Listamaðurinn Hekla Dögg Jónsdóttir og Markús Þór Andrésson sýningarstjóri.
Listamaðurinn Hekla Dögg Jónsdóttir og Markús Þór Andrésson sýningarstjóri. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það má líka kalla þetta töfra, þarna eru óskabrunnur og svið og alltaf er möguleiki á að eitthvað magnað gerist.

Yfirlitssýning á verkum Heklu Daggar Jónsdóttur var opnuð nú um helgina á Kjarvalsstöðum. Hún er sjöundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi.

„Hekla Dögg stendur fyrir ákveðna aðferðafræði sem er ný í samhengi þessara yfirlitssýninga, verk hennar eru nánast eins og gjörningar og hún vinnur með augnablikið,“ segir Markús Þór Andrésson sýningarstjóri. „Ferill Heklu Daggar spannar 30 ár og sjá má verk frá ýmsum tímum á sýningunni, en langflest eru þess eðlis að þau eru búin til fyrir sérstakar aðstæður og sérstök augnablik og svo þarf að blása lífi í þau upp á nýtt. Þetta er ekki eins og að fara á vinnustofu listmálara þar sem verkin eru í rekkum og eru svo dregin fram heldur eru þetta augnablik sem verða til og eru í ætt við tímatengda list eins og kvikmyndir, tónlist og leikhús.“

„Það er dásamlegt að fá þetta tækifæri en líka ögrun fyrir mig,“ segir Hekla Dögg um sýninguna. „Ég vinn gjarnan verk í samtali við aðstæður, tímann og það sem er að gerast í heiminum. Ég hef alltaf talið myndlist vera fréttamennsku. Það var skrýtið að þurfa allt í einu að fara að gramsa í gömlum fréttum og skoða hvort þær eigi erindi við samtímann.

Þetta hefur ekki verið auðvelt. Ég er vön að hugsa um hverja sýningu sem eitt ástand en núna þurfti ég að hugsa um sýningu sem samanstendur af mörgum ólíkum frásögnum sem verða að lifa saman. Ég get einungis sýnt brot úr sumum verkum því annars tækju þau yfir allan salinn. Þannig að þetta hefur verið áhugavert ferli og örugglega þroskandi fyrir mig.“

Spurð hvort hún sjái sjálf þróun í myndlist sinni segir hún: „Ég áttaði mig allt í einu á því að verk sem ég gerði kannski á árunum 2015- 2018 voru þróuð úr verkum sem ég gerði á árunum 1994-1996. Það er gaman að sjá þessa þræði tengjast.“

Samtal við samtímann

Sýningin nefnist 0° 0° Núlleyja. Um þann titil segir Hekla Dögg: „Í verkum mínum hef ég oft verið að vinna með staðsetningu okkar á hnettinum. Núlleyja er ímyndaður upphafsstaður á hnitakerfi jarðarinnar þar sem sólin kemur upp í kringum sex á morgnana og sest iðulega sex á kvöldin, öfugt við okkar síbreytilega sólsetur og sólarupprás.

Í samtímanum erum við stöðugt að tala um það hvaðan fólk kemur landfræðilega og hvar það eigi heima og hvar það megi vera. En ef maður hugsar um þetta þá eru öll þessi landamæri bara tilbúningur.

Hluti af sýningunni er verk sem heitir Svið og samanstendur af auðu sviði og við vitum ekki hvað er að fara að gerast þar. Það má hugsa sér þetta auða svið sem samtal við samtímann. Autt svið býður alltaf upp á möguleika.“

Stórar hugmyndir

„Það er gaman að sjá feril Heklu Daggar í samhengi. Þar er allt lagt undir fyrir augnablikið og skapaðar aðstæður sem margir myndu í dag kenna við núvitund. Það má líka kalla þetta töfra, þarna eru óskabrunnur og svið og alltaf er möguleiki á að eitthvað magnað gerist,“ segir Markús Þór.

„Allt frá fyrsta degi setur hún þessa hluti fram á mjög heimagerðan og skiljanlegan máta. Þetta eru stórar hugmyndir og þar eru töfrar og væntingar, óskir og draumar. Í útfærslunni er síðan ákveðin föndur- eða handverkshugsun sem kallast á við hina stóru óútskýranlegu þætti tilverunnar og verkin eru sett fram með hverfulum hætti svo úr verður mjög fallegt samspil. Um verkin mætti segja að þau séu berskjölduð og auðmjúk en um leið aðlaðandi því þau eru ekki yfirþyrmandi, þau bjóða manni til sín.

Maður tengir auðveldlega við verkin og hrífst af þeim, eins og stóra snjóhúsinu sem er brotið saman úr pappír eða stóra baktjaldinu með marmorera-pappír, eins og finnst í saurblöðum skáldsagna, og manni dettur í hug að maður sé kominn inn í óskrifaða skáldsögu. Þarna er allt fullt af leik sem mér finnst mjög gefandi og skemmtilegt.“