„Ég er mjög hamingjusöm með lífið í dag og hlakka mikið til næstu ævintýra,“ segir Júnía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir.
„Ég er mjög hamingjusöm með lífið í dag og hlakka mikið til næstu ævintýra,“ segir Júnía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hefði hins vegar aldrei getað gert alla þá skemmtilegu hluti sem ég er að gera í dag full. Á þeim tíma í mínu lífi var ég ekki með mikið sjálfstraust.

Þú hefur tekið viðtal við pabba minn, mömmu mína og ömmu mína, þannig að röðin hlaut að koma að mér,“ segir Júnía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir sposk á svip þegar fundum okkar ber saman. Í eitt augnablik líður mér eins og að ég sé orðinn alveg ofboðslega gamall en sú pæling víkur fljótt fyrir annarri mun fallegri hugsun, hvar annars staðar en á Íslandi myndi þetta gerast?

Júnía er dóttir rithöfundarins Sjóns og óperusöngkonunnar Ásgerðar Júníusdóttur. Téð amma hennar er Guðrún Guðlaugsdóttir, blaðamaður og rithöfundur. Ekki þarf því að koma á óvart að Júnía bindi ekki bagga sína sömu hnútum og aðrir og hafi skemmtilega sýn á lífið og tilveruna.

„Það var æðislegt að alast upp innan um svona skapandi fólk. „Ég ætlaði að verða sálfræðingur en áttaði mig snemma á því að ég yrði að vera í listum, í ljósmyndun. Það er í blóðinu. Foreldrar mínir hvöttu mig líka eindregið til þess. Ég hef ferðast mikið með þeim, búið í London, Berlín og Kaupmannahöfn og það hafði áhrif á sköpunargleðina,“ segir Júnía en hún á einn yngri bróður, Flóka, sem einnig er listhneigður; en hann er að læra grafíska hönnun í LHÍ og stendur sig mjög vel í því.

Þegar þau bjuggu í Berlín var Júnía á unglingsaldri. „Þá hvatti pabbi mig til þess horfa á kvikmyndir eftir Hitchcock, Coen-bræður og fleiri og setti mér fyrir það verkefni að dæma furðulegar bíómyndir til að kveikja í huganum á mér. Hann sá eitthvað þarna. Hann setti mér líka fyrir allskyns önnur verkefni, eins og að taka bara rauðar ljósmyndir einn daginn.“

Frekara listrænt uppeldi fékk Júnía í barnakór Dómkirkjunnar frá sjö til fjórtán ára aldurs undir stjórn Kristínar Valsdóttur en einnig lagði hún stund á píanónám hjá Erlu Stefánsdóttur álfasérfræðingi. „Hún sagði mér oft að álfarnir væru mjög ánægðir að heyra mig spila. Það var ótrúlega skemmtilegur tími og mikið ferðast. Meðal annars til Svíþjóðar, þar sem ég uppgötvaði hvað ég er lofthrædd. Það var í 82 metra fallturni. Í dag get ég varla staðið uppi á stól án þess að ég byrji að skjálfa.“

Hún hlær.

Tók sína fyrstu mynd fjögurra ára

Júnía fékk sína fyrstu myndavél aðeins fjögurra ára en fjölskyldan dvaldist þá í Frakklandi. „Þetta var einnota vél og ég fór strax að prófa mig áfram; mynda ísskilti, kindur, fólk og fleira, þessar myndir eru ennþá til. Það er áberandi að allir eru skælbrosandi enda ábyggilega mjög sætt að sjá fjögurra ára barn með myndavél,“ segir hún.

