Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Þetta góður gripur er. Gríðar fjöldi manna hér. Þarna finnast víf og ver. Velflestir þau hafa'á sér. Þá er að reyna við gátuna, segir Harpa á Hjarðarfelli: Hér er þarfaþingið nú

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Þetta góður gripur er.

Gríðar fjöldi manna hér.

Þarna finnast víf og ver.

Velflestir þau hafa'á sér.

Þá er að reyna við gátuna, segir Harpa á Hjarðarfelli:

Hér er þarfaþingið nú.

Þing eru haldin víða.

Í þingum eru þessi hjú.

Þing má láta bíða.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Víst er góður gripur þing.

Geysi fjölmennt er hér þing.

Ástarmótin eru þing.

Eru kynfærin svo þing.

Þá er limra:

Til Þingvalla þrenningin skundar

og þar um framhaldið grundar

á samstarfi sínu

sérdeilis fínu

og full af sáttahug fundar.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Dagurinn af djúpi rís,

drótt af svefni vakna kýs,

sól í gegnum skýin skín,

í skyndi fæddist gátan mín:

Þessi maður þykir smár.

Þetta getur verið sár.

Líka blásinn belgur er.

Býsna krepptur þessi ver.

„Dettur fátt í hug“ eftir Indriða Þorkelsson á Fjalli:

Dettur hugann ekkert í

úr þeim miklu hæðum

þegar ég undir þaki bý

þó að rigni gæðum.

Enn yrkir hann og nú „Flest fallvalt“:

Ljóminn, sem á loftið brá,

lendir í myrkra kverkum:

Sá er dauðans dómur á

Drottins snilldarverkum.

Alltaf er gott að rifja upp stökur Páls Ólafssonar:

Að launa hvað þú laugst á mig

Loðmfirðinga-rógur!

hrykki ekki' að hýða þig

Hallormsstaða-skógur.

Og:

Illa fenginn auðinn þinn

áður en lýkur nösum

aftur tínir Andskotinn

upp úr þínum vösum.

Páll kvað undir predikun í Heydalakirkju:

Að heyra útmálun Helvítis

hroll að Páli setur;

eg er á nálum öldungis

um mitt sálartetur.