Aukin eldvirkni Nýr flugvöllur í Hvassahrauni er meðal áformaðra mannvirkja suður með sjó. Borgarstjóri segir skjálfta ekki útiloka byggð.
Aukin eldvirkni Nýr flugvöllur í Hvassahrauni er meðal áformaðra mannvirkja suður með sjó. Borgarstjóri segir skjálfta ekki útiloka byggð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgina reiðubúna til að aðstoða Grindvíkinga við að finna nýtt húsnæði, ef þörf krefur

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgina reiðubúna til að aðstoða Grindvíkinga við að finna nýtt húsnæði, ef þörf krefur. Þeir verði auðvitað að leiða för í þessu efni.

Dagur flutti í gær árlega ræðu um uppbyggingu í borginni. Þá síðustu sem borgarstjóri, a.m.k. í bili.

Við þau tímamót var rétt að spyrja Dag hvernig borgin hefði breyst í borgarstjóratíð hans.

„Reykjavík hefur auðvitað breyst mikið undanfarin tíu ár enda hefur hún þróast inn á við og áhersla verið lögð á græna þróun borgarinnar í heild. Við höfum ekki aðeins verið að fjölga íbúðum mikið, heldur áhugaverðum stöðum til að búa á, með aðgengi að grænum svæðum og lífsgæðum sem við viljum stefna að og tryggja öllum borgarbúum aðgengi að.“

Dagur segir borgina hafa breyst að því leyti að í staðinn fyrir að félagslegt húsnæði sé byggt á einum stað þá fléttist það nú inn í uppbyggingu allra reita. Lögð hafi verið áhersla á samstarf við óhagnaðardrifin félög, þ.m.t. hjá stúdentum, Bjargi, Búseta og Brynju.

Alþjóðlegar áherslur

„Þannig að þessir aðilar hafa ásamt hefðbundnum verktökum allir verið á fleygiferð við að fjölga íbúðum. Við höfum því aukið mikið uppbyggingarmagn og uppbyggingarhraða í borginni á undanförnum árum en það eru ekki aðeins mínar áherslur heldur áherslur borgarstjórnar og í raun alþjóðlegar áherslur sem fóru að rata í aðalskipulag Reykjavíkur fyrir tíu árum. Síðan gerist það að byggingariðnaðurinn áttar sig á hinni gríðarlegu eftirspurn sem er eftir þéttri og áhugaverðri borgarbyggð og þeim lífsgæðum sem slík byggð skapar og þess vegna förum við að sjá sífellt betri og flottari verkefni út frá grænum lausnum eins og við sáum dæmi um á kynningunni hér.“

– Morgunblaðið hefur síðustu daga fjallað um hugsanlega húsnæðisþörf Grindvíkinga í samtölum við framkvæmdastjóra Kadeco og forstjóra HMS. Rætt er um hvernig þeirri þörf verður mætt og hvort önnur sveitarfélög geti hlaupið undir bagga. Hvernig sérðu það fyrir þér?

„Reykjavíkurborg er sannarlega tilbúin til að koma að öllum verkefnum sem óvissuástandið á Reykjanesi leiðir af sér og auðvitað sérstaklega í Grindavík. Það er þó mikilvægt að almannavarnir skipti verkum og tryggi yfirsýn.

Gefur ekki rétta mynd

Mér fannst sjálfum magnað hversu fáir nýttu sér fjöldahjálparstöðvarnar sem settar voru upp af almannavörnum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, en ég held að það gefi ekki að öllu leyti rétta mynd af stöðunni. Því að mörg voru í sumarhúsum eða hjá ættingjum eða vinum, í húsnæði sem er ekki nægilega gott þegar til lengdar lætur þótt við séum öll auðvitað mjög þakklát í garð þeirra sem skotið hafa [skjólshúsi] yfir Grindvíkinga.

