Gengjastríð valda skelfingu og ótta í Svíþjóð og sums staðar þora foreldrar varla að hleypa börnum sínum út

Ekki eru nema nokkur ár síðan veist var að þeim sem voguðu sér að halda fram að í Svíþjóð væru glæpagengi orðin landlæg og Svíar hefðu farið alvarlega út af sporinu í innflytjendamálum. Nú vekja fréttir af gengjastríðum og börnum undir vopnum ekki mótmæli. Nær væri að segja að þær væru hversdagslegar.

Samkvæmt upplýsingum frá sænsku lögreglunni hafa 48 manns verið skotnir til bana og 324 skotárásir verið framdar í Svíþjóð það sem af er þessu ári. Árið 2016 voru sjö skotnir til bana í landinu. Gengin eru einnig farin að nota handsprengjur og dínamít. Á þessu ári eru skráð 139 sprengjutilfelli.

Ofbeldið er orðið þannig að sums staðar óttast fólk að vera á ferli. Í frétt frá veitunni AFP var sagt frá Thomas Cervin, kennara sem býr í Uppsölum. Nótt eina í september vaknaði hann við skothríð. Árásin beindist að nágranna hans, tengdamóður eins alræmdasta glæpaforingja Svíþjóðar, Rawa Majid. Hann er kallaður kúrdíski refurinn og er foringi glæpagengisins Foxtrot. Hana sakaði ekki í árásinni.

Majid er 37 ára gamall kúrdískur Svíi, sem kom með móður sinni frá Írak og ólst upp í Uppsölum. Að sögn lögreglu hefur hann gert Foxtrot að umsvifamesta eiturlyfjahring Svíþjóðar með því að bjóða öðrum gengjum byrginn og sölsa undir sig yfirráðasvæði þeirra. Hann mun stjórna glæpagenginu frá Tyrklandi þar sem hann hefur dvalið frá því að hann lauk við að afplána dóm fyrir eiturlyfjamisferli árið 2018.

„Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri tengd honum,“ hafði AFP eftir Cervin. „Einmitt þetta vekur hræðslu svo margra, þeir sem eru flæktir í þetta eiga vini og ættingja út um allt.“

Felipe Estrada Dorner er prófessor í glæpafræðum við Stokkhólmsháskóla. Hann segir að ástandið sé orðið stjórnlaust vegna þess að farið sé að ráðast á þá sem eru gengjafélögum nákomnir þótt þeir hafi hvorki neitt með gengin né glæpi að gera. „Það er afgerandi breyting frá því sem áður var,“ segir Dorner.

Einnig er sagt að miskunnarleysið sé orðið meira en áður. Íþróttaþjálfari í Rynkeby, sem er úthverfi í Stokkhólmi, segir að foreldrar hafi áhyggjur af börnum sínum og leyfi þeim bara að fara út til að fara í skólann eða á æfingar: „Þeir óttast að þau lendi í eldlínunni.“

Einnig eru miklar áhyggjur af því að gengin fá til sín yngri og yngri börn. Börn eru bæði fórnarlömb og gerendur.

Skarpnack er annað úthverfi Stokkhólms þar sem mikið hefur verið um skot- og sprengjuárásir. Í september fannst 13 ára drengur úr hverfinu látinn úti í skógi. Hann hafði verið skotinn í höfuðið. Litlar upplýsingar hafa verið veittar um morðið en lögregla segir það tengjast átökum gengja.

Gengin reyna sérstaklega að fá börn yngri en 15 ára til liðs við sig því að ekki er hægt að setja þau í fangelsi. Þau eru notuð til að sendast með eiturlyf og líka til að fremja morð. Anders Thornberg, ríkislögreglustjóri í Svíþjóð, segir að börn gefi sig fram við gengin og bjóðist til að drepa fyrir þau. Gengin nota að sögn lögreglu snjallforrit þar sem hægt er að finna lista yfir verkefni og hvað sé borgað fyrir þau. Börnin kunna ekki með skotvopn að fara og oft verða saklausir vegfarendur fyrir skotum.

Í fyrra rannsakaði lögreglan í Svíþjóð 336 ungmenni á aldrinum 15 til 17 ára fyrir að hafa ólögleg skotvopn í fórum sínum. Fjöldinn hefur áttfaldast á tíu árum.

Þeir sem tala um óöldina í Svíþjóð eru ekki lengur sakaðir um að vera með annarleg sjónarmið. Ástandið er farið að hafa áhrif á kosningar. Ulf Kristersson forsætisráðherra leiddi flokk sinn Moderaterna til sigurs í kosningunum í fyrra með því að kenna sósíaldemókrötum um vargöldina vegna gengjanna. „Ekkert annað land í Evrópu hefur þurft að glíma við neitt þessu líkt,“ segir Kristersson og bætir við: „Sænsk löggjöf var ekki sniðin að gengjastríðum og barnahermönnum. En við ætlum að breyta því núna.“

Eitt af því sem talað er um er að herða refsingar. Stjórn Kristerssons er byrjuð að herða refsingar og hann talar um að taka upp danskar refsingar fyrir sænska glæpi. Þar vísar hann til þess að í Danmörku séu refsingar tvöfalt þyngri séu glæpir framdir á vegum gengis. Einnig hafa verið veittar auknar heimildir til eftirlits. Eftir 1. október getur lögreglan í Svíþjóð farið fram á heimild til rafræns eftirlits ef grunur leikur á aðild að skiplagðri glæpastarfsemi. Áður varð að tiltaka glæpinn.

Daniel Bergstrom, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir að menn hefðu átt að sjá hvað var í vændum og grípa til þeirra aðgerða, sem nú væri verið að ráðst í, fyrir tíu árum.

Hér á landi er sú staða blessunarlega ekki að börn vilji komast á mála hjá glæpagengjum til að drepa og myrða. Ekki er þó langt síðan hér var framið morð sem tengdist átökum glæpagengja. Í upphafi nóvember var framin skotárás í Úlfarsárdal, úthverfi í Reykjavík sem síst hefur yfir sér háskalegra yfirbragð en Rynkeby. Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­reglu, sagði í viðtali við mbl.is að grunur léki á að árásin tengdist „útistöðum tveggja hópa“.

Hér á landi þarf að takast á við þessi mál með augun opin svo að við stöndum ekki uppi einn góðan veðurdag og iðrumst þess andvaraleysis að hafa ekki gripið til aðgerða fyrir tíu árum.