Heiður Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, tók Ásgeir Sigurvinsson inn í Heiðurshöll ÍSÍ 2015. Ásgeir var útnefndur Íþróttamaður ársins 1974 og 1984.
Heiður Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, tók Ásgeir Sigurvinsson inn í Heiðurshöll ÍSÍ 2015. Ásgeir var útnefndur Íþróttamaður ársins 1974 og 1984. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1975 „Ég veit að það á eftir að gera stóra hluti í framtíðinni“ Tony Knapp landsliðsþjálfari um landsliðið

BAKSVIÐ

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árangur í íþróttum hefur oft glatt Íslendinga og stundum er sagt að karlalandsliðið í fótbolta hafi hreinlega bjargað geðheilsu landsmanna á öðrum áratug líðandi aldar með frábærum árangri í undan- og aðalkeppni Evrópumótsins 2016 og Heimsmeistarakeppninnar 2018. Áður höfðu reyndar undur og stórmerki gerst. Eftir 2:1-sigur á Austur-Þjóðverjum í undankeppni EM 1976 á Laugardalsvelli 5. júní 1975 þurfti þriggja hæða fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu daginn eftir til að vekja athygli á mikilvægi úrslitanna, en greint var frá leiknum á báðum útsíðum auk íþróttaopnu. „Stærsti dagur íslenzkrar knattspyrnu er þýzka stórveldið var að velli lagt í glæsilegum leik í gær“ var helsta fyrirsögn dagsins.

Leiksins í Reykjavík fyrir tæplega hálfri öld var beðið með mikilli eftirvæntingu eftir markalaust jafntefli við Frakkland skömmu áður og 1:1-jafntefli í Austur-Þýskalandi í október 1974, en í báðum tilvikum var talað um ævintýri. Morgunblaðið sagði frá því að erlendir fjölmiðlar „nefndu íslenska liðið hinn nýja „spútnik“ knattspyrnunnar“, en varað var við of mikilli bjartsýni í blaðinu á leikdegi og bent á að Austur-Þjóðverjar, sem hefðu orðið í 5.-6. sæti í nýliðinni Heimsmeistarakeppni, væru í fremstu röð knattspyrnuliða heims. „Eitt það bezta sem sézt hefur á Laugardalsvellinum.“

Tony Knapp landsliðsþjálfari sagði að landsleikurinn yrði sá erfiðasti umrætt sumar og endurtók í samtali við Morgunblaðið það sem hann sagði fyrir Frakkaleikinn. „Íslendingar eru lítið farnir að leika á grasi í sumar og eru ekki komnir í fulla æfingu.“ Ekki væri samt ástæða til svartsýni og varamennirnir væru ekki síður mikilvægir en þeir sem spiluðu allan leikinn.

Í íslenska liðinu voru Sigurður H. Dagsson, Gísli Torfason, Jón Pétursson, Marteinn Geirsson, Jóhannes Eðvaldsson, Hörður Hilmarsson (Karl Hermannsson 77. mín.), Guðgeir Leifsson, Ólafur Eggert Júlíusson, Ernst Elmar Geirsson (Matthías Hallgrímsson 85.), Ásgeir Sigurvinsson og Teitur Benedikt Þórðarson. Ónotaðir varamenn voru Árni Stefánsson, Björn Lárusson, Grétar Magnússon og Jón Gunnlaugsson.

Allir viðmælendur Morgunblaðsins spáðu Austur-Þjóðverjum sigri en í umsögn blaðsins um leikinn sagði að ef hægt væri að gagnrýna eitthvað væri það helst að íslenska liðið skyldi ekki skora fleiri mörk. „Á Íslandi er nú lið sem getur jafnvel boðið hinum beztu byrginn.“

Í fremstu röð

Í frásögn um leikinn sagði að Íslendingar hefðu haft betri tök á hraðanum og oft hreinlega yfirspilað mótherjana í fyrri hálfleik. Áhorfendur „hvöttu íslenzka liðið ákaflega og hafði það tvímælalaust mikil áhrif“.

