Í Kaliforníu Sigurgeir Orri með Freydísi Heiði, dóttur sinni, á ströndinni.
Í Kaliforníu Sigurgeir Orri með Freydísi Heiði, dóttur sinni, á ströndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimildarmynd Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar um Alfreð Elíasson og Loftleiðir er nú aðgengileg á netinu, meðal annars á iTunes, Amazon Prime, Tubi og Google Play. „Mér þótti við hæfi að koma myndinni á alþjóðamarkað vegna þess að Loftleiðir…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Heimildarmynd Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar um Alfreð Elíasson og Loftleiðir er nú aðgengileg á netinu, meðal annars á iTunes, Amazon Prime, Tubi og Google Play. „Mér þótti við hæfi að koma myndinni á alþjóðamarkað vegna þess að Loftleiðir voru alþjóðlegt fyrirtæki,“ segir Sigurgeir Orri. Loftleiðamenn hafi enda hugsað stórt. „Þeir hugsuðu út fyrir landsteinana ólíkt keppinautnum sem nýtti sér pólitísk sambönd til að klekkja á þeim, ekki síst í innanlandsfluginu en líka annars staðar.“

Sigurgeir er rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður en jólabók hans í ár er barnabókin Kata klístraða. „Hún er fyrir yngstu lesendurna og fjallar um Kötu sem er með klístraða putta og veit ekki hvað hún á að þurrka sér í.“

Sigurgeir segist alltaf hafa verið áhugamaður um sögur og sögusmíðar. Þegar hann nam bókmenntir og íslensku í Háskóla Íslands hafi hann þýtt bókina Ferð höfundarins eftir Christopher Vogler. Hún fjallar um hvernig goðsögur birtast í kvikmyndagerð og sagnasmíðum og hann hafi leiðst út í kvikmyndagerð.

Merkileg saga

Eitt stærsta kvikmyndaverkefni Sigurgeirs eru átta þættir um sögu 20. aldar á Íslandi, sem hann gerði í samstarfi við Hannes Hólmstein Gissurarson og Jónas Sigurgeirsson, bróður sinn. Þá segist hann hafa kynnst sögu Loftleiða og lesið bókina Alfreðs saga og Loftleiða eftir Jakob F. Ásgeirsson. „Ég áttaði mig á að þetta var meiriháttar efni í heimildarmynd. Þetta var söguefni sem ekki var hægt að láta framhjá sér fara. Þegar ég fór á stúfana tók fjölskylda Alfreðs mér mjög vel, ekki síst Kristjana Milla, Elías, Haukur og Geirþrúður Alfreðsbörn. Það gerðu og aðrir Loftleiðamenn.“

Sigurgeir segir það hafa verið mikla vinnu að gera svona stórri sögu skil. Loftleiðir hafi verið stærsta fyrirtæki landsins á sínum tíma og starfsmennirnir samheldinn hópur. „Umsvif þess voru svo mikil á tímabili að talað var um að sólin settist aldrei hjá Loftleiðum.“ Loftleiðasaga hafi verið fyrirmynd og hvatning margra frumkvöðla í gegnum tíðina. „Það er sérstaklega áhugavert hvað Alfreð tókst að fljúga fyrirtækinu í gegnum hvern skýjabakkann á fætur öðrum. Hann kunni þá list að breyta veikleikum í styrk. Vinur minn, Halldór Hjaltason flugvirki, sem naut góðs af framsýni og áræði Alfreðs, sagði að menn eins og Alfreð fæddust bara einu sinni á öld. Loftleiðasaga er líka harmleikur. Endalok fyrirtækisins eru afar sorglegur kafli. Það er mjög gefandi að hafa gert þessari sögu skil. Loftleiðir höfðu gríðarleg áhrif á Ísland og íslenska menningu á 20. öld.“

Myndin var frumsýnd 2009 og Sigurgeir segir að viðbrögðin hafi verið frábær. Þegar hann var að vinna að myndinni hafi hann sagt í gríni og alvöru að hún væri fyrir gamalt fólk sem horfði á sjónvarp. „Það reyndist vera misskilningur vegna þess að Árna Samúelssyni, bíókóngi og frumkvöðli, fannst myndin svo góð að hann ákvað að sýna hana í kvikmyndahúsum sínum. Það var mikill og óvæntur heiður. Hún höfðar ekki bara til aldraðra heldur til allra aldurshópa. Myndin var í kjölfarið sýnd í þremur þáttum í Ríkissjónvarpinu. DVD-diskurinn seldist upp og fjölmargir hafa séð hana á kvikmyndaveitu Stöðvar tvö, en þar var hún um tveggja ára skeið. Þegar allt er tekið saman hafa tugþúsundir Íslendinga séð myndina.“

Sigurgeir hljóðsetti myndina upp á nýtt með nýrri tónlist og BitMax í Los Angeles tók hana til dreifingar snemma á árinu. Hann segir að áhorf á netmiðlum hafi vaxið jafnt og þétt. „Mér líður núna eins og stórum áfanga sé náð,“ segir Sigurgeir. „Það var mér og hvatning að miðillinn Fast Company birti grein um myndina og lagði áherslu á það hvernig Alfreð Elíasson hefði með snjöllum hætti stórlækkað flugfargjöld milli landa. Það var lágfargjaldastefnan sem var hugmynd Alfreðs.“

Næst á dagskrá er að gera veglega ljósmyndabók um sögu Loftleiða. „Ég vinn að henni núna. Aðdáendaklúbbur Loftleiða á Snjáldru er hafsjór af fróðleik og visku. Þar eru myndir af heilu áhöfnunum sem eru nafngreindar á augabragði. Hópurinn er ómetanleg hjálp við þetta verkefni.“