Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Frumvarp um tímabundinn stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavík var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Í tilkynningu á vef…

Frumvarp um tímabundinn stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavík var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að frumvarpið taki til starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem ekki geti mætt til vinnu vegna þess að starfsstöð þess er í Grindavíkurbæ og sé markmiðið að vernda afkomu þeirra með því að tryggja laun upp að ákveðnu hámarki. Þá sé einnig markmiðið að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks þannig að sem flest þeirra sem vinna í Grindavík haldi störfum sínum.

Í frumvarpinu sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra leggur fram er gert ráð fyrir að ríkið greiði fjárhæð að ákveðnu hámarki sem gangi upp í laun starfsfólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga og að stuðningur ríkisins geti numið allt að 633 þúsund krónum á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð, sömu hámarksfjárhæð og Ábyrgðasjóður launa greiðir.

Gert er ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sjái um greiðslurnar. Verði frumvarpið að lögum muni það gilda frá og með 11. nóvember sl. og út febrúar á næsta ári. Gerð verði nánari grein fyrir framkvæmdinni á vef Vinnumálastofnunar á næstu dögum.

Fyrir liggur að ríki og Grindavíkurbær munu áfram greiða starfsfólki sínu í Grindavík laun, þannig að þessari ráðstöfun er einungis ætlað að gilda um stuðning til greiðslu launa vegna starfsfólks á almennum vinnumarkaði.

Þá kemur fram í tilkynningunni að ef fyrirtæki sem fengið hafi þann stuðning sem hér um ræðir ákveði að greiða eigendum sínum út arð fyrir lok febrúar 2025, beri þeim að endurgreiða stuðning ríkisins áður en til arðgreiðslna kemur.