„Þegar öllu er á botninn hvolft þá berum við Íslendingar öll saman ábyrgð á samfélaginu okkar,“ skrifar Þórdís Kolbrún.
„Þegar öllu er á botninn hvolft þá berum við Íslendingar öll saman ábyrgð á samfélaginu okkar,“ skrifar Þórdís Kolbrún. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við þurfum fólk sem er tilbúið til þess að mæta á staðinn, leggja sitt af mörkum, jafnvel þótt það sé ekkert upp úr því að hafa nema að uppfylla skyldur sínar við samfélagið og meðborgarana.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Þegar þetta er ritað, á föstudagseftirmiðdegi, er komin næstum heil vika frá því íbúum Grindavíkur var tilkynnt að þeim væri skylt að yfirgefa heimili sín. Dagarnir sem liðnir eru frá því þetta gerðist hafa verið íbúum bæjarins þungbærir og bíður öll þjóðin í óvissu milli vonar og ótta um hver verði þróun atburðarásarinnar. Hugur minn er hjá íbúum Grindavíkur og öllum þeim mikla fjölda fólks sem hefur lagt nótt við dag við að reyna að afstýra hugsanlegu tjóni; hvort sem er veraldlegu eða tilfinningalegu.

Í sumar var þess minnst að hálf öld var liðin frá gosinu á Heimaey. Ekki er skrýtið að hugur margra leiti mjög til þeirra atburða. Gosið hófst aðfaranótt 23. janúar og stóð fram á sumar. Sú atburðarás kom flatt upp á alla en Guðs mildi var að þar tókst að koma öllum íbúum bæjarins úr hættu og um leið og hamfarirnar byrjuðu að taka á sig mynd var hægt að hefja störf við að bjarga verðmætum. Sú staða sem Grindvíkingar eru í núna, að vita ekki hvort eða hvenær eldgos brjótist út eða að hve miklu leyti það muni hafa áhrif á bæinn sjálfan, vekur ólíkar tilfinningar og getur valdið mikilli streitu. Á meðan á þessu ástandi varir er mikilvægt að sýna þeim meðborgurum okkar sem horfast í augu við þessar hörmungar samúð, samstöðu og virðingu.

Samstaða og fórnfýsi

Það getur líka falist ákveðin hughreysting í að hugsa til þess hversu margir lögðust á eitt í björgunaraðgerðum og uppbyggingu í Vestmannaeyjum. Ég trúi að Íslendingar muni sýna sömu samstöðu og fórnfýsi ef þörf er á nú hálfri öld síðar.

Við blasir að stjórnvöld munu hafa mikilvægt hlutverk þegar kemur að því að leysa úr þeim úrlausnarefnum sem atburðirnir á Reykjanesinu fela í sér. Ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt nokkrar aðgerðir, meðal annars sem snúa að afkomuöryggi Grindvíkinga, en líklegt er að viðfangsefnið verði viðvarandi meðan óvissan ríkir. Verkefnið er þó af þeirri stærðargráðu og þess eðlis að við munum öll þurfa að leita leiða til þess að verða að gagni, og það mun skipta máli að hlúa að skyldurækni gagnvart hvert öðru, en hún er grundvöllur að traustu og góðu samfélagi. Þegar stór áföll ríða yfir þarf samfélagið á fórnfýsi og óeigingirni að halda.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá berum við Íslendingar öll saman ábyrgð á samfélaginu okkar. Við gegnum ólíkum hlutverkum, sum okkar gegna valdastöðum en öll getum við lagt eitthvað jákvætt af mörkum. Á tímum þegar áföll og hætta steðjar að þá skiptir máli að hlúa að uppbyggilegu hugarfari, þannig að sem flest okkar einblíni á það sem við getum lagt af mörkum.

Samfélagsleg ábyrgð

Ég vil trúa því að Íslendingar séu þjóð sem er fær um að takast á við áföll af því æðruleysi sem okkur hefur þótt vera þjóðareinkenni okkar. Þetta er afstaða sem felur í sér að fólk tekur ábyrgð á samfélagi sínu umfram óhjákvæmilegar skyldur. Þetta eru hin borgaralegu gildi sem ég trúi að séu mikilvægur grundvöllur íslensks samfélags, og í raun forsenda áframhaldandi velgengni okkar.

Fyrir utan að þessi borgaralegu gildi byggist á trú á einstaklingsfrelsi, mannréttindi, réttarríki og lýðræði – þá fela þau einnig í sér ákveðna afstöðu til samfélagsins, til samborgaranna og lífsins. Í því að vera borgaralega sinnaður felst að taka ábyrgð á samfélagi sínu – að líta í kringum sig og reyna að finna leiðir til þess að verða að gagni. Það snýst því ekki bara um peninga. Við þurfum á borgaralega sinnuðu fólki að halda í öllum starfsstéttum; fólki sem vinnur af ástríðu, metnaði og hugsjón í þágu framtíðar Íslands. Við þurfum fólk sem er tilbúið til þess að mæta á staðinn, leggja sitt af mörkum, jafnvel þótt það sé ekkert upp úr því að hafa nema að uppfylla skyldur sínar við samfélagið og meðborgarana.

Viðbrögð samfélagsins við hættum og hamförum eru málefni sem fara langt út fyrir flokkapólitík. Öll þau sem vilja leggjast á árarnar fyrir samfélagið sitt á neyðarstundu eru í sama liði. Á tímum sem þessum skiptir máli að þau standi saman sem trúa á uppbyggingu en ekki niðurrif, á framtak en ekki heimtufrekju – á að við ætlum að leysa vandamálin en ekki bara kvarta yfir þeim. Við berum saman ábyrgð á samfélaginu okkar.