Ég myndi alveg þiggja að vera ekki mikið í sviðsljósinu. Mér myndi líða alveg ágætlega að vera bara ráðgjafi á bak við tjöldin.
Ég myndi alveg þiggja að vera ekki mikið í sviðsljósinu. Mér myndi líða alveg ágætlega að vera bara ráðgjafi á bak við tjöldin. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrettán ára gamall stóð ég á dekkinu, stundum sextán tíma á dag. Fjórum mánuðum seinna kom ég af sjónum og var orðinn að manni. Þetta var lífsreynsla sem breytti mér.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er einn þeirra vísindamanna sem hafa verið hvað mest áberandi þegar kemur að því að túlka jarðhræringar við Grindavík. Hann hefur vakið athygli fyrir að tala hreint út um stöðuna hverju sinni.

Þorvaldur er 65 ára gamall, fæddur í Reykjavík. „Ég átti heima á Bollagötu fyrstu átta árin. Norðurmýrin er stórkostlegt svæði og þetta var góður tími. Við fjölskyldan bjuggum í kjallaranum hjá móðurafa og -ömmu en fluttum síðan í Garðabæ og þar ólst ég upp frá níu ára aldri.“

Vissirðu snemma hvað þú ætlaðir þér að verða?

„Nei, ég gældi að vísu við hugmyndir um að verða atvinnumaður í fótbolta, en var ekki nægilega góður. Þegar ég var krakki sagði mamma alltaf: Þú verður jarðfræðingur. Ég var alltaf með steina í vasanum sem ég valdi sérstaklega, bæði fjörusteina og hraungrjót en vissi varla hvað jarðfræðingur var. Ég hafði alltaf gaman af vísindum og fékk þá hugdettu að verða stjörnufræðingur, en þegar ég eltist áttaði ég mig á því að þá fengi ég sennilega enga vinnu á Íslandi.

Eftir menntaskólann tók ég mér frí frá námi í eitt ár og fór að kenna á Selfossi. Ég hef sinnt mörgum störfum en þetta var það langerfiðasta, en mjög skemmtilegt og gekk vel. Þarna varð ég líka fyrsti handboltaþjálfari Selfyssinga.

Ég fór síðan í eðlisfræði í háskólanum. Ég var líka að spila fótbolta og eitt sinn þegar ég var að hlaupa niður stiga missteig ég mig og sleit liðbönd í ökkla. Ég var settur í gifsi og var á hækjum og um leið fækkaði eðlisfræðitímunum sem ég fór í og námsárangurinn varð eftir því. Sú tilraun lognaðist því út af. Ég varð forfallakennari í Borgarnesi og hafði gaman af því. Haustið eftir fór ég í jarðfræði eftir að hafa íhugað að fara aftur í eðlisfræði eða læra jafnvel efnafræði, lífefnafræði eða líffræði. Mig langaði að vera úti við og sá að það voru fleiri vettvangsferðir í jarðfræðinni heldur en líffræðinni þannig að ég valdi jarðfræðina. Í jarðfræðinni opnaðist fyrir mér nýr og gríðarlega skemmtilegur heimur.“

Ævintýri í útlöndum

Þorvaldur lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 1984 og eftir tvö ár í járnabindingum við flugstöðina í Keflavík fór hann í framhaldsnám árið 1986 í Texas-háskólann í Arlington í Bandaríkjunum og fékk síðan doktorsgráðu í eldfjallafræði frá háskólanum á Havaí í Manoahverfi Honolulu. Við tók viðburðaríkur tími erlendis.

„Þegar ég var búinn með doktorsgráðuna á Havaí vann ég í tvö ár á GNS-rannsóknarstofnuninni á Nýja-Sjálandi að rannsóknum á Hvítueyju, White Island, sem er eldfjallaeyja. Annað eldfjall, Mt. Ruapehu, á Nýja-Sjálandi byrjaði að gjósa árið 1995 og stærsta gosið varð 17. júní 1996. Ég var í þyrlu yfir eldfjallinu þegar það gerðist. Það er ekki oft sem maður sér gos hefjast og það var magnað að horfa á þetta. Ég var hálfgerður gutti en var þarna í aðgerðastjórninni og í beinu sambandi við þáverandi umhverfismálaráðherra Nýja-Sjálands. Þetta var mikil lífsreynsla og þarna lærði ég hvernig á að bregðast við atburðum eins og þessum.

