Verslun Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fjölmiðlakona segir að hugmyndin að versluninni hafi kviknað árið 2018.
Verslun Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fjölmiðlakona segir að hugmyndin að versluninni hafi kviknað árið 2018. — Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is Verslunin Verona var opnuð þriðjudaginn síðastliðinn í Ármúla 17 en það er fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sem stendur á bak við hana ásamt eiginmanni sínum og vinafólki. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að opnunin hafi gengið vonum framar og viðtökurnar hafi verið frábærar.

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Verslunin Verona var opnuð þriðjudaginn síðastliðinn í Ármúla 17 en það er fjölmiðlakonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sem stendur á bak við hana ásamt eiginmanni sínum og vinafólki. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að opnunin hafi gengið vonum framar og viðtökurnar hafi verið frábærar.

„Það hefur verið mikið að gera frá því við opnuðum og þau Haukur Ingi og Astrid hafa staðið í ströngu á verslunargólfinu. Við erum virkilega þakklát fyrir þessi góðu viðbrögð og vinnum hörðum höndum að því að klára að koma öllum vörum inn á vefsíðuna okkar og svara fyrirspurnum sem við höfum fengið í gegnum netið,“ segir Ragnhildur.

Í vor var tilkynnt að Ragnhildur hefði ásamt eiginmanni sínum, Hauki Inga Guðnasyni, sem er menntaður í sálfræði og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, Martinu Vigdísi Nardini lækni og Jóni Helga Erlendssyni framkvæmdastjóra keypt rúma- og húsgagnaverslunina Duxiana og samhliða því tekið yfir rekstur verslunarinnar Gegnum glerið. Þær verslanir hafa nú verið sameinaðar í Verona.

Upplýstir kaupendur

Ragnhildur segir að það sé ánægjulegt hversu upplýstir viðskiptavinir séu sem koma í verslunina. Þeir viti mikið um vörurnar og séu búnir að lesa sér til um þær.

„Fólk mætir í verslunina með skýrar hugmyndir um hvað það vill. Það hefur líka komið okkur skemmtilega á óvart hversu mikið af ungu fólki kemur í verslunina og vill velja gæðavörur sem endast lengi, þá sér í lagi rúm sem eru hönnuð til að endast ævilangt,“ segir Ragnhildur.

„Við leggjum okkur fram við að selja fólki vörur sem eru hannaðar með sjálfbærni og góða endingu í huga. Vörur sem nýtast vel og eldast með eiganda sínum. Til okkar eru að koma viðskiptavinir að kaupa rúmföt og kodda sem hafa átt DUX-rúmin sín í tugi ára og þannig viljum við hafa það. Við hvetjum fólk til að hugsa um veskið og umhverfið og íhuga hvaða vörur henta best til langs tíma.“

Aðspurð hvernig hugmyndin að því að fara í verslunarrekstur kviknaði segir hún að það hafi verið í Verona á Ítalíu árið 2018. Þaðan hafi nafnið komið.

„Á þessum tíma ræddum við við vinafólk okkar hvort það væri ekki gaman að fara í verslunarrekstur. Við vildum leggja áherslu á verslun sem seldi gæðahönnun en vinafólk okkar er mikið smekkfólk og hefur mikinn áhuga á hönnun. Tækifærið kom síðan nokkrum árum síðar þegar við keyptum Duxiana og Gegnum glerið. Eftir það gerðist allt mjög hratt.“

Boða nýjungar

Ragnhildur segir að viðskiptavinir Duxiana sem hafa stundað viðskipti við verslunina í áraraðir hafi tekið mjög vel í breytingarnar og þær nýjungar sem nýir eigendur hafi innleitt.

„Við búum svo vel að það er læknir í eigendahópnum og við getum því reglulega boðið viðskiptavinum ráð frá lækni varðandi hvaða rúm henta þeim best. Martina hefur boðið upp á slíka ráðgjöf einu sinni og það fékk virkilega góð viðbrögð.“

Ragnhildur segir að það sé mikill styrkleiki hvað eigendahópurinn samanstandi af fólki úr ólíkum áttum með fjölbreytta reynslu.

„Það er svo frábært hvernig við sem komum að þessu setjum öll okkar svip á verslunina og svo erum við með mjög öflugan verslunarstjóra, Astrid, sem hefur verið með okkur í þessu frá upphafi og einnig sett sinn svip á verslunina.“

Spurð hvort það sé á döfinni að kynna fleiri nýjungar segir Ragnhildur að svo sé.

„Við erum að fá til okkar aðra sendingu að svokölluðum Xleep-kodda sem seldist upp hjá okkur. Hann er með smágormakerfi og einstakur sinnar tegundar. Vonandi kemur hann aftur í byrjun desember. Svo ætlum við að kynna íslenska hönnun á komandi ári og er það komið í ferli. Við stefnum á að vera frumleg og gera upplifun neytandans af versluninni okkar góða.“

Ragnhildur segir að meginmarkmið Verona sé að veita góða þjónustu og bjóða upp á gæðavörur.

„Það er langtímaverkefni að reka svona verslun og við munum halda áfram að byggja á þeim góða grunni sem forverar okkar lögðu. Við viljum eiga heiðarlegt og gott samband við viðskiptavini og bjóða upp á góða þjónustu,“ segir Ragnhildur að lokum.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir