Kjarval Sjö olíumálverk eftir listamanninn verða boðin upp hjá Fold.
Kjarval Sjö olíumálverk eftir listamanninn verða boðin upp hjá Fold.
Hvorki meira né minna en 45 verk eftir Jóhannes S. Kjarval verða boðin upp hjá Fold uppboðshúsi 21. nóvember næstkomandi. Verkin spanna allan feril listmálarans allt frá eftirprentunum og árituðum bókum til stórra olíumálverka

Hvorki meira né minna en 45 verk eftir Jóhannes S. Kjarval verða boðin upp hjá Fold uppboðshúsi 21. nóvember næstkomandi.

Verkin spanna allan feril listmálarans allt frá eftirprentunum og árituðum bókum til stórra olíumálverka. Af þeim sjö olíumálverkum sem boðin verða upp er þeirra stærst „Sjómaðurinn og hafmeyjan í Eldhrauninu“. Verkið er ekki ársett en það talið vera frá 1934-6. Þá verða einnig boðin upp tvö stór en ólík olíumálverk frá Þingvöllum; málverk sem sýnir gjá og önnur sem heitir „Morgunroði á Þingvöllum“ og var sýnt á Kjarvalsstöðum 1983.

Nokkur portrett verða einnig boðin upp, þar á meðal eitt teiknað með kolum á pappírs-burðarpoka og þá verða boðnar upp skissur sem Kjarval gerði fyrir stærri verk, tækniæfingar, handteiknaðar jólakveðjur og seríur af smærri skissum og teikningum.

Sýning á verkunum hefur verið opnuð í Fold og er öllum aðgengileg. Sýningin mun standa þar til uppboðinu lýkur. Uppboðið fer fram á vefnum uppbod.is.