hans sköpum við okkur og varðveitum um langa ævi mynd af Íslendingum sem harðgerðum fullhugum, er byggja land sem þjóðsögublær hvílir yfir,“ sagði Johnson við það tækifæri.

Leiðari Morgunblaðsins var að sjálfsögðu helgaður Kennedy. „Allur heimurinn er í dag harmi lostinn yfir falli John F. Kennedys mitt í örlagaríku starfi og baráttu, ekki aðeins í þágu bandarísku þjóðarinnar, heldur og í þjónustu alheimsfriðar og uppbyggingar í heiminum. […] En merkið stendur þótt maðurinn falli. Baráttan fyrir frelsi og mannhelgi, kynþáttajafnrétti og alheimsfriði heldur áfram. Með því að heyja þá baráttu af heilum hug minnast þjóðir hins frjálsa heims bezt hinnar föllnu frelsishetju.“

Var morðið samsæri?

Flestir þekkja framhaldið. Lee Harvey Oswald var handtekinn fyrir morðið á Kennedy og lögreglumanninum J.D. Tippit, sem hann var grunaður um að hafa skotið til bana skömmu síðar. Aldrei tókst þó að draga hann fyrir dóm en klúbbeigandinn Jack Ruby skaut Oswald meðan hann var fluttur milli staða af lögreglunni í Dallas tveimur dögum síðar. Fjöldi fólks horfði á þann atburð í beinni útsendingu sjónvarps. Oswald lést af sárum sínum á Parkland Memorial-sjúkrahúsinu skömmu síðar. Á sama stað og Kennedy.

Eftir tíu mánaða rannsókn komst Warren-nefndin svokallaða að þeirri niðurstöðu að Oswald hefði banað forsetanum og að hann hefði ekki átt sér vitorðsmann eða -menn. Fjórum árum síðar var athafnamaðurinn Clay Shaw ákærður fyrir aðild að morðinu en var sýknaður. Fleiri rannsóknarnefndir, svo sem Rockefeller-nefndin og Church-nefndin, komust síðar að sömu niðurstöðu og Warren-nefndin.

Árið 1978 var ný nefnd sett á laggirnar, United States House Select Committee on Assassinations, til að rannsaka morðið á Kennedy og Martin Luther King fimm árum síðar. Niðurstaða hennar var sú að morðið á Kennedy hefði líklega verið samsæri og að sterkar líkur væru á því að skytturnar hefðu verið tvær. Nefndin tilgreindi þó engin nöfn í því sambandi.

Sú niðurstaða léði alls kyns samsæriskenningum vængi og ekki sér fyrir endann á þeirri umræðu. Nema síður sé. Engum hefur þó enn tekist að sýna fram á með óyggjandi hætti að Lee Harvey Oswald hafi ekki verið einn að verki. Þar við situr.