Eftir tvö ár var mér boðið starf við CSIRO-rannsóknarstofnunina í Perth í Ástralíu. Á Nýja-Sjálandi hafði ég verið að vinna í yngsta gosbergi jarðar og fór nú til Ástralíu að rannsaka gosberg sem er 2.700 til 3.000 milljóna ára gamalt og ein af elstu bergmyndum jarðar. Ég vann þarna við rannsóknir á hraunum og var að þróa aðferðir til að finna nikkel í jörðinni. Þarna var ég í sex ár en fór síðan aftur til Havaí og var þar til 2007 og dvaldi einnig að hluta til hér á Íslandi. Á þessum tíma fór ég í leiðangra með International Ocean Drilling Program og við boruðum í úthafið, í sokkin eldfjöll, rétt utan við strendur Kamtsjatka þar sem þrír rússneskir kafbátar fylgdust vandlega með okkur í mánuð. Þetta var mjög spennandi leiðangur og mikilvægur að því leyti að þarna áttuðu menn sig á því í fyrsta skipti að möttulstrókar eru ekki staðbundnir, þeir færa sig og með tímanum breyta þeir um stöðu og legu. Þetta breytti hugmyndum manna um það hvernig jörðin virkar.

Ég fór líka til Suðurskautslandsins í rannsóknarleiðangur með félögum og kollegum úr Otago-háskólanum á Nýja-Sjálandi og við skoðuðum aðfærslukerfi stórra flæði-basaltgosa, sem er eitt af mínum sérsviðum í rannsóknum.

Eftir öll þessi ævintýri fékk ég stöðu í Edinborgarháskóla og var þar frá 2007-2013. Þá flutti ég til Íslands og tók við prófessorsstöðu við Háskóla Íslands.“

Þorvaldur heldur tengslum við Havaí og fer þangað reglulega, en kona hans, Carol Whitney, sem er bandarísk, býr þar. „Við erum í fjarbúð en ég reyni að eyða tíma þar. Þetta gengur upp hjá okkur, auðvitað vildum við vera meira saman og það mun koma að því,“ segir Þorvaldur. Hann á son frá fyrra hjónabandi og tvær afastelpur sem búa í Svíþjóð.

Spurður um Havaí segir hann: „Havaí er frábær staður og veðurfarslega uppáhaldsstaðurinn minn. Menningin þar er mjög vinaleg og maður er samstundis tekinn inn í samfélagið. Auðvitað er keppni þar eins og annars staðar en það er ekki gert upp á milli kynþátta. Þetta er bræðslupottur, bæði hvað varðar þjóðerni og menningu. Allir fagna jólunum og sömuleiðis kínverska nýárinu. Það að maður hafi annan menningarlegan uppruna og bakgrunn er flokkað sem gott, ekki slæmt, og talið bera vott um fjölbreytni.“

Þrettán ára á sjónum

Þorvaldur er vísindamaður sem er óhræddur við að segja hlutina beint út, eins og glöggt hefur komið fram í viðtölum við hann vegna jarðhræringa í Grindavík.

Sumum finnst þú tala of tæpitungulaust, þú hlýtur að hafa orðið var við að það fer í taugarnar á sumum kollegum þínum?

„Já, ég hef vitað það lengi. Mér finnst alltaf langbest að tala beint út og segja mína meiningu. Ég þoli alveg að aðrir segi sína meiningu á móti. Ég vil hafa hlutina uppi á borðum og horfa á þá eins og þeir eru. Kannski er það út af bakgrunni mínum. Ég var bara krakki þegar ég fór fyrst á sjóinn, nýorðinn þrettán ára. Ég lærði vinnubrögð fyrst og fremst á sjónum hjá afa og einnig hvernig best er að taka á hlutum. Ég vann með hörkukörlum, sem ekki allir urðu gæfumenn, en voru virkilega flottir karlar sem pössuðu upp á mig. Þrettán ára gamall stóð ég á dekkinu, stundum sextán tíma á dag. Fjórum mánuðum seinna kom ég af sjónum og var orðinn að manni. Þetta var lífsreynsla sem breytti mér.“

Hafa kollegarnir samband og skammað þig fyrir eitthvað sem þú hefur sagt í fjölmiðlum?

