Minning Viðbragðsliðar þegar komið var saman í Fossvogi í fyrra. Árviss atburður sem er orðinn að góðri hefð.
Minning Viðbragðsliðar þegar komið var saman í Fossvogi í fyrra. Árviss atburður sem er orðinn að góðri hefð. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægt er að almenningur þekkki til hjálpar í viðlögum og að viðbrögð séu rétt þegar komið er að umferðarslysum, þannig að fyrstu bjargir megi veita. Þetta er áherslumál á alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa sem er á morgun, sunnudaginn 19

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að almenningur þekkki til hjálpar í viðlögum og að viðbrögð séu rétt þegar komið er að umferðarslysum, þannig að fyrstu bjargir megi veita. Þetta er áherslumál á alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa sem er á morgun, sunnudaginn 19. nóvember. Um langa hríð hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað þriðja sunnudag í nóvember ár hvert umferðarslysum og þeim sem þar látast eða slasast. Atburður þessi er fyrir löngu orðinn fastur í sessi og á morgun kl. 14 verður minningarathöfn við þyrlupallinn hjá Landspítalanum í Fossvogi í Reykjavík.

1.608 látist í umferðinni á Íslandi

Innanríkisráðuneytið sér um skipulagningu dagsins og í tilkynningu þess segir, að oft gleymist að huga að þeim sem koma að slysum og þurfa á ögurstundu að hlúa að og bjarga við erfiðar aðstæður. Nú sé ætlunin að vekja athygli á þessu fólki og mikilvægi skyndihjálpar. Þarna sé til mikils að vinna.

Frá því að fyrsta banaslys í umferð á Íslandi var skráð árið 1914 hafa samtals 1.608 manns látist. Enn fleiri hafa slasast, margir mjög alvarlega. Á heimsvísu er veruleikinn sá að 3.600 manns látast í umferðarslysum dag hvern, eða rúmlega 1,3 milljónir manna á ári. Ótölulegur fjöldi slasast.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, setur minningaathöfnina í Fossvogi á morgun. Einnig flytja tölur þeir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Þá mun Inda Hrönn Björnsdóttir fjalla um sína reynslu, en hún hefur starfað sem neyðarvörður á Neyðarlínunni frá 2017. Þar hefur hún tekið á móti fjölda símtala er varða alvarleg umferðarslys og ætlar að veita innsýn í hvernig er að aðstoða fólk sem lendir í eða er fyrst á vettvang í slíkum aðstæðum. Inda Hrönn hefur sömuleiðis verið aðstandandi fólks sem á sínum tíma lenti í mjög alvarlegu slysi.

Hitamælir umferðarmála

Slysaskiltið svonefnda sem stendur við Suðurlandsveg í Svínahrauni, skammt ofan við Draugahlíðarbrekku, getur talist einskonar hitamælir ástands umferðarmála. Á því er vegfarendum til áminningar sýndur fjöldi þeirra sem látnir eru í umferðinni á hverjum tíma ársins. Núna stendur þessi tala í 7 og hækkar vonandi ekki í bráð.

Á síðasta ári – 2022 – létust 9 manns í umferðinni á Íslandi og 181 slasaðist alvarlega. Fjöldi látinna árið á undan var hinn sami en lítið eitt fleiri slösuðust. Dauðaslysum í umferðinni hefur annars fækkað verulega á síðustu árum. Oft voru þau nærri 20 en sum árin fleiri; 32 árið 2000 og 31 árið 2006.