Dóra Sif Wium fæddist í Vestmannaeyjum 20. mars 1934. Hún lést í Reykjavík 18. október 2023.

Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson Wium, f. 1901, d. 1972, og Guðfinna Jóna Steindórsdóttir Wium, f. 1909, d. 1998. Systkini Dóru Sifjar voru Kristinn, f. 1926, d. 1994, og Elísa Björg, f. 1931, d. 2017.

Dóra Sif giftist árið 1957 Hilmari Snæ Hálfdánarsyni, f. 1934, d. 2015. Þau skildu. Dóttir þeirra er Drífa, f. 1957. Dóttir hennar er Dóra Sif Ingadóttir, f. 1988. Maki Dóru Sifjar er Bjarni Þór Viðarsson, f. 1988, og eiga þau þrjár dætur: Sonju Sif, f. 2012, Söru Sif, f. 2017, og Elísu Sif, f. 2020.

Dóra Sif lauk prófi frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún varð verslunarstjóri í Herrabúðinni og síðar varð hún gjaldkeri hjá Iðnaðarbankanum og svo Landsbanka Íslands þar sem hún vann til starfsloka. Hún bjó sér heimili í Hlíðunum þar til hún fluttist á Hjúkrunarheimilið Sóltún árið 2021.

Útför Dóru fór fram í kyrrþey að eigin ósk 2. nóvember 2023.

Hæ, hæ, Sonja Sif hér. Ég vildi bara segja hvað ég elska þig rosa rosa rosa mikið og hversu erfiður og skrýtinn heimurinn verður án þín. Ég mun sakna þess að koma á Sóltún til þín og knúsa þig. Ég mun sakna þess að fara í ísbíltúr. Og ég mun sérstaklega sakna þín. Já þín, því ég gæti ekki hugsað mér lífið án þín. Eins og mamma og amma segja: ég græt því mér þykir svo vænt um þig. Ég er samt mjög glöð og þakklát að hafa getað kynnst þér og verið með þér öll þessi ár. Þú ert í alvöru langlanglangbesta langamma sem nokkur gæti hugsað sér. Eins erfitt og það er að segja bæ veit ég að þú ert í góðum höndum þarna uppi hjá mömmu þinni, pabba þínum og Lísu systur. Ég vil minna þig aftur á hvað þú ert frábær, æðisleg, alltaf glöð og í alvöru langbesta langamma allra tíma. Elska þig svo mikið.

Þín

Sonja Sif.

Þegar við Dóra hittumst fyrst datt okkur líklega ekki í hug að við yrðum vinkonur ævilangt. Ég kom til hennar er ég var enn ekki hálfnuð í fimmtugt. Fráskilin að bjarga mér með ýmiskonar vinnu í borginni. Þar af leiddi að ég þjónustaði Dóru á heimili hennar með reglulegri heimsókn til að þrífa og laga til, þó varla hafi það getað kallast erfitt verk, því heimili Dóru var alltaf hreint og snyrtilegt, smekklegt og fallegt. Við áttum alltaf saman indælar stundir, spjölluðum um lífið og tilveruna og ég fór stundum út fyrir „kassann“ í því að gera eitthvað extra, sérstaklega fyrir jól eða önnur tilefni. Ekki stóð á því að elsku Dóra mín launaði mér þennan sveigjanleika. Fljótlega kynntist ég aðalfólkinu í lífi hennar, augasteininum og nöfnu hennar og einkadóttur hennar, Drífu, sem ávallt síðan hefur verið vinur í fjarlægð, yndisleg og umhyggjusöm dóttir móður sem að mestu ól hana upp ein.

Dóru var mjög umhugað um sitt nánasta fólk. Systir hennar Elísa, eða Lísa eins og Dóra kallaði hana, var henni mjög hjartfólgin, enda þær nánar systur. Þannig kynntist ég fólkinu hennar Dóru í gegnum árin, af umhyggju hennar fyrir þeim. Þar á meðal móður hennar sem hún sinnti af umhyggju sem oft tók meira frá Dóru sjálfri en gott var. Gott dæmi um hve mikil væntumþykja myndaðist milli mín og Dóru var að þegar móðir hennar lést og lét eftir sig glæsileg húsgögn sem vantaði nýja eigendur, bauð Dóra mér að þiggja fallega sófasettið hennar. Því miður höfðum við ekki sama smekk, ég og maki minn, svo ekkert varð úr þessu. En blazerjakkann sem Dóra gaf mér eitt sinn á ég enn, fallegur navy-blár, klassískur og flottur.

Við hittumst oft eftir að ég fór til annarra starfa og á meðan hún bjó í Mávahlíðinni. Hún kom í stóru afmælin mín og allavega einu sinni áttum við gæðastund saman, þær mæðgur og ég, er þær komu til mín í mat. Dóra fylgdist með mér öðlast menntun í heilbrigðisfræðum og fór það svo að ég varð sjúkraliðinn hennar í vinnunni minni á Landspítalanum. Mér var ljúft að sinna henni í þau tvö skipti sem hún þurfti að liggja á minni deild. Þannig lágu leiðir okkar saman á nýjum stað. Ég sá að Dóra var farin að þreytast. Samt var hún sama fína konan, alltaf snyrtileg, alltaf fallega til fara. Fyrst þegar ég sá hana tók ég eftir vel snyrtum höndum með kóralrautt naglalakk og varalit í stíl.

Elsku fallega Dóra mín hvílist nú og þarf engar áhyggjur að hafa af sínum nánustu. Biblían segir að á efsta degi muni Jesús koma aftur að vekja þá sem sofa í gröfinni. Þetta ræddum við Dóra einhvern tíma og kannski trúði hún boðskapnum. Í 11. k. Jóhannesarguðspjalls talar Marta systir Lasarusar við Jesú og þar segir, vers. 24: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi. Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Hvenær kemur þessi efsti dagur? Það veit enginn maður til hlítar, en ég trúi, Frelsarinn okkar segir aldrei ósatt. Hann mun vel fyrir sjá. Ég hlakka til að hitta unga og brosandi Dóru í upprisunni. Guð blessi hana og ástvinina kæru.

Þórdís Ragnheiður Malmquist.