Doja Cat kemur til dyranna eins og hún er klædd.
Doja Cat kemur til dyranna eins og hún er klædd. — AFP/Angela Weiss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún rífur úr sér annað augað sem fellur svo niður til heljar, sýslar með sver kjötstykki, þeysir um á risavöxnu grænu skrímsli, vangar við manninn með ljáinn og daðrar við sjálfan kölska. En umfram allt málar hún þó bæinn rauðan

Hún rífur úr sér annað augað sem fellur svo niður til heljar, sýslar með sver kjötstykki, þeysir um á risavöxnu grænu skrímsli, vangar við manninn með ljáinn og daðrar við sjálfan kölska. En umfram allt málar hún þó bæinn rauðan. Tónskýrendur eru á einu máli um að bandaríska tónlistarkonan Doja Cat sé að svara gagnrýnendum sínum, sem hafa haft sitthvað við hana að athuga á umliðnum árum og misserum, í ofursmelli sínum Paint the Town Red sem óhætt er að kalla eitt vinsælasta lag ársins, alltént til þessa. Það sat um tíma á toppi bæði bandaríska og breska vinsældalistans.

Öll þekkjum við merkingu orðatiltækisins að mála bæinn rauðan en Doja Cat fer með það í nýjar hæðir í laginu.

Yeah, bitch I said what I said

I’d rather be famous instead

I let all that get to my head

I don’t care, I paint the town red.

Þarna er hún klárlega að gefa höturunum fingurinn. Segja að þeir komi ekki lengur við kaunin á henni, hún haldi bara ótrauð sínu striki og skemmti sér í botn, burtséð frá því hvað hatararnir komi til með að hugsa og segja. Sumir hafa gengið svo langt, í ljósi þess hversu blóðugt myndbandið við lagið er, að halda því fram að Doja Cat sé í raun og sann að kalla dauða yfir alla sem eigi það skilið. Það að mála bæinn þýði sumsé að ganga milli bols og höfuðs á hyskinu. Þá erum við vitaskuld að tala myndmál. Ekki skal mat lagt á það hér.

Sjálf hefur Doja Cat verið borin saman við mykrahöfðingjann, í ræðu og riti, samanburður sem fór hreint ekki vel í hana. Í ljóðinu, sem hún samdi sjálf, segir ennfremur:

Mm, she the devil

She a bad lil’ bitch, she a rebel

She put her foot to the pedal

It’ll take a whole lot for me to settle.

Doja Cat var meðal annars legið á hálsi fyrir að hafa rakað af sér allt hárið fyrr á árinu og þar með breytt ímynd sinni. „Er þetta þitt Britneyjar-augnablik?“ var hún meðal annars spurð. Hún svaraði þeirri athugasemd fullum hálsi og sakaði viðkomandi um lágkúru og mannlega grimmd fyrir að vísa til andlegra veikinda starfssystur hennar Britneyjar Spears í þessu óviðeigandi samhengi. Sjálf hefði Doja Cat verið í góðu andlegu jafnvægi þegar skærin fóru á loft, hún hafi einfaldlega verið orðin leið á hárinu og fundið fyrir miklu frelsi á eftir. Þess utan hafi hún lengi unnið með hárkollur og það sé mun auðveldara þegar ekkert hár er fyrir á kollinum.

Doja Cat er 28 ára og heyrir til kynslóð listamanna sem vaxið hafa úr grasi á samfélagsmiðlum þar sem nándin við aðdáendurna og eftir atvikum hatarana er mun meiri en fyrri kynslóðir áttu að venjast. Mun meira er sem kunnugt er um tröll á samfélagsmiðlum en í fjöllunum.

