Ég veit ekki hvað kom yfir mig við Listhúsið, en í framhaldinu kom sagan til mín, segir Elín Hirst.
Ég veit ekki hvað kom yfir mig við Listhúsið, en í framhaldinu kom sagan til mín, segir Elín Hirst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér hefur sagt að afi hafi verið öðruvísi áður en hann fór í fangelsi, hann hafi verið málgefnari og glaðari. Það var eins og viss þungi hvíldi yfir honum.

Í upphafi hernámsins hér á landi árið 1940 handtók breski herinn Karl Hirst, fyrir það eitt að vera Þjóðverji. Hann var fluttur í fangabúðir á eyjunni Mön og sneri ekki aftur heim til Íslands fyrr en sjö árum síðar. Nú hefur Elín Hirst skrifað sögu þessa afa síns. Bók hennar heitir Afi minn stríðsfanginn.

Um tilurð bókarinnar segir Elín: „Síðastliðinn vetur var ég að keyra framhjá Listhúsinu við Engjateig þar sem Undraland, heimili ömmu minnar og afa, stóð áður en það var rifið á níunda áratugnum. Alltaf þegar ég keyri Suðurlandsbrautina horfi ég í þessa átt og mér finnst alltaf jafn skrýtið að sjá ekki húsið. Í þetta sinn keyrði ég þarna niður eftir og sá að þar voru alls konar sláttuáhöld, kolryðguð og eldgömul. Ég tók mynd af þeim, settist síðan upp í bílinn og hugsaði með mér hvort ekki væri kominn tími til að hafa samband við Þjóðskjalasafn Íslands og fá að vita hvað gerðist í húsinu árið 1940.

Ég skrifaði safninu og bað um öll gögn um Karl Hirst, afa minn, og fékk sendan bunka af skjölum. Þegar ég las þau fannst mér ég vera að lesa reyfara. Þarna var fullt af hlutum sem ég hafði ekki haft hugmynd um.

Þegar ég var komin með þessi gögn í hendur kviknaði á fréttamanninum í mér. Ég vildi koma þessum merkilegu skjölum á framfæri. Ég byrjaði að skrifa, ætlaði að sjá hvað myndi gerast og það gerðist heilmikið. Minningarnar komu svífandi til mín. Ég fór að setja fangavistina og það sem ég upplifði í æsku í samhengi. Ég hitti líka pabba og bróður hans og spurði þá um þessa tíma.

Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur rannsakað þessi mál mjög ítarlega og skrifaði grein í Nýja sögu sem heitir Fangarnir á Mön þar sem er farið djúpt ofan í hvers vegna mennirnir voru handteknir, hvernig vistin var og hvernig heimkoman var. Þetta er afskaplega vönduð rannsókn sem ég fékk að nýta mér með því að vitna í hann. Einnig hafa bækur dr. Þórs Whithead prófessors um Ísland í síðari heimsstyrjöldinni verið mér ómetanlegar heimildir.“

Órétti beitt

Karl Hirst dó árið 1983. Þá var Elín 23 ára og í námi erlendis. „Ég var mjög náin föðurafa mínum og ömmu. Við krakkarnir voru mikið hjá þeim í húsinu sem var gamall bóndabær og þar var ræktað grænmeti og rabarbari. Í húsinu við hliðina var hænsnarækt. Þetta var dálítið eins og að vera í sveitinni.“

Elín segir að eina sök Karls hafi verið að vera Þjóðverji. „Hann var ekki nasisti. Bretar ákváðu að hreinsa landið af öllum Þjóðverjum á herskyldualdri. Þeir voru teknir með nokkurra vikna millibili, þeir sem voru taldir hættulegastir strax um morguninn 10. maí og afi var handtekinn í síðasta hollinu, sem var í júlí 1940, og fluttur á eyjuna Mön.“

Elín segir að aðbúnaður á Mön hafi ekki verið slæmur. „Bretar fóru vel með sína fanga. Mön var Majorka þess tíma og þar hafði hótelum og gistihúsum verið breytt í fangelsi og víggirt allt í kring. Matur var þó af skornum skammti eins og víða á þessum árum. Fangarnir áttu ekki illa vist en vistin þar reyndi mjög andlega á marga þeirra.“

Karl var í fimm ár á Mön en kom ekki aftur til Íslands fyrr en tveimur árum síðar, árið 1947. Hún segist ekki minnast þess að afi hennar hafi rætt fangelsisdvölina við hana. „Amma talaði hins vegar mikið um þetta og var mjög reið og fannst þau hjón miklum órétti beitt.“

Mikið prúðmenni

Spurð hvernig persónuleiki afi hennar hafi verið segir Elín: „Afi var afskaplega indæll maður, mikið prúðmenni og það fór ekki mikið fyrir honum. Þau hjónin voru ólík en afskaplega samrýnd og gátu ekki séð hvort af öðru. Amma var alla tíð mjög afgerandi meðan hann hélt sér til hlés. Þau áttu það sameiginlegt að vera óskaplega barngóð.

Mér hefur sagt að afi hafi verið öðruvísi áður en hann fór í fangelsi, hann hafi verið málgefnari og glaðari. Það var eins og viss þungi hvíldi yfir honum.“

Elín segist ákaflega ánægð að saga afa hennar sé komin á prent. „Ég bjóst aldrei við að skrifa þessa sögu. Ég veit ekki hvað kom yfir mig við Listhúsið, en í framhaldinu kom sagan til mín án þess að ég þyrfti að rembast við að segja hana.“