Sumarkonan Þessi pía er alltaf mættust.
Sumarkonan Þessi pía er alltaf mættust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erum við í alvöru að fara að tala um stigbreytingar? Miðstig, efsta og allt það? Já, það erum við að fara að gera, og ástæðan er sú að það er skemmtilegt. Við erum sífellt að stigbreyta í lífinu, hitt og þetta færist í aukana, dvínar eða versnar;…

Tungutak

Sigurbjörg Þrastardóttir

sitronur@hotmail.com

Erum við í alvöru að fara að tala um stigbreytingar? Miðstig, efsta og allt það? Já, það erum við að fara að gera, og ástæðan er sú að það er skemmtilegt. Við erum sífellt að stigbreyta í lífinu, hitt og þetta færist í aukana, dvínar eða versnar; stigbreyting er nauðsyn til að tjá breytingar og samanburð. En furðulega oft lendum við í klandri þegar við hyggjumst stigbreyta.

Stundum er miðstigið strax til trafala. Þegar ég heyrði mann nýverið segja að íslenska síldin væri „yfirleitt magurri en sú norska“ fletti ég upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls því eitthvað fannst mér einkennilegt við orðið, var þó ekki viss. Það reyndist tvinnútgáfa af orðmyndunum sem BÍN gefur upp: magrari og megurri. (Vinkona mín rifjar gjarnan upp er hún sagði að einhver væri kúlari en annar og ég þóttist snöggreiðast – ekki yfir slettunni, heldur væri beygingin augljóslega kúlli.)

Sökum þess hve oft atviks- og lýsingarorð virka óregluleg taka sumir á sig krók til að forðast orðmyndir sem þeir eru óvissir um. Þannig var fyrirsögn í blaði: „Þetta eru hóparnir sem Íslendingum er mest illa við.“ Málalengingin hugnaðist eigi Atla Steini Guðmundssyni, sem reit: „Hvílík fjallabaksleið í orðalagi eða þá lamandi ótti við stigbreytingu atviksorða. Hvað með … sem Íslendingum er verst við?“ Orðalagið var n.b. fyrirsagnarsmiðsins, ekki þeirra sem gerðu könnunina.

En við erum ekki hér til að dæma heldur rannsaka. Engum datt t.d. í hug að fetta fingur út í íslenskutök Dorritar Moussaieff þegar hún lýsti yfir að Ísland væri „stórasta land í heimi“ – viðleitnin var tær og skiljanleg, við höfum flest flaskað á einhverju svipuðu og viljum þá frekar bara hlæja. Þannig varð einmitt viss hápunktur í viðburðaríkum þætti Kappsmáls þegar hinn grínaktugi og góði Steindi Jr. þurfti í miklum flýti að „stigbreyta óttaslegið í karlkyni“ og bunaði út: óttaslegur – óttaslegari – óttaslegastur. Sló hann þar saman óttasleginn og ógeðslegur sem var mjög í anda þáttarins enda hrekkjavökuþema. Réttu stigbreytinguna reiddi hann svo auðveldlega fram er um hægðist.

Það sem hefur annars gerst undanfarin misseri er að efsta stig lýsingarorða hefur komist í ákveðinn móð. Að vísu ku bannað að nota hástig í auglýsingum (Carlsberg er því „líklega“ besti bjór í heimi) en ég er ekki að tala um auglýsingar. „Þessi hnoðri er bestastur“, segja foreldrar á félagsmiðlum. „Mættastar!“ segja píur á vettvangi gleðskapar. „Svo er GÓSS-ball á eftir með bestu mínum,“ sagði Berglind Festival í tímamótainnslagi, með málsniði íslensku sumarkonunnar. Sumt virðist „skapandi“ stigbreyting, stundum er eins og búið sé að bæta við fjórða stiginu – þannig að ef þú, lesandi kær, ert nývaknaðastur á heimilinu, góðasti vinur einhvers eða mestasti snillingurinn, þá veit ég ekki endilega hvað það heitir en skil hvað þú ert að segja.