Eftir þetta dalaði ljósmyndaáhuginn og kviknaði ekki aftur fyrr en Júnía var 14 ára. Þá var faðir hennar gestaprófessor við háskóla í Berlín í nokkra mánuði og margt merkilegt að sjá. „Þá keypti ég litla point and shoot Nikon-vél og tók ástfóstri við hana. Ég átti líka litla Holgu á þessum tíma og fór að taka mjög artí myndir og pósa sjálf sem módel. Ég byrjaði líka að blanda myndum saman sem ég geri enn. Þarna hófst áhuginn fyrir alvöru og ég þekki mig ekki öðruvísi en með myndavélina eða símann á lofti.“

Skilyrði er þó að eitthvað sé að gerast – landslag kveikir til dæmis ekki í Júníu. „Það verður að vera aksjón, annars missi ég fljótt áhugann. Ætli það sé ekki vegna þess að ég er með ADHD,“ upplýsir hún sposk á svip.

Á umliðnum árum hefur Júnía verið dugleg að mynda tónlistarhátíðir eins og Secret Solstice, Innipúkann, Iceland Airwaves og Eistnaflug, svo dæmi sé tekið. „Það er svakalega skemmtilegt að mynda tónleika, ekki síst metalböndin, og mig langaði lengi að fara út og elta þessi stóru festivöl.“

– Hvaða hljómsveit er skemmtilegast að mynda?

„Hatari er geggjuð. Búningarnir, svipbrigðin og leikhústilburðirnir. Það er svo margt í sjóvinu hjá þeim. Ég hef alltaf dregist að búningum, pallíettum og glimmer. Kannski vegna þess að mamma er óperusöngkona.“

Ekki þarf því að koma á óvart að Júnía hafi fundið fjölina sína í dragsýningum. Hún mætti með myndavélina á sína fyrstu sýningu á Gauknum árið 2016 og heillaðist strax upp úr skónum. „Það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi að mynda drag; sýningarnar eru svo mikið fyrir augað. Ég fæ seint leiða á því.“

Júnía myndar ekki bara dragið; ekki leið á löngu þar til hún var sjálf farin að troða upp. „Ég get þetta alveg, hugsaði ég með mér. Mér hefur alltaf þótt gaman að koma fram og var mikið í söngleikjum í Hagaskóla og Fjölbraut í Ármúla. Samdi meðal annars söngleikinn Híenuna í FÁ ásamt Ölmu Líf Þorsteinsdóttur vinkonu minni sem fjallar um dauðasyndirnar sjö og stelpuna Díönu sem kölluð er Híena vegna þess að hún er svo mikil tík. Það sem ég sá ekki fyrir var að leikstjórinn skyldi velja mig sjálfa í aðalhlutverkið. Ég var ekki sátt við þá ákvörðun en lét mig hafa það að leika Díönu sem var auðvitað ekkert annað en samnefnari fyrir allar þær stelpur sem höfðu verið vondar við mig.“

Persónusköpun heillandi

Júnía segir sér alla tíð hafa liðið rosalega vel á sviði og um tíma langaði hana að verða leikkona. „Mér finnst persónusköpun mjög heillandi og ég hef fengið útrás fyrir hana í draginu. Þar er ég með þrjá karaktera. Það eru dragkóngurinn Lee King Dee, dragdrottningin Shanita Dee og Manea Nocturna sem er dökk eins og Hatari. Þá síðastnefndu nota ég til að fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar og það hefur verið eins og áfallameðferð fyrir mig; mér leið strax betur eftir að ég fór að nota hana. Ég gerði til dæmis mikið af því í covid, sendi frá mér efni sem Manea Nocturna á samfélagsmiðlum og það hjálpaði mér að vinna úr ýmsu sem ég átti óuppgert, eins og einelti sem ég þurfti líkt og margir að stríða við um tíma á unglingsárunum.“

