Stóreflis sprunga hefur hlutað sundur þjóðbrautina í Grindavík, en jörð hefur sigið heilmikið í bænum og myndast metra djúp sigdæld í bænum. Gufu lagði upp úr sprungunni frá veiturörum, sem gengið höfðu í sundur við ósköpin.
Stóreflis sprunga hefur hlutað sundur þjóðbrautina í Grindavík, en jörð hefur sigið heilmikið í bænum og myndast metra djúp sigdæld í bænum. Gufu lagði upp úr sprungunni frá veiturörum, sem gengið höfðu í sundur við ósköpin. — Morgunblaðið/Eggert
Almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi í Grindavík liðið föstudagskvöld og létu rýma bæinn eftir að jarðvísindamenn töldu hættu á að stór kvikugangur lægi undir bænum

11.11.-17.11.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Almannavarnir lýstu yfir neyðarstigi í Grindavík liðið föstudagskvöld og létu rýma bæinn eftir að jarðvísindamenn töldu hættu á að stór kvikugangur lægi undir bænum. Óttast var að eldgos gæti hafist þá og þegar, jafnvel inni í miðjum bæ. Þá þegar höfðu margir farið úr bænum vegna harðrar jarðskjálftahrinu.

Landvernd lá hins vegar ekkert á og vildi ekki svara spurningum um afstöðu samtakanna til hraunvarnargarða í grennd við mikilvæg mannvirki fyrr en „eftir helgi“ en meintu fyrr en eftir gos.

Þjóðarmæður og landsfeður stöppuðu stálinu í Grindvíkinga og töluðu eins og allt yrði sem fyrr áður en yfir lyki, sem þó má heita fjarskalega ólíklegt. Sé bærinn á kvikugangi nýhafins og langvinns eldsumbrotatímabils er ekki ósennilegt að hann leggist í eyði fyrr en varir.

Nokkur fyrirtæki í ferðaþjónustu kváðust ekki myndu veita ísraelskum fyrirtækjum eða ferðamönnum þjónustu vegna atburðarásarinnar á Gasasvæðinu. Slík mismunum á grundvelli þjóðernis er skýrt brot á hegningarlögum, en Samtök ferðaþjónustunnar virtust ekki kippa sér upp við það.

Flutningafyrirtæki kvarta undan því að niðurgreiðslur ríkisins til Íslandspósts hafi skekkt samkeppni og orðið fyrirtækjunum til tjóns.

Tónlistarmennirnir Laufey Lín Jónsdóttir og Ólafur Arnalds fengu hvort sína tilnefninguna til Grammy-verðlauna, en þau verða veitt nú í febrúar.

Upprunaleg útgáfa ævintýris Muggs um Dimmalimm hefur rokselst eftir að ný útgáfa með Disneylegum teikningum sætti mikilli gagnrýni.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikkona lést 73 ára.

Fjölmenn samverustund Grindvíkinga og velunnara þeirra var haldin í Hallgrímskirkju, en þar var að auki nokkurt stórmenni, forseti, biskup og fleiri.

Íbúum í austurhluta Grindavíkur gafst tækifæri til þess að komast til síns heima og sækja ýmsar nauðsynjar og persónulega muni.

Útgerðir í Grindavík bíða hins vegar í óvissu, skipin flest á sjó, en nóg af fiski í kæligeymslum sem ætlunin var að selja úr landi fyrir jól.

Rjúpnaskytta varð fyrir voðaskoti en var sóttur af þyrlu Landhelgisgæslunnar og komið á sjúkrahús.

Gæslan er annars að undirbúa endurnýjun á þyrluflotanum, en þrjár nýjar þyrlur verða leigðar.

IKEA hefur tekið að lækka vöruverð, en ýmis aðsteðjandi vandi, sem valdið hefur verðhækkunum á undanförnum misserum, hefur linast aftur.

Sigmundur Guðbjarnason fv. háskólarektor lést 92 ára gamall.

Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um verndun innviða á Suðurnesjum, en þar er helst horft til varnargarða til þess að verja Grindavík og virkjunina í Svartsengi. Ef setja þarf upp neyðarkyndingu fyrir Suðurnes mun það kosta um tvo milljarða króna, en svo kostar liðlega milljarð að kynda á mánuði.

Stéttarfélög hafa brugðist vel við málaleitan um lán á orlofshúsum fyrir Grindvíkinga á vergangi.

Bjarni Benediktsson leggur til að Ísland tvöfaldi framlög til þróunarmála og að þau verði framvegis 0,7% af vergum þjóðartekjum eða um 25 milljarðar króna eins og nú horfir.