„Já, já. Sumir taka það sem ég segi til sín. Stundum lesa menn líka annað í orðin en sagt er. Ég tala ekki í neinum dulkóða heldur segi hlutina beint út. Menn mega svo alveg vera mér ósammála.“

Tekurðu gagnrýni ekki inn á þig?

„Að einhverju leyti en hún truflar mig ekki mikið. Ef ég er of harðorður þá er ég fyrstur til að biðjast afsökunar á því, af því að það er ekki meining mín. Maður áttar sig ekki alltaf á því hvernig maður segir hlutina.“

Þú sagðir fyrr á þessu ári að það væri ekki skynsamlegt að byggja lengra í suðurátt á Völlunum í Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri tók þessum orðum mjög illa og sagði að svona tal væri óábyrgt. Hvað segir þú um þau viðbrögð?

„Ég held að hennar viðbrögð séu óábyrg. Ég þekki eldgosasöguna þarna og veit hver hættan er. Það er vitað að það getur gosið aftur. Það er enginn að segja að það komi eldgos og allt leggist í eyði á Völlunum, en það segir sig sjálft að því nær sem þú ert gígunum þar sem eldar geta komið upp því meiri er hættan. Ef ég byggi á eldfjalli þá kemur að því að það gýs í gegnum húsið hjá mér.

Það sem ég var að benda á er að það er mjög ólíklegt að það fari að gjósa norðan við Keili, hvað þá að það gjósi í Hafnarfirði. En ég benti á að það eru aðrir gígar sem tilheyra Krýsuvík og eru austar og þar hefur gosið ofan við Hafnarfjörð. Það eru fimm kílómetrar frá Völlunum að þeim gígum sem mynduðu Kapelluhraunið, sem mikið af atvinnuhúsnæði stendur á. Ef það kemur gos þar aftur þá er tiltölulega stutt á Vellina og eftir því sem þú ferð sunnar með byggðina því nær ertu þessum gömlu gígum þar sem getur gosið í framtíðinni.“

Fólk á höfuðborgarsvæðinu spyr sig hversu mikil hætta sé á hörmungum þar?

„Það fer eftir því hvernig við skilgreinum hörmungar. Það er ekki mikil hætta á því að við fáum gos á þessu svæði, sem muni leggja byggðir í eyði og valda fjöldadauða. Við erum ekki með þannig sprengigos á Reykjanesskaga. Við getum fengið hraungos þar sem hraun flæðir tiltölulega hratt og líka vinsamleg gos. Það getur gosið í sjó sunnan við Grindavík og það getur líka gerst út af hælnum á Reykjanesskaganum. Þá fáum við öskugos en þau verða aldrei það aflmikil að þau valdi risaskaða.“

Getum við þá verið nokkuð róleg?

„Já, við getum verið tiltölulega róleg varðandi þetta. Við munum fá skjálftahrinur eins og við höfum verið að horfa á og fólk finnur mismikið fyrir eftir því hvar þær eru. Við getum fengið hraunrennsli og smá gjóskufall sem getur valdið óþægindum. Við getum fengið brennisteinsmengun sem getur valdið óþægindum en ætti í flestum tilfellum ekki að vera lífshættuleg.

Reykjanesið er ekki að fara að fá eldgos sem eru lífshættuleg. Við getum fengið stóra skjálfta og megum ekki gleyma því að þeir eru líka vá. Að mínu mati er líklegra að skjálftar geti tekið mannslíf en eldgos.“

Skoðar alla möguleika

Vísindamenn eru ekki alltaf sammála þegar þeir spá í stöðuna hverju sinni. Er í þessum vísindum auðveldlega hægt að túlka hluti á fleiri en einn veg?