Júnía hefur bundist hinsegin samfélaginu órofa böndum eftir að hún byrjaði í draginu og hefur áhyggjur af bakslaginu sem komið er í baráttuna fyrir sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks. „Það er ekki öruggt að vera hinsegin. Það er jafnvel ekki öruggt að vera í dragi, ef marka má stöðuna. Ekki er langt síðan ráðist var á hinsegin mann í Reykjavík og ógeðslega er talað um hinsegin fólk, ekki síst transfólkið okkar. Það er mikil ólga í samfélaginu. Transfólk er besta fólk sem ég hef kynnst og ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að verja það og svara öllum þessum neikvæðu og andstyggilegu röddum. Þær stafa auðvitað af því að fólk er hrætt við það sem það þekkir ekki og við þannig aðstæður þrífast fráfræði og fordómar best. Falsfréttir eru líka til þess fallnar að skaða hinsegin samfélagið. Að mörgu er að hyggja.“

Hún setti sér það markmið að ljúka stúdentsprófi fyrir þrítugt og náði því frá háskólagáttinni á Bifröst í fyrra. „Ég setti mér líka það markmið að kaupa mér dragt og náði því líka, í ferð með fyrrverandi kærastanum mínum í Póllandi. Mjög fallega dragt, þó ég segi sjálf frá. Hún er bleik en ég vildi kaupa hana í skærum lit. Ég verð að vera þannig. Ég fer mínar eigin leiðir og hef alltaf gert.“

Hún brosir.

Júnía byrjaði að drekka 17 ára en fann fljótt að áfengi átti ekki við hana. „Það var svarið mitt við þessari vanlíðan um tíma. Ég vaknaði svo bara einn morguninn og fann að komið væri nóg, þá dreif ég mig í tíu daga meðferð á Vogi. Ég hef verið dugleg að vinna í sjálfri mér síðan og stunda fundi. Nú eru liðin ellefu ár og átta mánuðir síðan ég kláraði þennan pakka. Þá birti til og lífið byrjaði að gerast.“

Júnía varð edrú rétt áður en hún fagnaði tvítugsafmæli sínu; sem sagt áður en hún mátti sjálf kaupa áfengi. „Ég fór samt í Ríkið eftir afmælið, bara til að geta sýnt skilríkin. Ég kom líka við á Hressó, þar sem ég drakk sem mest, og bað dyravörðinn um að spyrja mig sérstaklega um skilríki. „Fokk,“ sagði hann, „ég er búinn að hleypa þér inn síðan þú varst 17 ára.“ Þegar ég hætti að drekka setti ég mér það markmið að hætta ekki að skemmta mér og hef staðið við það. Ég hefði hins vegar aldrei getað gert alla þá skemmtilegu hluti sem ég er að gera í dag full. Á þeim tíma í mínu lífi var ég ekki með mikið sjálfstraust.“

Við tók mikil vinna hjá henni við að byggja sig upp; Júnía hafði aldrei gert upp eineltið, auk þess sem hún varð fyrir kynferðisofbeldi meðan hún enn drakk og átti eftir að vinna úr því áfalli. „Þetta gerðist í nóvember 2011, ég kærði en málið var fellt niður, eins og svo oft. Ég var brjáluð út í kerfið – og er enn – enda nær engri átt hvernig komið er fram við þolendur kynferðisbrota. Staða þolenda er alltaf veik, dómarnir djók og menn sitja alltof stutt inni. Menn eru helst ekki settir inn nema þeir brjóti fíkniefnalöggjöfina. Það eru alvöru glæpamenn, samkvæmt kerfinu. Ekki kynferðisbrotamennirnir.“

Júnía fagnar baráttu og þrautseigju Stígamóta andspænis þessu ofurefli og tók meira að segja þátt í einu átaksverkefni samtakanna, Vettvangi glæps. Það var stórt skref enda birtist mynd af henni á risastóru auglýsingaskilti í Reykjavík. „Það var hálfsúrrealískt en skipti miklu máli fyrir mig.“

– Hvað getum við gert til að breyta þessu?

