Sætur sigur Hjörvar Steinn og Magnús Carlsen við upphaf viðureignar.
Sætur sigur Hjörvar Steinn og Magnús Carlsen við upphaf viðureignar. — Ljósmynd/Heimasíða EM í Budva
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að íslenska liðið sem teflir í Opna flokki Evrópumóts landsliða í Budva í Svartfjallalandi vann öflugt lið Norðmanna, 2½:1½, í 3. umferð var röðin komin að Ungverjum og sigur þar hefði fleytt liðinu á efstu borð mótsins

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Eftir að íslenska liðið sem teflir í Opna flokki Evrópumóts landsliða í Budva í Svartfjallalandi vann öflugt lið Norðmanna, 2½:1½, í 3. umferð var röðin komin að Ungverjum og sigur þar hefði fleytt liðinu á efstu borð mótsins. Þar var aftur útlit fyrir þriðja sigurinn í röð gegn mun stigahærri sveit Ungverja; Hannes hafði klórað sig út úr erfiðri stöðu og gat náð jafntefli í hróksendatafli. Hjörvar Steinn og Vignir Vatnar stóðu báðir til vinnings og þá hafði Guðmundur Kjartansson jafnað taflið eftir erfiða byrjun. En Hannes tefldi hróksendataflið illa og tapaði, Hjörvari varð á meinleg yfirsjón og Vignir fann ekki einfalda vinningsleið: jafntefli í báðum tilvikum. Gremjulegt tap sem sat í okkar mönnum og liðið tapaði stórt fyrir Slóveníu í fimmtu umferð.

Greinarhöfundur er liðstjóri Íslands í Opna flokknum og Ingvar Þór Jóhannsson stýrir kvennaliði Íslands. Kvennaliðið er skipað Olgu Prudnykovu, Lenku Ptacnikovu, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur og Lisseth Acevedo Mendez. Sveitin hefur unnið eina viðureign en tapað fjórum.

Snúum okkur þá að viðureigninni við Norðmenn sem stilltu upp „tortímandanum“ Magnúsi Carlsen á 1. borði. Hjörvar Steinn komst ekki lifandi frá vondri byrjun og tapaði. Vignir Vatnar tefldi af öryggi og gerði jafntefli með svörtu á 3. borði. Þá var staðan 1½:½ Norðmönnum í vil en eftir sátu Hannes Hlífar og Hilmir Freyr:

EM landsliða 2023 – Budva 2023, Íslands – Noregur, 2. borð:

Hannes Hlífar Stefánsson – Elham Amar

Hannes lék síðast 52. Bd2-c3 og svartur gat leikið 52. … Bxc3 53. Hxc3 Hxb2 en eftir 54. Ha3! og koma síðan með kónginn fram á borðið virðist hvítur vinna. En „vélarnar“ finna leið fyrir svartan – að kóngurinn stefni að sundurslitnum peðum hvíts og nái þannig jafntefli.

52. … Kf6 53. a6 Ba7 54. Ba5 Bd4 55. Hc4!

- Sjá stöðumynd 2 -

Bráðsnjall leikur. Hvítur hótar 56. Hxd4 og síðan 57 a7.

55. … Hb8 56. b4 Ke6 57. Hc7 f5 58. Hb7 H8 59. b5 e4 60. Bb6 Hg8 61. Kf1 Be5 62. Bc7 Bd4 63. fxe4 f3 64. exf5 Kxf5 65. a7 He8 66. Hb8

- og svartur gafst upp.

EM landsliða 2023, Budva 2023, Íslands – Noregur 4. borð:

Hilmir Freyr Heimisson – Tor Kaasen

Hilmir Freyr hafði með góðum undirbúningi og hnitmiðaðri taflmennsku byggt upp vinningsstöðu. Þegar hér er komið sögu gat hann knúið fram sigur með 33. Rf5! Rxf5 (eða 33. … Rc6 34. Rxg7 Re5 35. Rf5 Rxg4 36. c4 ásamt – Kc3 o.s.frv.) 34. gxf5 Kb5 35. Kc1! Kc4 36. Kc2! og vinnur peðsendataflið.

33. Rxe4 f5 34. gxf5 Rxf5 35. c4 Re7 36. Kc3?

En nú var 36. Rc3! best og hvítur á vinningsstöðu.

36. … Kc6 37. Kd4 Rf5 38. Kd3 Re7 39. Rg3 g6 40. hxg6 Rxg6 41. Kd4 Re7 42. e4 Kb6 43. Ke5 Rc6+?

Nærtækast en eftir þetta vinnur hvítur þvingað. Hann varð að leika 43. … Kc7! sem gefur jafnteflisvon.

44. Kd6! Rxb4 45. c5 Kb7 46. e5 a5 47. Rf5 a4 48. e6 a3 49. e7 a2 50. e8(D) a1(D) 51. Db5+ Ka8 52. Dxb4 Df6+

53. Kc7!

Lykilleikur í úrvinnslunni. Svartur getur ekki hirt riddarann vegna máts á fimm stöðum.

53. … Df7+ 54. Kc6 De8+ 55. Kd5 Dg8+ 56. Ke5 Dh8 57. Kf4 Df6

Og nú er eftirleikurinn auðveldur.

58. De4 Ka7 59. De7 Dxe7 60. Rxe7 Kb7 61. Ke5 Kc7 62. Kd5 h5 63. Rf5 Kd7 64. c6 Kc7 65. Kc5

- og svartur gafst upp.