Fjölskyldan Frá vinstri: Guðlaug, Karl faðir, Hörður, Dagrún móðir, Þórdís og Hanna María á 80 ára afmæli Karls árið 1975.
Fjölskyldan Frá vinstri: Guðlaug, Karl faðir, Hörður, Dagrún móðir, Þórdís og Hanna María á 80 ára afmæli Karls árið 1975.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hanna María Karlsdóttir fæddist 19. nóvember 1948 og verður því 75 ára á morgun. „Ég er fædd í hjónarúmi foreldra minna, Vesturbraut 9 í Keflavík, bjó rétt hjá slippnum og Berginu, sem var paradís fyrir krakka að leika sér í

Hanna María Karlsdóttir fæddist 19. nóvember 1948 og verður því 75 ára á morgun. „Ég er fædd í hjónarúmi foreldra minna, Vesturbraut 9 í Keflavík, bjó rétt hjá slippnum og Berginu, sem var paradís fyrir krakka að leika sér í.

Ég var í sveit í Dýrafirði, hjá yngsta bróður mömmu, Elísi Kjaran, bónda og ýtukarli. Hann varð landsþekktur fyrir að leggja veg út í Svalvoga á litlu ýtunni sinni ásamt Ragnari syni sínum eftir að Vegagerðin taldi ómögulegt að leggja þarna veg. Það var einstaklega skemmtilegt að vera á Kjaransstöðum hjá Ella frænda. Hann kenndi mér margt og var afskaplega góður við okkur krakkana. Ég passaði börnin og rak kýrnar. Það var sundum erfitt, en alltaf gaman og séð var til þess að við fengjum tíma til að leika okkur. Að fara með kúkableyjurnar niður í læk til að skola úr þeim þótti mér ekki skemmtilegt.“

Hanna María gekk í barnaskóla og gagnfræðaskóla í Keflavík. „Fyrsta launaða starfið var í frystihúsinu Jökli, þá var ég 11 ára og sleit humar allan daginn fyrir 11 krónur á tímann. Strákarnir fengu að sjálfsögðu hærri laun. Sem barn og unglingur var ég í öllum tómstundum sem í boði voru, í skátunum, stúkunni, föndurtímum, dansskóla og handbolta. Náði meira að segja að komast í unglingalandsliðið í handbolta og varð tvisvar íslandsmeistari í öðrum flokki.

Síðast en ekki síst var ég í Leikfélagi Keflavíkur, þar sem fyrstu skrefin í leiklist voru tekin 14 ára gömul. Ég hafði áður leikið í barnaskóla og með stúkunni. Ég var rauðhærð, freknótt og með mjög skakkar tennur og gerði mér því ekki miklar vonir um að verða nokkurn tíma leikkona, sem var draumurinn, þannig að ég ætlaði að verða hjúkrunarkona. Móðir mín fór hins vegar með mig í tannréttingar strax fyrsta árið sem þær voru kenndar hér á landi í Tannlæknadeild Háskólans. Ég fór því til Reykjavíkur einu sinni í viku í tvö og hálft ár í tannréttingar.“

Hanna María vann við vélabókhald í fjögur ár hjá Keflavíkurverktökum. „Ég sótti svo um starf í utanríkisráðuneytinu og var ráðin sem einkaritari Péturs Thorsteinssonar þáverandi ráðuneytisstjóra. Dvölin þar var ekki löng því innan þriggja mánaða var ég send til starfa við sendiráð Íslands í Washington D.C. Vann þar í rúm þrjú ár, kom heim 1974 og hélt áfram störfum í utanríkisráðuneytinu sem þá hafði flutt sig úr gamla Stjórnarráðshúsinu upp á Hverfisgötu.“

Hanna María sótti um inngöngu í Leiklistarskóla SÁL og var þar veturinn 1974-1975 í kvöldskóla ásamt því að vinna á daginn í ráðuneytinu. Hún útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1978. „Ég fékk strax fastráðningu sem leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur (LR) 1979, en það var Vigdís Finnbogadóttir sem skrifaði undir minn fyrsta samning. Ég var fastráðin leikkona hjá LR í 37 ár, það var því mikið áfall þegar nýr leikhússtjóri sagði mér upp eftir að hún hafði verið við störf í fimm daga.“