„Hlustað á brotaþola og lögmenn þeirra. Flestar konur sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þora ekki að kæra og aðrar sjá eftir því vegna þess hvernig með þær er farið. Sjálf hef ég unnið með þetta þema í draginu; reynt að gera pólitíska ádeilu, bæði í dökka atriðinu hennar Maneu og atriðinu hennar Shanitu sem er algjör ljóska. Ég þegar ég var full. Dragkóngurinn minn er samt eiginlega ógeðslegastur. Fulltrúi brothættra karlmanna. Þú vilt ekki deita hann og helst ekki tala við hann. Við erum að tala um ógeðslega frændann í fjölskylduboðinu. Ég hef fengið sterk viðbrögð við öllum þessum atriðum, ekki síst kónginum, enda á drag að vera pólitískt og fráhrindandi, þar sem grín er gert að staðalmyndum karla og kvenna.“

Litríkt líf

Eins og fyrr segir vill Júnía hafa líf og fjör í kringum sig og nýverið sótti hún master class hjá Ástu Kristjánsdóttur og Kára Sverrissyni í tísku- og portrettljósmyndun. „Ég féll alveg fyrir þeirri tegund ljósmyndunar enda er það aksjón eins og ég vil hafa það. Ásta hefur verið minn mentor í ljósmynduninni og alltaf haft óbilandi trú á mér. Þetta er svo einstaklega áhugaverður og litríkur heimur, sem á sér svo margar hliðar. Ég hef líka mikinn áhuga á kvenljósmyndurum eins og June Newton, eða Alice Springs eins og hún var oft kölluð. Það er ofboðslega gaman að vera ljósmyndari á setti, hvað þá kvikmyndasetti og taka bak við tjöldin-myndir. Ég bý við hliðina á Kukl [kvikmyndatækjaleigunni] og RVK Studios í Gufunesinu og þarf að koma mér þar inn,“ segir hún kímin.

Um þessar mundir starfar hún á hinn bóginn í gardínubúð, Sólargluggatjöldum í Ármúlanum. „Ég þurfti að fá mér vinnu í haust og sá þetta auglýst. Ég prófaði að sækja um og var ráðin. Þetta hefur verið alveg ofboðslega gaman; ég gat ekki ímyndað mér að það væri svona mikill heimur á bak við gardínur. Rúllugardínur, strimlagluggatjöld og allt þetta. Ég er búin að læra mjög margt á rúmum tveimur mánuðum. En ljósmyndunin verður alltaf aðal. Ég hef líka unnið með gömlu fólki og raunar verið mest í umönnunar- og þjónustustörfum. Mér líkar vel að vinna með fólki þótt ég sé bilaðislega sjálfstæð – og sérvitur. Það er líka ákveðin kúnst að vinna með fólki sem hefur hjálpað mér í ljósmynduninni. Ég vil helst taka myndir af fólki þegar það er afslappað og líður vel, þannig getur maður fangað raunverulegt augnablik í lífi þessa fólks sem maður nær ekki ef maður er kaldur og stífur.”

Upphaflega planið í haust var að fara í ítölskunám í HÍ en fyrst þurfti Júnía að taka meiri stærðfræði á Bifröst og ekki gekk sem skyldi á prófinu. „Stærðfræði á ekki nógu vel við mig. Fyrir vikið frestaði ég ítölskunáminu í bili.“

Ítalía er í miklu uppáhaldi hjá Júníu og í sumar dvaldist hún í heilan mánuð í Flórens, að áeggjan móður sinnar, og lærði ljósmyndun. Þar fór hún með skólanum til Cortona á ljósmyndahátíð, sem heitir Cortona on the Move en þetta árið voru ljósmyndararnir Janette Beckman og Dana Linxenberg í hávegum hafðar með sýninguna Get Rich or Die Tryin‘. „Ljósmyndunin mín stökkbreyttist eftir þessa hátíð, fékk að sjá alvöru ljósmyndasýningar og fór á Q&A einmitt með fyrrnefndum ljósmyndurum, sem var gríðarlega áhugavert. Mamma var lengi búin að hvetja mig til að fara og þetta var geggjað ævintýri – þangað til leið yfir mig.“

– Nú?

