Kvöldstund Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir röktu garnirnar úr Dan Brown í Fríkirkjunni á fimmtudag.
Kvöldstund Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir röktu garnirnar úr Dan Brown í Fríkirkjunni á fimmtudag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Bandaríski spennusagnahöfundurinn Dan Brown er staddur hér á landi vegna bókmenntahátíðarinnar Iceland Noir. Þegar Morgunblaðið náði tali af honum í vikunni hafði hann farið í þyrluflugferð yfir jökla landsins og rætt við íslenska rithöfunda og aðra gesti hátíðarinnar. Óhætt er að segja að Brown hafi verið hæstánægður með heimsóknina sem er reyndar síður en svo sú fyrsta hjá honum.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Bandaríski spennusagnahöfundurinn Dan Brown er staddur hér á landi vegna bókmenntahátíðarinnar Iceland Noir. Þegar Morgunblaðið náði tali af honum í vikunni hafði hann farið í þyrluflugferð yfir jökla landsins og rætt við íslenska rithöfunda og aðra gesti hátíðarinnar. Óhætt er að segja að Brown hafi verið hæstánægður með heimsóknina sem er reyndar síður en svo sú fyrsta hjá honum.

„Ég kom tvisvar fram á hátíðinni og þetta var afskaplega skemmtilegt. Ragnar og Yrsa eru orðin mjög góðir vinir mínir og ég hef hitt fleira fólk, til dæmis Áslaugu ráðherra,“ segir Brown. Vísar hann þar til Ragnars Jónassonar og Yrsu Sigurðardóttur, hinna vinsælu spennusagnahöfunda okkar sem hafa haft veg og vanda af skipulagningu Iceland Noir frá upphafi. Ragnar og Yrsa spurðu Brown einmitt spjörunum úr á sérstökum viðburði í Fríkirkjunni í Reykjavík á fimmtudagskvöldið. Meðal viðfangsefna voru bækur Dans Brown og bíómyndir sem hafa verið gerðar eftir þeim, ný bók hans sem væntanleg er á næsta ári og það hvernig hann skrifar bækur sínar. „Ég reyni bara að svara heiðarlega,“ segir hann spurður um samræður rithöfundanna þriggja.

Alls stoppar Dan Brown í tíu daga hér á landi að þessu sinni. „Þetta er í fimmta skipti sem ég kem til Íslands. Ég elska það, bókstaflega,“ segir hann glaður í bragði. „Að þessu sinni er ég búinn að fara á Tröllaskaga og á Depla Farm þar sem ég fór í þyrluflug yfir jöklasvæðið. Svo ætla ég að fara á vélsleða og skoða íshelli.“

Ástarfundir á Íslandi

Rithöfundurinn er ekki einn á ferð hér því eins og kom fram á mbl.is í gær mætti hann með unnustunni Judith Pietersen á opnunarhóf Iceland Noir. Þau eiga góðar minningar frá fyrri heimsóknum hingað. „Á covid-tímanum hittumst við unnusta mín hér nokkrum sinnum. Hún er hollensk og á þessum tíma komst ég ekki inn í heimaland hennar og hún ekki í mitt. Ísland varð því leyniáfangastaður okkar og við urðum ástfangin af landinu. Við erum mjög þakklát fyrir alla gestrisnina sem okkur hefur verið sýnd hér.“

Heimsóknin nú er þó óvenjuleg vegna eldvirkninnar á Reykjanesskaga. Kveðst Brown hafa mikla samúð með íbúum Grindavíkur. „Mögulegt eldgos hefur auðvitað haft áhrif á heimsókn mína en ekki eins mikið og það hefur haft áhrif á aumingja fólkið sem býr á þessu svæði. Ég sendi hlýjar kveðjur til fólksins í þorpinu sem hefur verið rýmt og mun kannski aldrei komast aftur heim til sín. Það er augljóslega mjög sorglegt allt saman. Ef það hefur áhrif á ferðalag mitt þá er það óþægilegt en það er ekkert í samanburði við það sem þetta fólk þarf að ganga í gegnum. Móðir náttúra býr yfir miklum kröftum og stundum minnir hún okkur á hver það er sem ræður,“ segir hann og bætir við að stórkostlegt hafi verið að fylgjast með Íslendingum rétta Grindvíkingum hjálparhönd og umvefja þá hlýju. „Enda hefur þetta fólk kannski bæði misst heimili sín og fyrirtæki, lífsviðurværi sitt.“

Þá segir hann að Bláa lónið sé ótrúlegur staður og hræðilegt væri ef eitthvað kæmi fyrir það. „Ég vona það besta. Ég vona að hraunið verði til friðs, hvar sem það kann nú að birtast.“

Margslungin bók væntanleg á næsta ári

Dan Brown er einn vinsælasti rithöfundur heims. Hann hefur selt yfir 200 milljónir bóka og þær hafa verið gefnar út á 56 tungumálum um heim allan. Þegar hann fer úr sælunni á Íslandi tekur við vinnutörn heima. Á næsta ári er von á nýrri bók um Robert Langdon og ævintýri hans. „Hún er næstum því tilbúin. Ég á kannski um það bil mánuð eftir.“

Og aðdáendur Da Vinci lykilsins og annarra bóka Dans Brown eiga von á góðu. „Ég myndi segja að þetta væri metnaðarfyllsta Langdon-bókin til þessa. Það hefur tekið tímann sinn að skrifa hana því söguþráðurinn er svo margslunginn,“ segir höfundurinn sem vill þó lítið gefa upp um sögusviðið. „Hún er um flókið en heillandi viðfangsefni sem hefur krafist mikilla rannsókna og undirbúnings.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon