<strong>Auður Halldórsdóttir er forstöðumaður bókasafns og menningarmála í Mosfellsbæ.</strong>
Auður Halldórsdóttir er forstöðumaður bókasafns og menningarmála í Mosfellsbæ.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir er ég að lesa The House in the Cerulean Sea eftir T.J. Klune. Bókin er samtímafantasía sem fjallar um mann á fimmtugsaldri sem lifir fábrotnu og einmanalegu lífi og starfar við eftirlit á munaðarleysingjahælum fyrir göldrótt börn

Um þessar mundir er ég að lesa The House in the Cerulean Sea eftir T.J. Klune. Bókin er samtímafantasía sem fjallar um mann á fimmtugsaldri sem lifir fábrotnu og einmanalegu lífi og starfar við eftirlit á munaðarleysingjahælum fyrir göldrótt börn.

Þessari bók mælti ung samstarfskona mín með, en bókin átti miklum vinsældum að fagna á BookTok, sem er samfélag bókaunnenda á samfélagsmiðlinum TikTok. BookTok hefur gríðarlega mikil áhrif á bókaútgáfu, en bækur sem fá mikla umfjöllun þar seljast vel, og jafnvel eru dæmi um að bækur sem fóru lágt þegar þær komu fyrst út fái uppreisn æru áratugum seinna á miðlinum. Ungmenni leita uppi bækur sem þau hafa kynnst í gegnum BookTok, og því mikilvægt fyrir bókasöfnin að hafa puttann á BookTok-púlsinum til að geta svarað eftirspurninni.

Bókmenntahlaðborð Bókasafns Mosfellsbæjar er árviss viðburður sem fyrir mörgum Mosfellingum markar upptaktinn að aðventunni. Boðið er upp á rauðvín og piparkökur og rithöfundar lesa úr nýútgefnum verkum sínum fyrir troðfullu húsi.

Í ár stíga á svið þau Bergþóra Snæbjörnsdóttir með skáldsöguna Duft, Friðgeir Einarsson með Seratónínendurupptökuhemla, Guðmundur Pétursson með Öll nema fjórtán: sögur úr Vesturbænum og víðar, Sverrir Norland með Klettinn og Sólveig Pálsdóttir með spennusöguna Miðillinn. Sunna Dís Másdóttir, skáld og gagnrýnandi Kiljunnar, stýrir umræðum sem ég býst fastlega við að verði fjörugar. Þessar bækur eru meðal þeirra sem ég ætla að lesa, en meðal annarra mætti nefna Kjöt eftir Braga Pál Sigurðsson. Síðasta bók hans, Arnaldur Indriðason deyr, var að mínu mati meistaralega skrifuð, bráðfyndin og yfirgengilega ógeðsleg.

Á aðventunni les ég að sjálfsögðu Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Sú saga er tímalaus klassík um góða hirðinn Benedikt sem fer í árlega leit að eftirlegukindum á aðventusunnudag ásamt hundinum Leó og sauðnum Eitli. Í ár kemur tónlistarhópurinn Mógil til með að halda tónleika í Bókasafni Mosfellsbæjar og flytja tónlist af disknum Aðventa, en tónlist og textar eru undir áhrifum nóvellunnar.

Að lokum hlakka ég til að kynna tæplega sex ára dóttur minni Frú Pigalopp og jólapósturinn. Bókin fjallar um öfluga konu sem tekur að sér að bera út jólapóstinn, en glímir við sjúklega frestunaráráttu. Bókin skiptist í 24 kafla og ég man eftir að hafa þurft að beita sjálfa mig harðræði þegar ég las bókina á níunda áratugnum til að lesa einungis einn kafla á dag í desember. Ég er næsta viss um að það sama verði upp á teningnum núna.