Guðbjörg Helga Jónsdóttir
Guðbjörg Helga Jónsdóttir
„Þegar fólk hringir í 112 af vettvangi slysa er mikilvægt fyrir okkur sem erum á vakt að fá sem allra bestar lýsingar á staðháttum, aðkomu að slysinu og ástandi fólks. Allt viðbragð miðast við þær upplýsingar,“ segir Guðbjörg Helga Jónsdóttir, varðstjóri hjá Neyðarlínunni

„Þegar fólk hringir í 112 af vettvangi slysa er mikilvægt fyrir okkur sem erum á vakt að fá sem allra bestar lýsingar á staðháttum, aðkomu að slysinu og ástandi fólks. Allt viðbragð miðast við þær upplýsingar,“ segir Guðbjörg Helga Jónsdóttir, varðstjóri hjá Neyðarlínunni. Á 17 ára ferli sínum þar hefur hún tekið á móti miklum fjölda símtala frá vettvangi slysa. Í slíkum aðstæðum segir hún fumleysi allra sem að málum koma vera afar mikilvægt.

„Þau sem tilkynna um slys eru sum pollróleg en önnur í miklu uppnámi. Fyrsta verkefni okkar neyðarvarða í slíkum aðstæðum og símtölum er gjarnan að róa fólk og koma jafnvægi á hlutina. Þegar upplýsingar liggja fyrir er kallað eftir aðstoð, en misjafnt er hve lengi viðbragðsliðar eru á vettvang. Við biðjum því fólk á staðnum um að veita fyrstu hjálp og leiðbeinum oft í gegnum símann,“ segir Guðbjörg Helga og heldur áfram:

„Nýr möguleiki er að nú getum við sent tengingu í síma viðkomandi sem getur þá miðlað myndum til okkar. Með því er hægt að átta sig betur á aðstæðum. Myndefnið geta viðbragðsliðar séð og verið betur undirbúnir þegar á slysstaðinn kemur. Í raun eru þau sem hringja alltaf augu og eyru neyðarvarða áður en bjargir berast.“

Oft hefur verið lýst áhyggjum af því þegar vegfarendur aka fram hjá slysum án þess að aðhafast nokkuð. Hafa svo kannski samband nokkra stund eftir að frá er komið. Guðbjörg segir að í slíkum aðstæðum biðji neyðarverðir viðkomandi stundum um að snúa við til að geta gefið upplýsingar. Einnig að gefa upp nákvæma staðsetningu, enda þótt síminn gefi slíkt yfirleitt sjálfkrafa upp. „Skyndihjálparkunnátta er líka mikilvæg, eitthvað sem allir ættu að hafa,“ segir Guðbjörg Helga sem hefur mikla reynslu sem leiðbeinandi á því sviði.