Mörk Íslands voru af dýrari gerðinni. Fyrirliðinn Jóhannes Eðvaldsson gerði það fyrra með svokallaðri hjólhestaspyrnu eða bakfallsspyrnu á 12. mínútu og Ásgeir Sigurvinsson það seinna með sannkölluðu þrumuskoti eftir sendingu frá Sigurði Dagssyni markverði á 32. mínútu. „Það er örugglega langt síðan íslenskir áhorfendur hafa orðið vitni að öðru eins þrumuskoti,“ stóð í Mogganum. „Jóhannes Eðvaldsson átti einnig stórkostlegan leik í gær og markið sem hann skoraði var þannig að ekki er á færi nema afburða knattspyrnumanna að gera slíkt.“

Gestirnir skoruðu strax í byrjun seinni hálfleiks. „En þar með var líka saga stórveldisins öll.“ Ásgeir Sigurvinsson var nálægt því að bæta við þriðja markinu með skoti af 30 m færi á næstsíðustu mínútu leiksins en Austur-þjóðverjar sluppu með skrekkinn. „„Þetta eru ekki skot frá Ásgeiri, þetta eru högg,“ sagði Sigurður Dagsson íslenski landsliðsmarkvörðurinn eftir æfingu landsliðsins á dögunum,“ og var það áréttað í umsögninni.

Stemningin var frábær og áhorfendur stóðu lengi vel eftir leik og klöppuðu liðinu lof í lófa. „Íslenzka liðið sýndi í gærkvöldi þann bezta leik sem íslenzkt landslið hefur sýnt fyrr og síðar. Það var enginn veikur hlekkur í liðinu og baráttan gífurleg,“ stóð í Mogganum. Leikmönnum var hrósað í hástert og engum eins og Ásgeiri. „Hann hafði hreint ótrúlega yfirferð á vellinum, var í sókn og síðan kominn í vörn á næsta andartaki. Þá voru sendingar Ásgeirs vandaðar og nákvæmar, og markið sem hann skoraði var hreint stórkostlegt. Eftir að hafa séð Ásgeir leika á móti jafngóðum liðum og Frökkum og Austur-Þjóðverjum er óhætt að fullyrða að hann er að komast í fremstu röð knattspyrnumanna í heiminum.“

Tony Knapp sagðist hafa tekið áhættu og unnið. „Þessi sigur hlýtur að vera stærsti viðburðurinn í íslenzkri knattspyrnusögu,“ sagði hann við Morgunblaðið. „Þetta var stórkostlegur leikur,“ sagði Geir Hallgrímsson forsætisráðherra. „Krafturinn og baráttuviljinn hjá landsliðspiltunum var ótrúlegur.“ Ellert B. Schram, formaður Knattspyrnusambands Íslands, tók í sama streng. „Þetta er að mínu áliti mesta afrek íslenzkra knattspyrnumanna og „sensasjón“ í knattspyrnuheiminum.“

Barátta, vilji og sjálfstraust

Þýskaland varð heimsmeistari 1974 og tapaði aðeins einum leik, 1:0 á móti Austur-Þýskalandi með marki frá Jürgen Sparwasser. „Það undirstrikar styrkleika þeirra á þessum tíma,“ rifjar Ásgeir upp. „Þeir voru með hörkulið, en Tony Knapp var með einfalt og gott skipulag. Allir þurftu að skila sínu í vörn og svo var blásið til sóknar öðru hverju. Þetta voru mikil hlaup.“

Ásgeir bendir á að góður varnarleikur hafi skipt sköpum og hann hafi síðan verið aðalsmerki landsliðsins. Þegar best hafi gengið hafi liðið hverju sinni varist vel og verið gott í skyndisóknum. „Leikurinn breytti hugsunarhætti leikmanna og sjálfstraustið varð mun meira en áður. Þetta sýndi að hægt er að ná góðum úrslitum með góðum undirbúningi, baráttu, vilja og sjálfstrausti.“