Doja Cat lætur engan eiga inni hjá sér. Í samtali við tímaritið Time fyrir skemmstu komst hún svo að orði: „Mér finnst eins og að við öll séum að njóta rifrildisins á Twitter, subbuskaparins sem fylgir dónalegum ummælum og slíku. Sjálf hef ég gaman af því að henda mér þarna inn. Það er hluti af því hver ég er. Sumpart er ég orðin háð þessu. Það á við um marga aðra, þetta hefur orðið hluti af ferlinum.“

Stundum þykir mönnum fílterinn vanta eins og þegar Doja Cat snupraði aðdáanda sem sagði að hún væri vond fyrirmynd vegna þess hversu ung hún hefði byrjað að gangast undir fegrunaraðgerðir. „Éttu drjúgt og volgt prumpið úr mér,“ var svarið. Þarna hefur almannatengillinn ábyggilega verið á frívaktinni.

„Ég er mjög hvatvís, auk þess sem ég lít á þetta sem skemmtun fyrir fólkið sem les þetta eða horfir á. Mér er líka skemmt,“ sagði hún við Time.

Hætti í bransanum

Það á þó ekki alltaf við. Frægt var í fyrra þegar Doja Cat hótaði að hætta í tónlistarbransanum eftir orðaskak við aðdáendur sína í Paragvæ. Hún átti að koma fram á hátíð þar sem var aflýst vegna veðurs. Í staðinn fylktu aðdáendur hennar liði á hótelið sem hún dvaldist á í þeirri von að fá að berja gyðjuna sína augum. Doja lét hins vegar ekki sjá sig og fékk að launum yfir sig aurslettur fyrir dónaskap og almenn merkilegheit. Undan því sveið og kvaðst Doja í færslu á Twitter ekki sjá eftir neinu og upplýsti að hún væri hætt í bransanum. Við það stóð hún í heila tvo daga.

Doja Cat liggur ekki á skoðunum sínum. Þannig fer hún ekki í grafgötur með þá staðreynd að hún hafi fram að þessu verið að senda frá sér markaðs- og söluvæna tónlist. Það hafi á hinn bóginn leitt til þess að hún hafi komist þangað sem hún er. Á nýju plötunni, Scarlet, standi hún eigin eðli á hinn bóginn miklu nær. „Núna er ég að gera tónlist sem gerir mér kleift að tjá mig um það hvernig heimurinn verkar á mig … Heimspekin í verkum mínum hefur náð mun betur í gegn í seinni tíð vegna þess að haturs- og reiðimenning hefur verið mér innblástur,“ sagði hún í samtali við miðilinn The Line of Best Fit.

Doja Cat þykir í senn sérvitur og uppátækjasöm, eins og þegar hún mjálmaði sig gegnum heilt viðtal á rauða dreglinum í sumar. Já, við erum að tala um eiginlegt mjálm. Hún svaraði öllum spurningum með mjá eða mjá, mjá. Jafnvel mjá, mjá, mjá.

Umboðsmaður hennar, Gordon Dillard, segir í samtali við tímaritið Variety að skjólstæðingur sinn sé alltaf að troða upp, hvort sem það sé í samkvæmum eða á tónleikum. „Lesi hún bók er ég næsta viss um að það yrði gjörningur. Þannig er hún bara. Doja er Madonna okkar kynslóðar eða Lady Gaga, svo hátt getur hún spennt bogann. Við erum bara rétt byrjuð að gára vatnið.“

Jafnvíg á söng og rapp

Amala Ratna Zandile Dlamini, eins og Doja Cat heitir réttu nafni, fæddist í Los Angeles árið 1995 og ólst upp hjá einstæðri móður sem er grafískur hönnuður. Faðir hennar er Súlúmaður og leikari frá Suður-Afríku og fer tvennum sögum af samskiptum þeirra feðgina. Doja hefur sagt að hún sé ekki í neinu sambandi við föður sinn en hann aftur á móti haldð því fram að hann sé í fínu sambandi við hana.

Doja Cat vakti fyrst athygli fyrir tónlist sína á SoundCloud meðan hún var unglingur. Fyrsta platan, Amala, kom út 2018 og þrjár hafa komið síðan, Hot Pink (2019), Planet Her (2021) og Scarlet á þessu ári. Hún semur sjálf og þykir fjölhæf, jafnvíg á söng og rapp, auk þess sem Doja Cat þykir prýðilegur dansari.