Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Nútíma landbúnaður með tilsettum efnaáburði hefur breytt uppskerunni.

Pálmi Stefánsson

Steinefni líkamans koma alfarið úr fæðinu. Í fæðukeðjunni frá sjó til dýra færast þau upp og þverra í styrk. Nú er talið að nútíma landbúnaður hafi rofið þessa fæðukeðju. Grænn gróður þarf um 20 frumefni, C, H og O úr lofti eða vatni og steinefnin N, P, K, Ca, Mg og S í miklu magni en snefil af hinum: B, Cl, Cu, Fe, Na, Zn, Mo, I, Ni, Si og Co. En sýrustig þarf að vera sem næst hlutlaust og steinefnin hlaðin eða á jónaformi í vatni. Spendýr þarf a.m.k. 34 frumefni og er sérkennilega mikil þörf fyrir NaCl sem gróður hefur ekki en annars þau sömu og gróður.

H.F. Osbone segir í bók sinni frá 1948 að nútíma landbúnaður með tilsettum efnaáburði hafi hægfara breytt uppskerunni þannig að í stað þess að vera prótínrík og steinefnarík verði hún sterkjurík en steinaefnasnauð. Þetta staðfestir P. Bergner í bók sinni frá 1997. Osborne lýsir því hvernig gróðurjarðvegurinn er að hverfa með vindum og regnvatni fyrir tilstilli mannsins og víða óafturkræfur. Hann segir að það taki náttúruna 1-4 aldir að mynda 1 cm af frjómold og telur að einn hektara þurfi á mann til ræktunar fæðu hans. Röng akuryrkja, ofbeit, skógarhögg og skógareldar auk veðurfars hafi hér hjálpað til við gróður- og jarðvegseyðinguna.

Ísland hefur stærstu eyðimerkur Evrópu en með búsetunni hafa yfir 50% gróðurjarðvegs horfið. Björk, birkiskógar og kjarr sem hliðargróður verndaði gróðurmoldina meðan hún fékk að vera í friði. Í dag eru undir 18% landsins ræktanleg.

Osborne notaði tvær breytur til að lýsa ástandinu: mannfjölda og gróðurmold sem var talin 30 cm til jafnaðar á jörðinni og fer þverrandi. Hann hafði áhyggjur af hvernig fæða mætti sívaxandi fólksfjölda sem þó var bara um 2 milljarðar við útkomu bókarinnar.

D. Attenborough lýsir ástandinu um 80 árum síðar með þremur breytum. 1937 var mannkyn 2,3 milljarðar, CO2-mengun lofts 280 ppm og 66% þurrlendis ónotuð. 2020 er mannkynið 7,8 milljarðar, CO2-mengun lofts 415 ppm og bara 35% þurrlendis ónotuð.

Og hér hefur maðurinn heldur betur komið við sögu. Hann telur yfir 30% lífmassa spendýra vera mannfólkið, yfir 60% séu húsdýrin þeirra en restin, 4%, villt spendýr frá músum til hvala.

Þessi samantekt sýnir að maðurinn á í stríði við náttúruna og afleiðingarnar eru að smá koma í ljós.

Heimildir:

Heimur á heljarþröm, H.F. Osborne (1950), þýdd af Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra

The Healing Power of Minerals, P. Bergner (1997)

A Life on Our Planet, D. Attenborough (2020)

Höfundur er efnaverkfræðingur.