Einbeittur Mikael Máni sýnir á þriðju plötunni að leiðin liggur enn upp á við.
Einbeittur Mikael Máni sýnir á þriðju plötunni að leiðin liggur enn upp á við. — Ljósmynd/Andrea Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson kom eins og stormhviða inn á tónlistarsviðið árið 2018 með fyrstu plötu sinni Bobby – þemaplötu um líf skákmeistarans Bobbys Fischers

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson kom eins og stormhviða inn á tónlistarsviðið árið 2018 með fyrstu plötu sinni Bobby – þemaplötu um líf skákmeistarans Bobbys Fischers. Platan vakti athygli innanlands sem utan enda afskaplega þroskað byrjandaverk og öllum ljóst að hér væri snjall og skapandi listamaður á uppleið.

Önnur platan, Nostalgia Machine (2021), þandi hljóðheim Mikaels Mána enn frekar út og bætti svo um munaði við höfundarverkið en platan var tekin upp af Matt Pierson sem hefur meðal annars unnið með bandarísku gítarhetjunni Pat Metheny. Nostalgia Machine var hampað af Cerys Matthews á BBC Radio 6, var valin djassplata ársins hér á Morgunblaðinu auk þess sem hún var tilnefnd til Kraumsverðlaunanna.

Nú er þriðja breiðskífan, Innermost, komin út og á henni er Mikael Máni aftur kominn í þema-gírinn. Gír sem hefur skilað mörgum listamanninum út í næsta skurð.

Morgunblaðið náði tali af Mikael fyrr í vikunni þar sem hann var staddur á Schiphol-flugvelli í Amsterdam á leiðinni til Íslands en þar í borg hefur hann búið með hléum síðan 2014 þegar hann fór aðeins 19 ára gamall út í tónlistarnám.

Hugleiðingar um æskuna

Að BA-námi loknu tók við meistaranám en eftir eitt ár fannst honum hann hafa kreist allt sem hann gat úr náminu og ákvað því að láta gott heita.

„Það var æðislegt að fara út í nám svona ungur. Ég stefndi alltaf að því að fara út að læra þannig að þegar að því kom var það ekki svo stórt stökk. Stökkið kom þegar ég byrjaði í masternum. Þetta er evrópskur master þannig að hver önn er í nýrri borg og það hentaði mér ekki.“

Síðan hefur hann verið með annan fótinn á Íslandi og hinn í Hollandi þar sem hann á nána vini og afdrep til að semja – til dæmis þau lög sem finna má á Innermost. Við byrjum á að spyrja hann út í þemað.

„Þetta eru hugleiðingar um æskuna og áhrif tónlistar á táningsárin. Hvernig ákveðnir listamenn og lög mótuðu mig sem persónu og gerðu mig að þeim tónlistarmanni sem ég er í dag,“ segir hann öryggið uppmálað og ég sannfærist.

Í tónsmíðaferlinu og í útsetningum kafaði Mikael ofan í tónlistina sem hann hlustaði mest á á þeim árum, oft á löngum strætóferðum í og úr gagnfræðaskóla og síðar menntaskóla.

„Led Zeppelin, Jimi Hendrix, Bob Dylan og Debussy. Þetta voru mínar hetjur þá og eru enn í dag.“

Áttirðu góða æsku?

„Ég var mjög glaður krakki en svona upp úr 10 ára byrjaði ég að finna fyrir mikilli reiði. Var mikið reiður allt þar til ég varð 12 ára þegar frændi minn gaf mér gítar. Ég var þá þegar í píanónámi og leist í fyrstu ekki á blikuna að þurfa að bæta öðru hljóðfæri við mig en mjög fljótlega fann ég að gítarinn hjálpaði mér að slaka á og vinna úr þessari reiði. Þá varð ekki aftur snúið.“

Öll lögin á Innermost eru eftir Mikael að undanskildu einu tökulagi eftir Sykurmolana, „Ammæli“.

„„Ammæli“ var lengi vel mest spilaða lagið á iPodinum mínum á þessum árum. „Little Wings“ með Hendrix kom þar á eftir, minnir mig.“

Dreymdi upptökustjóra

Upptökum á Innermost stjórnaði gítarleikarinn Hilmar Jensson en Hilmar var kennari Mikaels á sínum tíma þegar hann stundaði nám í FÍH og lengi vel var aðalgítar Mikaels gítar sem Hilmar átti áður.

„Það stóð svo sem ekkert til að fá Hilmar til að stjórna upptökum enda hefur hann ekki verið að taka slíkt að sér fyrir utan að hann stjórnar auðvitað upptökum á sínum eigin plötum. En eina nóttina dreymir mig draum þar sem við Hilmar erum að vinna saman í hljóðveri og þessi draumur sat í mér lengi. Á endanum ákvað ég að bera þetta undir Hilmar sem tók strax vel í verkefnið.“

En þar með er ekki öll sagan sögð því sérstakur útgáfuviðburður fer fram í Smekkleysu Plötubúð á Hverfisgötu kl. 17-19 í dag þar sem þeir Mikael Máni og Hilmar leika lög af plötunni ásamt eldra efni í nýjum útsetningum.

Formlegir útgáfutónleikar verða svo haldnir sunnudaginn 7. janúar kl. 17 í Hannesarholti með kvintett Mikaels sem spilaði inn á plötuna en hann skipa Magnús Trygvason Eliassen á trommur, Henrik Linder á bassagítar, Lilja María Ásmundsdóttir á píanó og metalafón og Tómas Jónsson á hljómborð.

Höf.: Höskuldur Ólafsson