Hlíf Una og Melkorka „Sumir sveppir tengjast með svepprótatengslum ofan í jörðinni og senda jafnvel upplýsingar.“
Hlíf Una og Melkorka „Sumir sveppir tengjast með svepprótatengslum ofan í jörðinni og senda jafnvel upplýsingar.“ — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveppir hafa fylgt mér lengi, foreldrar mínir eru bæði náttúrufræðingar og við systurnar fórum á hverju sumri með þeim hringinn í kringum landið og vorum mikið úti í náttúrunni. Þegar ég var lítil stelpa kynntist ég Helga Hallgrímssyni sem er einn…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Sveppir hafa fylgt mér lengi, foreldrar mínir eru bæði náttúrufræðingar og við systurnar fórum á hverju sumri með þeim hringinn í kringum landið og vorum mikið úti í náttúrunni. Þegar ég var lítil stelpa kynntist ég Helga Hallgrímssyni sem er einn af okkar helstu sveppafræðingum og hann fór oft með okkur að skoða sveppi. Mér fannst hann dularfullur og spennandi, og allt sem hann fékkst við. Að yrkja ljóð um sveppi lá í loftinu, rétt eins og sveppirnir sjálfir, þeir eru úti um allt,“ segir Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona og skáld en hún og Hlíf Una Bárudóttir teiknari sendu nýlega frá sér bókina Flagsól, þar sem Melkorka yrkir ljóð um íslenska sveppi og Hlíf Una myndlýsir.

„Ég byrjaði á að skoða það sem hefur verið skrifað um íslenska sveppi, en fyrrnefndur Helgi og Hörður Kristinsson hafa skrifað heilmikið og auk þess gefið flestum sveppum sín íslensku nöfn. Þessi nöfn eru ótrúlega skemmtileg og lýsandi, til dæmis fýlunálungur, táradoppa, loðmylkingur og skorpuskinni. Helgi og Hörður skrifa líka fallega af virðingu og næmi um sveppina, mér leið stundum eins og ég væri að lesa ljóðrænan texta, þótt þetta sé fræðitexti, þar sem einstökum sveppum er lýst í útliti og eðli. Fyrir vikið var það með einhverjum hætti náttúrulegt fyrir mig að fara með þetta ennþá lengra og yrkja ljóð um sveppi.“

Þegar sveppaljóð Melkorku höfðu skotið upp kollinum í tugatali, þá fannst henni að það yrðu að vera teikningar með.

„Ég vildi alveg sérstaka manneskju sem hefði næmi fyrir þessu og gæti ekki aðeins teiknað skýrt heldur líka náð dulúð sveppanna, tekið fantasíuna inn í þetta. Hlíf Una tók strax vel í að taka að sér verkið og gjörsamlega negldi þessar teikningar. Ég lít ekki á þessa bók sem myndskreytta ljóðabók, því þetta talar allt saman, rétt eins og sveppaheimurinn, þræðist og fléttast hvað í gegnum annað. Hægt er að lesa fræðitextann í bókinni um hvern svepp með tilliti til ljóðsins með tilliti til myndarinnar.“

Roðnaði nánast við að teikna

Hlíf Una segir að verkefni hennar, að myndlýsa ljóðin, hafi runnið ljúflega.

„Ég féll strax fyrir ljóðunum þegar Melkorka sendi mér nokkur til að byrja með. Ég þurfti ekkert að vega þetta og meta, ég var mjög til í að takast á við sveppina. Þegar Melkorka hringdi fyrst í mig og sagði að hún hefði skrifað sveppaljóð, þá misskildi ég hana og hélt að hún hefði skrifað ljóð á sveppum,“ segir Hlíf Una og hlær. „Ég lærði heilan helling af þessu verkefni, ég hafði ekki heyrt minnst á eða séð marga þessara sveppa, og ég lærði líka mörg ný og skemmtileg orð, nöfnin á sveppunum eru ótrúleg. Ég vann teikningarnar yfir hásumar og var fyrir vikið í mikilli rannsóknarvinnu á netinu, en vissulega hefði verið gaman ef þetta hefði borið upp að hausti og ég getað farið í sveppamó og skoðað sveppi,“ segir Hlíf Una og bætir við að þær Melkorka hafi þurft að finna milliveg, að fara ekki í það að túlka hvern einasta svepp of bókstaflega, því þær vildu hafa ævintýri í alla vega sumum þeirra.