„Ég fékk hitaslag og lá bara á jörðinni við brú. Vegfarendur hlúðu að mér og gáfu mér vatn. Lögreglan ók svo hjá á ómerktum bíl og kannaði hvað væri á seyði. Þá var ég að hressast og sagði þeim að ég þyrfti ekki á hjálp að halda. Þeir voru ósammála því áliti. „Þú ferð í sjúkrabíl. Það er heitt í dag fyrir okkur, hvað þá þig!“ Ég lá í sex tíma á spítala með vökva í æð en náði mér fljótt.“

Júnía lét þessa uppákomu ekki slá sig út af laginu og ætlar sem fyrst aftur til Ítalíu, þar sem hún hefur eignast góða vini. „Ég gæti vel hugsað mér að búa á Ítalíu.“

– Ertu kannski heimsborgari?

„Mér finnst ég alla vega frekar vera Evrópubúi en Íslendingur. Það er alltaf gott að vera á Íslandi en ég vil frekar búa erlendis. Ætli það fari ekki eftir því hvert ljósmyndunin tekur mig.“

Júnía hætti í sambandi í lok sumars en saknar þess ekki að slá sér upp enda segir hún enga stefnumótamenningu til á Íslandi. Það sé beinlínis vandræðalegt. „Ég talaði mikið um þetta meðan ég var í uppistandi um árið.“

– Uppistand? Ætlarðu að spreyta þig aftur í því?

„Það má vel vera, maður veit aldrei hvað gerist, en ég er samt yfirleitt bara fyndin óvart, sjaldnar þegar ég ætla mér það en ég er aldrei langt frá sviðinu. Það má þess vegna vera karókí. Ég umkringi mig líka með listrænu og skapandi fólki, hvort sem það syngur, prjónar, eða er í dragi.“

Ný heimkynni

Júnía kann vel við sig í nýrri íbúð í nýrri byggð í Gufunesinu, enda fullt af listrænu fólki þar, en hún býr ásamt kettinum Nyxi sem heitir eftir gyðju næturinnar, Nyx. Gamla kisan hennar bar hið tignarlega nafn Hel. „Ég valdi það nafn að vísu ekki sjálf en það fór kisunni mjög vel.“

Eitt mætti þó vera betra – samgöngurnar. Júnía hefur aldrei tekið bílpróf frekar en faðir hennar sem fer allra sinna ferða í strætó. „Pabbi veit allt um samgöngurnar í Reykjavík sem eru slæmar miðað við aðrar borgir sem við þekkjum. Sjálf neyddist ég til að byrja að læra á bíl eftir að ég flutti í Gufunesið enda hafði ég fram að því bara búið í stórborgum eða Vesturbænum. Ég er búin með tólf ökutíma en á Ökuskóla 3 eftir á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði þangað sem strætó gengur ekki. Nennir einhver að skutla mér?“

Hún hlær.

Til að komast í strætó í Spönginni í Grafarvogi þarf Júnía að panta leið 25 sem er leigubíll sem sækir hana í „pínulítið skýli sem enginn sér“. Panta þarf bílinn með alla vega 30 mínútna fyrirvara. „Gufunesið var byggt upp sem bíllaus byggð sem skýtur skökku við þar sem almenningssamgöngur virka svo illa.“

Hún horfir björtum augum til framtíðar. „Ég er mjög hamingjusöm með lífið í dag og hlakka mikið til næstu ævintýra.“

– Ertu gömul sál?

„Já og nei. Ég er kannski gamaldags um margt en held samt fast í barnið í mér sem kom sér vel þegar ég var að vinna með börnum. Ég get rólað villt og galið. Eitt er að halda í barnið í sér og annað að vera barnaleg sem mér finnst ég ekki vera. Ég er líka löngu búin að fatta að ég er ekki fullkomin. Það flýtti fyrir þroskanum. Í mínum huga skiptir mestu að njóta lífsins og taka sig ekki of alvarlega. Ég hef reynt að vera venjuleg – það virkaði ekki.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson