Krýsuvíkursamtökin Elías fyrir miðju ásamt þeim Lárusi og Björgu.
Krýsuvíkursamtökin Elías fyrir miðju ásamt þeim Lárusi og Björgu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kris@mbl.is Forsvarsmenn Krýsuvíkursamtakanna eru bjartsýnir á að framkvæmdum vegna stækkunar meðferðarheimilisins í Krýsuvík ljúki snemma á næsta ári og jafnvel í janúar ef vel gengur. Stækkunin mun breyta mörgu til batnaðar í starfinu og mun þá ganga nokkuð hressilega á biðlista eftir meðferð hjá samtökunum að sögn Elíasar Guðmundssonar framkvæmdastjóra en í dag eru liðlega 100 manns á biðlista.

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Forsvarsmenn Krýsuvíkursamtakanna eru bjartsýnir á að framkvæmdum vegna stækkunar meðferðarheimilisins í Krýsuvík ljúki snemma á næsta ári og jafnvel í janúar ef vel gengur. Stækkunin mun breyta mörgu til batnaðar í starfinu og mun þá ganga nokkuð hressilega á biðlista eftir meðferð hjá samtökunum að sögn Elíasar Guðmundssonar framkvæmdastjóra en í dag eru liðlega 100 manns á biðlista.

„Stækkunin gerir það að verkum að við getum stækkað um einn hóp ef svo má segja. Við getum bætt við fjórum herbergjum og tekið á móti tuttugu og átta manns í stað tuttugu og eins. Þetta mun breyta heilmiklu. Það er ótækt að við séum með 100 manns á bliðlista. Í ár fara um 55 manns í gegn hjá okkur og við útskrifuðum 24. Markmiðið er að útskrifa stærra hlutfall eða yfir 30 manns en árið 2022 var metár þegar við útskrifuðum 29. Vonandi verður hægt að taka við um 70 manns á ári en um leið bæta þjónustuna,“ segir Elías.

Sérálma fyrir konur

Krýsuvíkursamtökin fá um 150 milljónir á ári á fjárlögum og hafa óskað eftir 50 milljónum til viðbótar en eftirspurnin eftir meðferð í Krýsuvík hefur aukist. Meðferðin við fíknivanda er lágmark sex mánuðir í Krýsuvík og byggist hún á 12 spora kerfinu. Þegar fram í sækir fá skjólstæðingarnir tækifæri til að vinna í úrvinnslu áfalla sem þeir hafa orðið fyrir á lífsleiðinni eins og það er orðað á vef samtakanna. „Stærsta áþreifanlega breytingin í húsinu er að aðgreina meðferðina mun betur og styrkja kvennameðferðina í leiðinni,“ segir Elías en opnuð verður sérálma fyrir konur í meðferð. Konur koma gjarnan í meðferðina með stærri áfallasögu en hafa verið talsvert færri en karlarnir.

Mannúðleg nálgun

„Við viljum mæta fólki af meiri mannúð en tíðkast hefur í meðferðarbransanum. Í gegnum tíðina hefur viljað loða við meðferðarbransann að auka á skömmina hjá fólki með fíknivanda. Nú er meiri mildi og við viljum bæta áfallavinnuna,“ segir Elías en til Krýsuvíkur kemur oft mjög veikt fólk eftir harða neyslu. Spurður út í ópíóðafaraldurinn segir Elías að þar verði mikill vandi mjög fljótt.

„Þetta er önnur tegund af efnum og fólk deyr hraðar. Fólk blandar saman lyfjum lífshættulega en ánetjast ópíóðaefnunum harðar. Segja má að fólk í meðferðargeiranum í heiminum sé enn að reyna að átta sig á hvað virki best til að hætta þeirri neyslu.“

Faðir Lárusar meðal stofnenda

„Ég kynntist samtökunum ungur vegna þess að faðir minn [Snorri Welding] var einn af stofnendunum árið 1986. Þá kynntist ég hugsjóninni tíu ára gamall en ég var ekki í návígi við samtökin í tuttugu og fimm ár eða þar til ég var kosinn í stjórnina í fyrra. Þetta er svolítið hjartans mál hjá mér en ég ólst upp í vissu návígi við þetta málefni,“ segir stjórnarformaðurinn Lárus Welding og nefnir einnig að hann hafi sjálfur haft mjög gott af 12 spora kerfinu.

„Það hjálpaði mér mikið. Þegar ég var laus úr málaferlunum sem tengdust falli bankanna langaði mig til að gefa af mér og hafði samband við samtökin til að bjóða fram aðstoð. Partur af því að vera sjálfur í bata er að hjálpa öðrum og þetta er mjög gefandi. Það eru jákvæð veldisáhrif með hverjum einasta einstaklingi sem hægt er að koma úr neyslu í bata, tala nú ekki um þegar börn eru í spilinu.“

Fimmtán manna fulltrúaráð

Lárus bendir á að hann sé ekki sérfræðingur í meðferðarmálum en hafi notað sína þekkingu og reynslu til að efla umgjörðina hjá samtökunum ásamt samstarfsfólkinu. „Við fengum lögmannsstofuna Logos til að fara yfir samþykktir og lagalega umgjörð. Logos styrkti okkur með sinni vinnu og breytti Krýsuvíkursamtökunum og meðferðarheimilinu í almannaheillafélög. Þeir sem styrkja starfið geta fengið skattaafslátt og samtökin verða ekki annað en góðgerðarfélög. Á sama tíma styrkir KMPG okkur að verulegu leyti með því að sjá um endurskoðun og bókhald fyrir okkur,“ segir Lárus en einnig var komið á fimmtán manna fulltrúaráði hjá samtökunum sem Björg Fenger veitir formennsku. Í fulltrúaráðinu eru til að mynda sálfræðiprófessorar frá HÍ, HR og HA.

„Í fulltrúaráðinu er fjölbreyttur hópur og segja má að Sólheimar séu að einhverju leyti fyrirmyndin en mér hefur alltaf fundist Sólheimar fín fyrirmynd að farsælu félagsstarfi.“