Í dag er Hanna María heiðursfélagi LR og sat í stjórn þess um nokkurt skeið. Hlutverkin hjá LR eru um eitt hundrað á sviði, hún hefur fengið tvær tilnefningar til Grímuverðlauna og hampaði styttunni 2005 sem leikkona ársins í aðalhlutverki. Auk sviðsverka á hún fjölmörg hlutverk í kvikmyndum, s.s. í 101 Reykjavík þar sem hún fékk tilnefningu til Edduverðlauna, Sveitabrúðkaupi, Kóngavegi, Börnum o.fl. Nokkrum áramótaskaupum hefur hún leikið í og mörg hlutverk í sjónvarpi ásamt talsetningu á óteljandi teiknimyndum.

„Ég er núna í sjónvarpsþáttum Tinnu Hrafnsdóttur „Heima er best“ sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans um þessar mundir. Eftir áramót verða sýndir þættirnir „Húsó“ á RÚV, en þar leik ég matreiðslukennara, einnig kom ég aðeins við í Ráðherranum 2, sem sýnt verður á næsta ári. Svo eru spennandi verkefni fram undan eftir nokkra mánuði, en það er leyndó.

Ég hef leikstýrt áhugaleikfélögum en ógleymanlegt var að leikstýra Margréti Helgu Jóhannsdóttur í sýningunni Sigrúnu Ástrós, sem sýnd var yfir 100 sinnum í Borgarleikhúsinu og víða úti á landi. Ég átti um tíma mjög skemmtilegt og gott samstarf við Vesturport. Fyrst í Söngleiknum Ást og síðan í Faust, en þá sýningu sýndum við í Young Vic-leikhúsinu London í sex vikur, Brooklyn í tvær vikur, Santi Pétursborg á leikhúshátið og víða um Þýskaland. Tvisvar fór ég norður yfir heiðar og lék með Leikfélagi Akureyrar í Stálblómum og Tobacco Road.

Helstu áhugamál Hönnu Maríu eru golf, hestar og kórsöngur. „Svo er ég í hljómsveitinni Ukulellum, en við stefnum á erlend mið á næsta ári og undirbúningur er í fullum gangi.“

Fjölskylda

Eiginkona Hönnu Maríu er Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, f. 2.6. 1958. Þær eru búsettar í Þingholtunum í Reykjavík. Móðir Sigurborgar var Gerður Sturlaugsdóttir, f. 13.1. 1928, d. 12.7. 2014, umboðsmaður Morgunblaðsins í Kópavogi, síðar bílstjóri á Reykjalundi og hjá Háskóla Íslands. Faðir Sigurborgar var Daði Steinn Kristjánsson, f. 23.6. 1920, d. 25.1. 1982, lengst af stýrimaður hjá Hafskip.

Systkini Hönnu Maríu eru Hörður Karlsson, f. 18.7. 1942, starfaði hjá Veðurstofu Íslands. Maki: Anna Sigurðardóttir, f. 5.8. 1945, fv. starfskona á leikskóla, og Þórdís Karlsdóttir, f. 22.2. 1946, starfaði hjá Loftleiðum, Flugleiðum og Icelandair í 50 ár. Maki: Kristinn Ásgrímsson, f. 6.10. 1949, prestur. Hálfsystkini Hönnu Maríu: Bragi Karlsson, f. 4.4 1921, d. 30.5. 1921; Þorsteinn Karlsson, f. 26.9. 1918, d. 10.3. 1941, skipverji, fórst með Reykjaborg sem var skotin niður af kafbáti; Guðlaug Karlsdóttir, f. 23.6. 1919, d. 29.7. 2017, kaupmaður, og Hulda Hofland Karlsdóttir, f. 18.7. 1923, d. 22.3. 1967, húsmóðir.

Foreldrar Hönnu Maríu voru hjónin Sigríður Dagrún Friðfinnsdóttir, f. 21.3. 1912, d. 10.3. 1998, klæðskeri, og Karl Sigurður Guðjónsson, f. 14.10. 1895, d. 5.9. 1986, rafvirkjameistari. Þau voru búsett í Keflavík.