„Yfirleitt er hægt að túlka hlutina á fleiri en einn veg. Það er mikil óvissa í öllu þessu sem gerir að verkum að það eru alltaf til fleiri en ein sviðsmynd. Það sem mér finnst hafa gerst hjá okkur er að menn hafa fest sig við ákveðna sviðsmynd og ákveðna túlkun og gleymdu að taka tillit til annarra möguleika.

Mitt eðli er þannig að ég vil taka tillit til allra möguleika sem ég sé og skoða þá frá mörgum sjónarhornum. Síðan reynir maður að vega og meta hvað gögnin segja og hvort þessi sviðsmynd sé líklegri en hin. Og ef maður getur ekki gert upp á milli þá verður maður að taka tillit til beggja.“

Sem vísindamaður hefur þú verið mikið í sviðsljósinu undanfarið, hvernig á það við þig?

„Ég myndi alveg þiggja að vera ekki mikið í sviðsljósinu. Mér myndi líða alveg ágætlega að vera bara ráðgjafi á bak við tjöldin.“

Nú veit ég ekki hvort þú hefur tekið eftir því, en fólk sem sér þig í sjónvarpi hefur jafnvel skoðun á klæðaburði þínum. Hvað finnst þér um það?

„Ég hef engar áhyggjur af því. Ég veit að ég kann ekkert að klæða mig. Þú getur bara spurt systur mína, Margréti Elínu Þórðardóttur fatahönnuð, hún getur staðfest að ég hef ekki nokkurt vit á klæðaburði.“

Aðdáandi Steins Steinarrs

Þorvaldur er spurður um áhugamál sín utan vinnu og segir: „Ég hef alltaf haft áhuga á fótbolta og handbolta. Ég er Púlari – hef verið það frá 1967 þegar ég sá þá fyrst í sjónvarpinu. Ástæðan fyrir því að ég varð Púlari var að ég var markmaður í fótbolta og horfði á leik með Liverpool. Markmaðurinn, Tommy Lawrence, stóð sig stórkostlega í leiknum og ég féll fyrir markvörslunni. Ég varð Púlari á tíma þegar Liverpool var ekki að vinna sérstaka sigra.“

Spurður um uppáhaldslið á Íslandi svarar hann: „Það er erfiðara. Ég kem úr Fram-fjölskyldu þannig að það er sterkur Framari í mér. Ég ólst upp í Garðabæ þannig að Stjarnan á stóran hlut í mér. Svo spilaði ég með FH og þeir eiga líka sitt hólf. Ég spilaði með Víkingi Ólafsvík í smátíma og hef taugar þangað vestur og líka vegna þess að ég á mikið af ættmennum á Snæfellsnesinu. Föðurfjölskyldan er að hluta til þaðan og hinn hlutinn úr Fljótshlíðinni, Hlíðarenda.“

Það kemur upp úr dúrnum að Þorvaldur er mikill ljóðaunnandi. „Steinn Steinarr er mitt uppáhaldsljóðskáld, mér finnst enginn komast nálægt honum. Hann er stórbrotið skáld og magnaður einstaklingur.“

Spurður hvort hann hafi sjálfur ort segir hann: „Einhvern tímann reyndi ég að berja saman ljóð. Ég veit ekki hvernig til tókst, það er svo langt um liðið síðan það var.

Ég hef gaman af ljóðum. Ég hef líka gaman af að horfa á góða sakamálaþætti. Undanfarið hef ég verið að horfa á kóreska þætti, Mitt nafn, My Name, sem fjalla um stúlku sem er leynilögreglumaður, og þeir eru meiriháttar góðir. Ég er veikur fyrir breskum gamanþáttum eins og Fawlty Towers, sem eru stórkostlegir, og Blackadder. Þar er húmor sem hittir í mark hjá mér. Ég er ekki mikið fyrir hryllingsmyndir, vil aðeins þægilegri myndir.“

Varðandi áform í nánustu framtíð segist Þorvaldur vitanlega ætla að halda áfram að standa vaktina sem vísindamaður en vonast til að komast til Havaí á þakkargjörðarhátíðinni til að hitta konu sína.