Fjárframlög Íslands til Gasasvæðisins hafa aukist mikið eftir hryðjuverkaárás Hamas 7. október. Utanríkisráðuneytið hefur þó enga hugmynd um hvernig fénu er varið eða hvort reynt er að halda því frá hryðjuverkasamtökunum með einhverjum hætti.

Kirkjugarðar Akureyrar buðu „áhugasömum“ líkhús til sölu eða leigu. Þar er kæligeymsla fyrir 24 lík og miklir framtíðarmöguleikar.

Skjálftar í Grindavík náðu inn í kauphöllina þar sem bréf í flugfélögum lækkuðu mikið.

Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur metið tryggðar eignir í Grindavík, en verðmætið er samtals talið vera um 150 milljarðar. Sjóðurinn á til um 100 milljarða, en ríkið myndi fjármagna afganginn.

Vinna hófst við gerð varnargarða á Reykjanesskaga í námunda við Svartsengi og Bláa lónið.

Grindvíkingar fengu aftur tækifæri til þess að skjótast heim og forða eigum sínum.

Sem veitti kannski ekki af í ljósi þess að upp komst um tilraun starfsmanns fréttastofu Ríkisútvarpsins til þess að komast inn í mannlaust hús í Grindavík. Ekki er ljóst hvað honum gekk til, aðeins átroðningur og húsbrot eða leit að verðmætum.

Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins ræddu mögulegar aðgerðir til stuðnings Grindvíkingum.

Frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram, en þar er gert ráð fyrir að 83,5 milljarðar bætist við reikninginn sem þingmenn senda almenningi.

Bókaútgefendur ætla ekki að dreifa Bókatíðindum í ár, en þau má finna í bókabúðum og á netinu.

Ekki verður útnefndur bæjarlistamaður á Ísafirði í ár. Til stóð að Mugison hlotnaðist heiðurinn, en hann átti óhægt um vik á tilsettum degi, svo ákveðið var að verja upphæðinni til þess að kaupa jólaskreytingar.

Alger óvissa um framtíðina í nánd og firð þjakaði Grindvíkinga, en þeir hafast við í bráðabirgðahúsnæði hjá ættingjum og vinum eða orlofshúsum, en geta fæstir sinnt vinnu eða skipulagt sig. Líkur á eldgosi í bráð fóru hins vegar minnkandi að sögn sérfræðinga.

Yfirskattanefnd ógilti úrskurð skattrannsóknastjóra vegna óskiljanlegra fjármála konu af erlendu bergi brotin, en hún gaf þær skýringar að hún hefði rekið einhvers konar félagsaðstoð fyrir samlanda sína líkt og tíðkaðist þar í landi.

Nær 6% fasteignasala hafa skilað inn réttindum sínum til þess að spara kostnað við eftirlitsgjald, tryggingar og fleira. Fasteignaviðskipti hafa dregist saman um helming frá því sem var.

Ellert Eiríksson, fv. bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lést 85 ára.

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir nauðsynlegt að fólk geti skráð aðsetur fjarri lögheimili vegna sérstakra aðstæðna eins og Grindvíkingar búi nú við. Um 3.700 Grindvíkingar hafa fengið inni hér og þar undanfarna daga.

Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir raunir Grindvíkinga dýpka húsnæðiskreppuna enn frekar. Leita verði allra leiða til að auka framboð nýrra íbúða.

Skjálftavirknin hélst stöðug og líkur á eldgosi á Reykjanesskaga enn miklar. Tugir vinnuvéla eru notaðar dag og nótt við að hlaða upp varnargörðum úr efni, sem sótt er í Stapafellið.

Ríkisendurskoðun áfellist Matvælastofnun (MAST) fyrir víðtækt vantraust á stofnuninni og störfum þess, bæði af hálfu sérfræðinga í matvælagreinum og almenningi. Jafnframt ætti stofnunin og starfsfólk hennar að taka gagnrýni af meiri auðmýkt.

Íslandspóstur vill hætta að bera út bréf og finnst það of mikið ómak. Viðtakendur geti frekar sótt þau til sín. Hins vegar vill fyrirtækið áfram frá ríkisstyrki til enda veraldar.

Bræðurnir Gunnar og Kristján Jónassynir í Kjötborg á Ásvallagötu bíða enn aðgerða borgarstjóra en þeir hafa ekkert bílastæði við verslunina til að aka út vöru og safna stöðusektum.

Öndunarfærasýkingar hafa færst mjög í vöxt að undanförnu, en þar ræðir um bæði covid, inflúensu og fleiri pestir.

Sigurbergur Sveinsson, kaupmaður í Fjarðarkaupum, lést níræður.