Einn bandarískur vinur minn er að verða ansi hreint pirraður því maki hans hefur hertekið sjónvarpið í stofunni og situr límdur við fréttir, eða ekki-fréttir, frá Grindavík.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Fátt annað kemst að þessa dagana en yfirvofandi eldgos og að vonum eru fjölmiðlar að fylgjast vel með, enda mikið í húfi ef allt fer á versta veg. Ég er sérlegur áhugamaður um eldgos eftir síðustu þrjú stórfenglegu „túristagosin“ sem ég barði augum held ég alls níu sinnum. Eldgos er hreinlega það fallegasta sem náttúran getur boðið upp á. Nú eru þó heimili og atvinna fólks í hættu og spennan yfir því að fá að horfa á fallegt eldgos hverfur í skuggann af þeim staðreyndum. Enn er þó von að Grindavík sleppi við að fara undir hraun, þó skemmdir séu nú þegar orðnar töluverðar af völdum jarðhræringa. Þjóðin liggur öll á bæn.

Biðin og óvissan er kannski hvað verst. Sérfræðingar eru þráspurðir af fréttamönnum sömu spurninga: „Verður gos?“, „Hvenær verður gos?“ og „Hvar verður gos?“ Svörin eru misjöfn eftir dögum eða jafnvel klukkutímum. Bent er á hina og þessa staðina, hinar og þessar sviðsmyndirnar, hina og þessa tegund gosa. Stundum eru tvær fréttir á sömu vefsíðu sem stangast hvor á við aðra. Ekki er við sérfræðingana að sakast; þó að þeir viti mikið er það náttúran sjálf sem ræður hér för og hún getur verið ólíkindatól.

Hér á ritstjórninni er að sjálfsögðu fylgst með á mörgum skjáum og hvernig sem rýnt er í þær lifandi myndir, er enn ekkert að sjá þegar þetta er ritað. Það verður að viðurkennast að þetta er eins og að horfa á málningu þorna.

Erlendir miðlar fylgjast líka með og allir bíða eftir gosi. Undirrituð hefur fengið fjölmörg skilaboð frá vinum erlendis sem hafa áhyggjur og senda góðar kveðjur og ég sannfæri fólkið um að hér sé enn ekki farið að gjósa. Einn bandarískur vinur minn, sem margoft hefur komið til Íslands með kærasta sínum, er að verða ansi hreint pirraður því maki hans hefur hertekið sjónvarpið í stofunni og situr límdur við fréttir, eða ekki-fréttir, frá Grindavík. Hann sendi mér skilaboð um daginn með þessum orðum: „Omg, we have been watching bad Icelandic YouTube for like five days. No bloody eruption. Y'all need to get on it!“

Svo var það íslenska vinkonan sem sendi hálfsofandi skilaboð seint um kvöld og sló saman Suðurstrandarvegi og Reykjanesbrautinni og spurði eins og Bibba hefði gert forðum: „Heldurðu að hraun renni yfir Suðurlandsbraut?“

Því var fljótsvarað: „Nei, alveg örugglega ekki!“