Umsögn SE Aðhald þýði að draga þurfi úr starfseminni á næsta ári.
Umsögn SE Aðhald þýði að draga þurfi úr starfseminni á næsta ári. — Morgunblaðið/Eggert
Fjölga þarf um 16 ársverk hjá Samkeppniseftirlitinu svo það verði í stöðu til að sinna lögbundnu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Kveðst eftirlitið hafa ítrekað vakið athygli stjórnvalda á þeim þrönga stakki sem því sé skorinn

Fjölga þarf um 16 ársverk hjá Samkeppniseftirlitinu svo það verði í stöðu til að sinna lögbundnu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Kveðst eftirlitið hafa ítrekað vakið athygli stjórnvalda á þeim þrönga stakki sem því sé skorinn. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár.

Í dag eru 26 ársverk hjá stofnuninni en í ítarlegri greiningu á mannaflaþörf til ársins 2026, sem fylgir umsögninni til fjárlaganefndar Alþingis, kemur fram að Samkeppniseftirlitið þurfi að hafa um 42 ársverk til ráðstöfunar til þess að geta sinnt öllum lögbundnum skyldum sínum með fullnægjandi hætti. Þá hafi eftirlitið um langa hríð bent á að það hafi þurft að forgangsraða verkefnum og átt í erfiðleikum með að uppfylla lögbundið hlutverk sitt. Aðhaldskrafa í fjárlagafrumvarpinu hafi í för með sér að eftirlitið muni þurfa að draga úr starfsemi sinni á næsta ári.

„Vegna forgangsröðunar verkefna hefur Samkeppniseftirlitið í hverfandi mæli getað sinnt rannsóknum á mögulegri misnotkun á markaðsráðandi stöðu og opinberum samkeppnishindrunum.

Ekkert svigrúm hefur verið til að sinna markaðsrannsóknum og sjálfstæðum athugunum á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi,“ segir m.a. í umsögninni.

Því er ennfremur haldið fram að fjárheimildir eftirlitsins hafi ekki þróast í takt við undirliggjandi raunkostnað og því fari fjarri að fjárheimildir eftirlitsins hafi þróast í takt við þróun atvinnulífsins og aukin verkefni sem því fylgja. Að mati Samkeppniseftirlitsins mæla engin rök með því að fjárheimildir verði lækkaðar, líkt og gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. omfr@mbl.is