Ef þetta ástand varir um lengri tíma held ég að við eigum að varast lélegar skyndilausnir heldur horfa fyrst til þess húsnæðis sem til er og þess sem er í byggingu og byggist á vönduðu skipulagi. Það er vitað að ýmsir eiga fleiri en eina íbúð og sumar þeirra eru kannski á lausu. Sumar sem eru í skammtímaleigu gætu kannski orði hluti af lausninni. Við vitum að þær hlaupa ekki á hundruðum heldur jafnvel þúsundum. Það eru síðan sérstakar aðstæður á byggingarmarkaði.

Það er að hægjast á frágangi og framgangi margra verkefna, sérstaklega annars staðar en í Reykjavík. Það væri áhugavert að skoða hvernig hægt er að hraða verklokum og þannig koma hundruðum og þúsundum íbúða hraðar inn á markaðinn á næstu árum, fyrir alla í húsnæðisleit, ekki aðeins Grindvíkinga. Það má líka finna leiðir til að fjármagna verkefni sem eru í pípunum, og þar sem skipulag er klárt, á hagstæðari hátt. Það þarf því að setjast yfir þetta verkefni en ég tel þó ótímabært að slá því föstu að Grindvíkingar séu að fara að flytja eða vilji flytja sinn góða bæ.

Komin fram úr sér

Ég held að umræðan sé að hluta til farin svolítið fram úr sér. Það er lykilatriði að Grindvíkingar verða sjálfir að vera leiðandi í þessari umræðu um valkosti. Ég tel að lykilverkefni stjórnvalda sé að tryggja réttindi og fjárhagslega stöðu Grindvíkinga og að hvorki við sem stjórnmálamenn né aðrir eigum að hlaupa til með lausnir sem hugsanlega eru alls ekki þær sem Grindvíkingar sjálfir sjá fyrir sér til skamms eða langs tíma. Þótt margt sé sett fram og sagt af góðum hug þá verða Grindvíkingar að fá að stjórna ferðinni og þá er ég í raun ekki að tala um fulltrúa þeirra heldur hverja og eina fjölskyldu.“

– Þannig að þú sérð til dæmis ekki fyrir þér að byggja nýtt Breiðholt fyrir Grindvíkinga?

„Ég er ekki viss um að Grindvíkingar myndu vilja það eða að það væri skynsamlegt. Sagan geymir mörg dæmi af misheppnuðum verkefnum af því tagi. Spyrjum fyrst: hvað vilja Grindvíkingar og vilja þau öll það sama? Og munum svo eftir Vestmannaeyjagosinu. Þá sögðu ýmsir að það yrði ekki aftur búið í Eyjum. Það var nú sannarlega ekki niðurstaðan og síðustu 50 ár sanna það.“

Kalla eftir hættumati

– Spáð er jarðhræringum á Reykjaneskaga, jafnvel um aldir. Þarf að taka það meira til greina við skipulag á stór-höfuðborgarsvæðinu?

„Ég er formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins og við höfum kallað eftir hættumati fyrir Reykjanesið sem er auðvitað í túnfæti höfuðborgarsvæðisins. Því er nú lokið og hægt að horfa til þess. Þá hefur Veðurstofan unnið að áhættumati fyrir höfuðborgarsvæðið síðustu misserin. Því að Ísland allt er auðvitað því marki brennt að hér er eldvirkni. Það færir okkur jarðhitann og ýmis lífsgæði en líka hættur sem við þurfum að vita sem mest um. Því tel ég eðlilegt að það sé hluti af því að huga að skipulagi til næstu ára að ekki sé talað um næstu 50 eða 100 ár að velta slíku áhættumati fyrir sér.“

– Þýðir það að út þessa öld sé kannski óraunhæft að byggja jafn mikið upp næst skjálftasvæðunum og að var stefnt heldur verði uppbyggingin að fara fram nær höfuðborgarsvæðinu?

„Nei, það er víða von á skjálftum á suðvesturhorninu. Það þarf ekki að útiloka byggð. Hætta á hraunrennsli og náttúrúvá er hins vegar eitthvað sem eðlilegt er að horfa til við undirbúning skipulags og innviða. Við þurfum að taka inn í myndina að nýtt gostímabil geti verið hafið á Reykjanesi,“ segir Dagur að lokum.