„Sumir sveppirnir komu mér virkilega á óvart, ég roðnaði nánast við að teikna myndina af fýlubellingi, því hann er afar líkamlegur, næstum ruddalegur. Ég þurfti ekkert að ýkja, ég var frekar að reyna að draga úr ef eitthvað var. Sveppir eru ótrúlega fjölbreyttir og furðulegir, eins og þessi fýlubellingur sem vex einvörðungu í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík, sem er sannarlega forvitnilegt. Þótt ég sé ekki átakasækin þá langar mig að lenda í rifrildi þar sem ég get notað þetta orð, fýlubellingur, á þann sem ég tekst á við,“ segir Hlíf Una og hlær.

Fararskjótar alsælu

Melkorka segir fjölbreytni sveppa gríðarlega, sumir séu skærlitir, aðrir litlausir, sumir pínulitlir og aðrir risastórir.

„Þeir finnast í öllum mögulegum formum og gerðum og sumir sveppir eru næstum ekki sveppir, t.d. viðarprjónn, hann hefur verið á flakki sem tegund og núna telst hann vera frumdýr, en ekki sveppur. Margt er á reiki um hvað er flétta og hvað sveppur, og svo mætti lengi telja.“

Í ljóðunum persónugerir Melkorka sveppina og speglar hegðun þeirra og útlit í okkur mannfólkinu, enda auðvelt að hugsa sveppi sem verur, þeir eru jú margir með líkama og höfuð, lag þeirra minnir á fígúrur. Í ljóðinu Söfnun matsveppa í skógi speglar hún það t.d. í þeirri mannlegu hegðun að velja karlmann í dimmum svita skemmtistaða, þar sem skal varast að falla fyrir/stinnum stilkum, glansandi ásýnd/sleipri þegar á reynir, heldur nota þefskynið/gegn þungri höfginni/næmi fingurgóma/á stömu yfirborði, innbyrða þá einn í senn/vel valda/fararskjóta alsælu.

„Sveppir eru dularfullar verur og hegðun þeirra margslungin, þeir eiga sér leyndarlíf, þeir trega, syrgja, daðra og elska, og þeir skjóta, springa, seyta, fettast og brettast. Þeir nota ótrúlegar leiðir til að dreifa sér, sumir bíða eftir að vatnsdropi detti ofan í skál þeirra og þá henda þeir upp gró. Þeir eru í raun svo hugvitsamir. Þeir eru sumir fullir af eitri, geta ært fólk og jafnvel drepið. Þeir eru viðsjárverðir, rétt eins og mannfólkið.“

Hlíf Una segir að ullblekill sé hennar uppáhald meðal sveppanna í bókinni. „Það tengist líka ljóðinu um hann, sem er eitt af mínum uppáhalds, um konur sem hafa skjól hver af annarri og draga pilsin upp fyrir hné keyri einhver framhjá. Sveppurinn sjálfur er algerlega heillandi; ullserkur sem vex í þyrpingum og dreifir gróum sínum með svörtum þykkum vökva. Það er eitthvað viðkvæmt við hann, líkamlegt og pínu erfitt.“

Melkorka segir erfitt að gera upp á milli barnanna sinna, sveppanna í bókinni, en nefnir þó ljóshettuna, sem prýðir forsíðu bókarinnar.

„Ljóshetta er dæmi um ótrúlega magnaðan svepp sem vex oft í röðum, jafnvel hringjum, og er einn af þeim sveppum sem tengjast með svepprótatengslum ofan í jörðinni og hjálpa plöntum að tala saman með næringarefnum og senda jafnvel upplýsingar á milli,“ segir Melkorka og bætir við að ljóðið um ljóshettu sé um kvennahóp sem heldur saman og skiptist á upplýsingum með dularfullum hætti, sem er ekkert endilega á yfirborðinu, eins og títt er um konur.

Ullblekill

Við röðum okkur upp

í vegköntunum

höfum skjól hver af annarri

drögum pilsin upp fyrir hné

keyri einhver framhjá

að tala um hvað sé við hæfi

hvað betra en annað

aldrei hluti af orðaforða okkar

við fundum þessa leið

til að lifa af

og þegar þeir koma

flettum við upp um okkur

svört leðjan lekur niður hvíta leggina

horfum á eftir þeim

bruna út í myrkrið

leifarnar loða við dekkin

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir